„Mér fannst þetta svo sexí tilhugsun að vera glæpamaður og díla með fíkniefni“

Andri Már Ágústsson er nýjasti gestur hlaðvarpsins Sterk saman.
Andri Már Ágústsson er nýjasti gestur hlaðvarpsins Sterk saman.

Andri Már Ágústsson er 34 ára faðir og verðandi eiginmaður en hann og æskuástin ætla að ganga í það heilaga í ágúst. Andri á stóra sögu áfalla frá barnæsku að baki en hefur verið í bata frá vímuefnavanda í sjö ár. Hann er nýjasti gestur Tinnu Barkardóttur sem heldur úti hlaðvarpinu Sterk saman.

Andri átti unga móður en hún var aðeins 16 ára þegar hún átti hann og faðir hans tvítugur. „Ég bjó einn með mömmu í bökkunum í Breiðholti fyrstu fjögur árin en foreldrar mínir voru eiginlega aldrei saman þannig. Pabbi var byrjaður í rugli og mamma að fikta líka,“ segir Andri. 

Fyrsta alvöru minning hans er þegar hann var fjögurra ára gamall en þá sat hann uppi á borði inni í eldhúsi hjá mömmu sinni og kona frá barnavernd var að tala við hann.

„Ég man að hún gerði þetta vel, hún setti þetta upp eins og það væri val fyrir mig en í raun var það ekki og ég var tekinn frá mömmu og settur til pabba. Hann var samt ekki hættur að drekka, hætti þremur árum seinna. Ég man ekkert eftir þeim árum,“ segir hann og rifjar upp mikla sektarkennd sem fylgdi því að flytja til pabba síns og konunnar hans.

„Það var ekki fyrr en mörgum árum seinna sem ég áttaði mig á því hversu erfitt þetta var fyrir mig og mikil höfnun,“ bætir hann við. 

Fór á fyrsta alvöru fylleríið eftir áttunda bekk

Skólaganga Andra gekk illa og segist hann ekki eiga neinar góðar minningar tengdar skólagöngu sinni. Hann var strákurinn sem passaði ekki inn í boxið sem skólakerfið býr til fyrir börn og upplifði sig ekki tilheyra þar.

„Ég var svona sjö ára þegar ég reyndi að kveikja í skólanum,“ segir hann og bætir við að hann hafi stolið eldspýtum heima og keypt klósettpappír úti í sjoppu og ætlað að kveikja í. Þegar Andri var í unglingadeild skildi faðir hans við konuna sína og flutti með Andra til ömmu hans. Hann var rifinn upp með rótum og missti tengslin við vini sína og fór í nýjan skóla.

„Ég fór á mitt fyrsta alvöru fyllerí eftir áttunda bekk. Mér fannst það geðveikt, kyssti stelpu, kýldi einhvern og leið eins og súperman þar til ég fór að æla á sjálfan mig,“ segir hann. Andri kynntist eldri strákum, var á hjólabretti og fór að hanga á Ingólfstorgi. Þá, fimmtán ára, fór hann að prófa amfetamín við og við.

„Þegar ég var sautján og farinn að rúnta varð þetta meira. Maður fékk borgað í dópi fyrir að skutla og mér fannst þetta ógeðslega spennandi,“ segir hann. 

Fótboltinn kom í veg fyrir að hann hafi farið fyrr út af brautinni

Frá unga aldri var Andri alltaf í fótbolta og hélt hann því áfram þrátt fyrir þetta og segir hann fótboltann líklega hafa komið í veg fyrir að hann hafi ekki farið fyrr út af brautinni en raun ber vitni.

Sautján ára gamall kynntist hann stelpu, konunni sem hann ætlar að giftast í ágúst, og urðu þau ástfangin.

„Pabbi tók mig á tal og sagði við mig að annað hvort yrði ég að flytja annað eða taka mig á. Það sem ég heyrði var: „Drullaðu þér út auminginn þinn“. Svo ég fór,“ segir Andri.

Í nokkrar vikur svaf hann á stigagöngum og hér og þar vegna þess að hann skammaðist sín fyrir stöðuna sem hann var í en flutti síðan inn til kærustunnar og tengdaforeldra sinna. Á þessum tíma hætti hann neyslu ólöglegra vímuefna en drakk allar helgar og var ömurlegur, að eigin sögn.

„Ég fékk svo þá hugmynd að nota örvandi með drykkjunni til þess að vera betri og fannst ég frábær,“ segir hann. 

Gekk út frá fjölskyldunni og fór á kaf í neyslu

Kærasta Andra varð svo ólétt og mikil hamingja ríkti hjá parinu. Andri, eigandi fimm yngri systkini, var með allt á hreinu þegar kom að barninu og stóð sig vel og náði að halda sér. „Við fluttum svo saman og vorum bara þrjú og þá varð þetta erfitt fyrir mig. Allir brestirnir sem koma hjá óvirkum alkóhólista sem ekki er í bata eru hrikalegir,“ segir hann. 

Andri ætlaði að keppa í vaxtarrækt og ráðfærði sig við menn sem hann hélt að væri góð hugmynd. Hann byrjaði að nota stera, mikið af þeim. Ráðleggingarnar voru því meira því betra. Sterar eru stórhættulegir og gera fólk erfitt í skapi og oft árásargjarnt.

Þegar Andri var 23 ára gekk hann út frá fjölskyldu sinni. Sagðist ekki elska hana lengur og hún þyrfti að finna út með strákinn og svo yrðu bara pabbahelgar. Við tók mikil neysla, sala og eitthvað sem hann sá fyrir sér sem glæpamannalíf.

„Mér fannst þetta svo sexí tilhugsun, að vera glæpamaður og díla með fíkniefni og eiga fullt af peningum,“ segir Andri. Hann svaf á sófanum hjá mömmu sinni og vakti oft í viku og svaf svo í þrjá daga og safnaði skuldum. Hann réð ekki við fíknina.

Var frelsissviptur og beittur ofbeldi

Aðspurður hvort fjölskyldulífið hafi verið fyrir honum á þessum tíma segir hann: „Já, ég fór ekki af því að ég elskaði hana ekki lengur, ég gat ekki lengur notað og sinnt skildum sem fylgdu því að eiga fjölskyldu, fíknin sigraði.“

Á þessum tíma hafði Andri farið að nota kókaín og fíknin orðin mun sterkari. Móðir hans sá um pabbahelgarnar og hann var með ef hann var í standi til þess.

Andri fór svo á Hlaðgerðarkot eftir að hafa verið frelsissviptur og laminn mjög illa. Hann hagaði sér vel í meðferð en gerði sér litla grein fyrir því hvað alkóhólismi væri í raun. „Ég vissi að mamma og pabbi væru alkóhólistar en ég var skíthræddur og skuldaði á þeim tíma 15 milljónir,“ segir hann. 

Eftir meðferð fékk hann undanþágu og fékk að fara beint á áfangaheimilið Brú til þess að geta hitt son sinn. „Ég tók bara það sem hentaði mér úr meðferðinni, fór á einhverja fundi en vildi ekki „sponsor“. Vann fimmtán tíma á dag og var að forðast fundi því ég þoldi ekki að það væri verið að pikka í mig og fólk væri að tala heiðarlega um hvernig því liði, ég gat það ekki,“ segir hann. 

Féll og vaknaði á Litla-Hrauni

Einn daginn fór hann að borga skuld og sá sem hann var að borga spurði hvort hann hafi ekki aðallega verið fyrir kókaín og hvort hann gæti þá ekki selt annað. Hann tók því. Hann féll eftir nokkra daga. „Ég vaknaði á Litla-Hrauni og ég man að ég hugsaði bíddu, var ég ekki að reyna að vera edrú?" rifjar hann upp. 

Andri fékk árs dóm en sat inni í sex mánuði og fékk ekki að sjá son sinn á meðan. „Ég var í rútínu á Hrauninu og leið vel,“ segir hann. 

Eina nóttina lá hann grátandi og manaði sig upp í að enda líf sitt en hringdi í móður sína og bað um hjálp, í fyrsta skipti. Hann fór í annað skipti á Hlaðgerðarkot og ákvað í fyrsta skipti að fara eftir því sem honum var sagt að gera.

Maður sem aldrei hafði tjáð sig um líðan eða sagt frá neinu ákvað að verða edrú fyrir son sinn, sem er á einhverfurófi, og þarf stöðugleika. „Ég nennti ekki að vakna en ég gerði það fyrir hann. Mér fannst óþægilegt að biðja fyrir framan fólk en gerði það fyrir hann. Mér fannst erfitt að tala í pontu en gerði það fyrir hann,“ segir hann. 

Andri var farinn að finna fyrir bata eftir sex til sjö vikur í meðferð og vann sporin.

Hægt er að hlusta á þátt­inn á hlaðvarpsvef mbl.is.

Ef þú upp­lif­ir van­líðan eða sjálfs­víg­hugs­an­ir eða hef­ur áhyggj­ur af ein­hverj­um í kring­um þig get­ur þú leitað til Hjálp­arsíma Rauða kross­ins 1717 (opið all­an sól­ar­hring­inn), Píeta-sam­tak­anna í síma 552-2218 eða bráðamót­töku geðsviðs Land­spít­al­ans í síma 543-4050.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda