„Stundum fer ég yfir strikið og bara get ekki mætt í vinnu og er bara fullur“

Nýjasti þáttur Lífið á biðlista er kominn út.
Nýjasti þáttur Lífið á biðlista er kominn út.

Í nýjasta þætti Lífið á biðlista hélt Gunnar Ingi Valgeirsson til Akureyrar í þeim tilgangi að taka þar viðtöl og fræðast um þjónustuna sem er í boði. Viðmælendur Gunnars Inga í þetta sinn eru vinir, aðstandandi og alkóhólisti.

Viðtalið er tekið upp í mars og talar þá alkóhólistinn, sem hefur verið að drekka tíu til tuttugu bjóra á dag, um að hafa verið á biðlista í fimm mánuði. Nú í júlímánuði þegar þátturinn kemur út, fjórum mánuðum síðar, er hann enn á biðlista. Það gerir níu mánuði í heildina.

„Ef ég drekk einn, tvo bjóra á morgnana þá fúnkera ég í vinnu en stundum fer ég yfir strikið og bara get ekki mætt í vinnu og er bara fullur,“ segir hann í viðtalinu.

Hringdi þrisvar í viku í SÁÁ til að fá upplýsingar um meðferð

Hann segist hringja í SÁÁ þrisvar sinnum í viku til að fá upplýsingar um hvenær hann fær innlögn og gagnrýnir það að fá alltaf mismunandi svör. Stundum segi þau nokkrar vikur, stundum nokkra mánuði.

„Ég hringdi í hann til að láta vita að þátturinn væri að koma út og sagði hann mér þá að hann hafi gefist upp á því að hringja. Hann er bara að bíða,“ segir Gunnar Ingi.

Eftir að hafa reynt í nokkrar vikur að fá niðurtröppunarlyf frá heimilislækni án árangurs endaði það með því að vinnuveitandinn hans hjálpaði honum að útvega þau. Vinkona hans, aðstandandinn, sá svo um að skammta honum lyfjunum. Það skilaði sér níu vikna edrúmennsku.

Hann segist aldrei hafa getað það einn. Hann segist mjög þakklátur vinkonu sinni sem hefur vakað yfir honum og passað upp á hann á meðan hann hríðskalf og upplifði að hann yrði að fá áfengi.

Vinkonan hafði aldrei gert sér grein fyrir því hvað áfengisneysla væri mikil böl. Sjálf þekkir hún það þó að vera dóttir alkóhólista sem drakk allar helgar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál