„Hann flutti til Grænlands og barnaði stelpu í tíunda bekk“

Guðbjörg Ýr Valkyrja Guðbjargardóttir er nýjasti gestur hlaðvarpsins Sterk saman.
Guðbjörg Ýr Valkyrja Guðbjargardóttir er nýjasti gestur hlaðvarpsins Sterk saman.

Guðbjörg Ýr Valkyrja Guðbjargardóttir er 44 ára kona sem alin var upp við alkóhólisma, mikla vanrækslu og andlegt ofbeldi. Hún er nýjasti gestur Tinnu Barkardóttur sem heldur úti hlaðvarpinu Sterk saman en þar segir hún frá stórri áfallasögu sinni sem byrjaði strax í æsku.

„Ég er fyrsta barn foreldra minna og var strax frá unga aldri látin finna fyrir því að ég væri ekki velkomin og ekki eins og mamma vildi hafa mig,“ segir Guðbjörg og bætir við að henni hafi oft og reglulega verið sagt að hún væri ljót og feit. Hún fékk þau skilaboð frá umhverfi sínu að hún væri ekki samþykkt.

Aðeins 12 ára gömul var Guðbjörg send í bæinn og var fyrst á spítala en var síðan látin leigja herbergi í Reykjavík á meðan foreldrar hennar og tveir yngri bræður bjuggu úti á landi.

„Ég bjó ein og gekk í Hagaskóla. Það vissu það allir. Það var auðvitað mikil höfnun. Ég leigði herbergi hjá stelpu. Það var alltaf verið að segja mér, bæði beint og óbeint, að ég væri fyrir og ekki velkomin,“ segir hún. 

Í tíunda bekk var Guðbjörg farin að leigja hjá annarri ungri stelpu sem djammaði mikið og fór hún sjálf að drekka mikið. Hún fann að það var léttir að þurfa ekki að vera hún sjálf. Hún var alltaf hávær og svaraði fyrir sig, þar til kannabisefni komu til sögunnar, seinnipart tíunda bekkjar.

Allt í einu sat hún aftast í bekknum, þagði og einkunnir fóru að lækka en aldrei var barnavernd sett inn í hennar mál. Það er undarlegt að hugsa til þess að tólf til fimmtán ára gamalt barn búi eitt, sé byrjað í neyslu, hafi verið vanrækt og það komi fram í skýrslum frá spítala að grípa þurfi barnið en barnavernd sé ekki kölluð til.

Faðir Guðbjargar barnaði stelpu í tíunda bekk

Faðir Guðbjargar fór til Grænlands að vinna eitt árið og tók hana með sér í nokkrar vikur til að aðstoða sig. Hún var alltaf dugleg til vinnu. Hún var unglingur og endaði ein á hreindýrabúi þar sem hún var áreitt kynferðislega.

Neysla Guðbjargar var sveiflukennd og komu tímabil þar sem hún var edrú og önnur þar sem neyslan var mikil. „Ég var alltaf á flótta undan sjálfri mér og byggði virði mitt á því að vera dugleg að vinna því mér var sagt að ég væri ekki nóg á öðrum sviðum,“ segir hún.

Árið 2015 steig Guðbjörg fram og sagði frá því að pabbi hennar væri ekki hetjan sem hann var málaður upp sem í fjölmiðlum. „Ég gat ekki setið á mér. Hann flutti til Grænlands og barnaði stelpu í tíunda bekk, verandi 63 ára. Ég fékk yfir mig þvílíkan viðbjóð og fólk jafnvel sakaði mig um að geta ekki unað föður mínum að vera hamingjusamur,“ segir Guðbjörg. 

Fólk jós yfir hana fúkyrðum og setti út á útlit hennar. „Ég benti á að þetta myndi horfa öðruvísi við ef um íslenska stúlku og grænlenskan mann væri að ræða.“

„Ég get uppljóstrað því núna, fyrst mamma er dáin, að hún sagðist hafa verið stolt af mér fyrir að hafa sagt frá þessu. Ég missti fjölskylduna mína í kjölfarið,“ segir hún. 

Missti 99 kíló en kunni ekki á athyglina sem hún fékk

Guðbjörg þráði viðurkenningu og fór úr einu ofbeldissambandi í annað. Eitt samband var með miklum ofbeldismanni og narssisista sem seldi henni ákveðna ímynd af sér í upphafi en raunveruleikinn var svo annar.

Á þessum tíma hafði Guðbjörg farið í hjáveituaðgerð og misst 99 kíló á átta mánuðum. Hún kunni ekki á athyglina sem hún fékk og þekkti ekki sjálfa sig.

„Ég bauð honum svo með mér til Dalvíkur í ferð sem ég fékk í fertugsafmælisgjöf. Um kvöldið var hann með annarri konu, ég bað hann að hætta, hún réðst á mig og beit mig út um allt. Ég, í sjokki, fór með honum inn í hús þar sem hann henti mér í rúmið og nauðgaði mér,“ segir Guðbjörg. 

„Hann átti að vera besti vinur minn, þetta er eitt erfiðasta áfall sem ég hef þurft að upplifa, þrátt fyrir öll hin,“ segir hún. 

Hægt er að hlusta á þátt­inn á hlaðvarpsvef mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda