Mælir með markmiðasetningu á sumrin - ekki í janúar

Dóra Jónsdóttir, sérfræðingur í leitarvélabestun, komst að nýrri leið til að setja markmið fyrir árið sem getur eflaust orðið bjargráð fyrir marga íslendinga í vetrarskammdeginu. Dóra hefur verið búsett síðustu 12 mánuði í Ölpunum í Frakklandi þar sem hún getur sinnt snjóbrettaáhuga sínum að fullu. Þegar Dóra er ekki á snjóbretti starfar hún sem framkvæmdarstjóri hjá stafrænu fjölmiðlafyrirtæki en einnig sem ráðgjafi fyrir markaðsdeildir sem vilja koma upp árangursríkri miðlun. 

Hvers vegna ætti fólk frekar að setja sér markmið á sumrin?

„Ég er algjörlega á því að setja sér markmið í janúar til að setja tóninn fyrir árið. Það er svo algengt að við setjum okkur markmið í janúar, vinnum að þeim fram í febrúar, hættum svo, en pikkum upp þráðinn aftur í byrjun desember til að ná fyrir árslok. Þess vegna er sumarið góður tímapunktur til að taka stöðuna og uppfæra markmiðin sem þú settir í byrjun árs. Að upplifa sig misheppnaðan og gefast upp því við erum ekki á áætlun, hefur meira með egóið að gera en stoð í raunveruleikanum. Við megum ekki láta egóið koma í veg fyrir að við náum árangri,“ segir Dóra.  

Hverjir eru kostirnir að setja sér markmið á sumrin?

„Við erum ekki alltaf heppin með veðrið á Íslandi og getum ekki neitað því að það spilar stóran part í orkunni okkar. Við byrjum árið í mesta myrkrinu og veljum þann tíma til að setja okkur háleit langtíma markmið og byrja í sjálfsvinnunni. Við erum öll af vilja gerð í nýárs pressunni, tilbúin að búa til besta árið okkar og breyta til. Þetta er þó tími þar sem orkan hjá flestum er í lágmarki. Við getum sagt að við séum að setja okkur markmið í umhverfi sem verður til þess að okkur mistekst. Og ef við erum ekki á áætlun, sem er svo oft raunveruleikinn, byrjar okkur oft að líða eins og við séum ekki alveg „með’etta.“

Dóra segir að sumarið er kjörinn tími til að taka stöðuna á markmiðunum þegar sólin er sem hæst á lofti og janúar pressan um að ná öllum markmiðum fullkomlega er langt í burtu. 

„Löngunin til að ná árangri byrjar og endar ekki með 1. janúar, sem betur fer. Sumarið er því kjörinn miðpunktur ársins til að endurvekja þessa löngun. Í umhverfi þar sem dagarnir eru langir og sólin hátt á lofti. Einnig skemmir það ekki fyrir að janúar pressan, sem varðar markmið og að byrja nýja árið af krafti, er ekki til staðar á sumrin. Þetta er „Win-win.“ Njóttu þess að brjóta upp árið, taktu pressuna af og notaðu dagsbirtuna til að efla þig. Þú ræður hvað gerist næst,“ segir Dóra. 

Hver eru þrjú skrefin til að endurmeta markmið og setja ný fyrir árslok?

Dóra segir að hún byrjar á því að finna og endurmeta tilganginn til að átta sig á því hversvegna hún setti sér ákveðið markmið. Þannig getur hún sett sér ný markmið ef þess þarf. Hér að neðan eru þrjú skref sem hjálpað henni í þessu ferli.

1) Spyrðu sjálfa þig hvað varð til þess að þú settir þetta markmið? Og hvernig verður líf þitt betra ef þú nærð þessum árangri? Hvað breytist? Hvað mun það þýða fyrir þig ef þú nærð því ekki og hvernig mun þér líða?

2) Uppfærðu markmiðin. Markmið breytast og þróast eftir því sem við breytumst. Eitthvað sem átti við hjá þér fyrir sex mánuðum getur verið að eigi ekki við í dag og markmið sem þú settir í byrjun árs geta hafa verið óraunhæf eða alltof auðveld. Þú veist það oft ekki fyrr en þú leggur af stað. Því er nauðsynlegt að taka stöðuna. Spyrðu sjálfa þig hvort markmiðin eigi enn við og hvort þú upplifir enn sömu löngun og spennu gagnvart þeim.

3) Markmið án áætlunar er bara ósk. Þegar þú hefur uppfært markmiðin er nauðsynlegt að hugsa um hvað þú getur gert í dag til að færa þig skrefinu nær því að ná settum árangri. Hvað getur þú gert í vikunni og í næsta mánuði til að stíga skref í rétta átt. Skrifaðu niður hvaða aðgerðir þú þarft að taka og áætlaðu tímaramma fyrir verkin. Markmiðin okkar breytast alltaf og við lögum þau til eins og við þurfum. Betra er að laga markmiðin aðeins til en gefast alveg upp.

Hver er sagan á bakvið þennan fókus hjá þér?

„Ég hef síðustu ár verið í mikilli sjálfsvinnu og umkringt mig fólki sem sérhæfir sig m.a. í markmiðasetningu og að lifa lífinu með tilgangi. Svo ég hef unnið að því að móta og finna mína eigin vegferð sem snýst mikið um markmiðasetningu. Ég lærði að það er mikilvægt að brjóta upp bæði markmið og tímaramma því við eigum það til að ofmeta það sem við getum gert á einum degi en vanmeta það sem við getum afrekað á einu ári.

Dóra segist njóta þess að upplifa janúar tilhlökkunina aftur um mitt sumarið því þá fer hún að undirbúa sig í að takast á við seinni helming ársins. 

„Ég fór inn í árið með það markmið að byrja kenna leitarvélabestun með fókus á lífstílsblogg. Í stað þess að setja mér markmið fyrir árslok og bíða og vona að það gengi upp, braut ég það niður í ársfjórðunga og byrjaði að vinna í því þannig. í júlí minntist maðurinn minn á það að árið væri hálfnað og ég fékk smá sjokk. Þó ég væri að vinna eftir mínu plani og var að taka stöðuna á þriggja mánaða fresti, fannst mér það vera svo stór tímamót að árið væri hálfnað. Mér fannst ég verða að endurmeta allar áherslur sem ég hafði sett fyrir árið. Þá upplifði ég alla janúar tilhlökkunina uppá nýtt og mér fannst ég meira tilbúin í næstu sex mánuði,“segir Dóra

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda