Rithöfundurinn Benný Sif Ísleifsdóttir segir frá sinni nýjustu bók Speglahúsið. Bókin fjallar um Rósu, sem er miðaldra hárgreiðslukona, sem ákveður að breyta lífi sínu og leggja skærin á hilluna. Hún flytur austur í Mjóafjörð og kemur á fót óvenjulegri ferðaþjónustu. Meðan ferðamenn setja sig í spor Lísu, sem lá lömuð þar um miðja síðustu öld, bakar Rósa fyrir kaffihúsið og hugsar til ömmu sinnar sem sá um Lísu og heimilið. Speglahúsið er í senn samtímasaga og sögulegt skáldverk, um þrjár konur innan um sömu spegla í sama húsi.
Benný Sif Ísleifsdóttir hefur hlotið mikla athygli og lof undanfarin ár fyrir skáldsögur sínar um íslenskar alþýðukonur, örlög þeirra, sigra og sorgir. Hansdætur var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Evrópusambandsins og Gríma fékk Íslensku hljóðbókaverðlaunin.
„Lesandinn áttar sig á þessum miklu örlögum,“ segir Benný um Speglahúsið.