Heimilislegir hollusturéttir á Gló

Sólveig Eiríksdóttir á Gló.
Sólveig Eiríksdóttir á Gló. mbl.is/Golli

Það er algengur misskilningur að hollur og góður matur sé bara fyrir íþróttafólk og sérvitringa sem hvorki bragða kjöt né fisk. Það skiptir engu máli hvað við gerum í lífinu, við erum það sem við borðum. Frumur líkamans þurfa orku til að endurnýja sig og líkaminn þarf auðmeltanlegt og næringarríkt fæði til að halda sjálfum sér við og allri líkamsstarfsemi. Sólveig Eiríksdóttir, Solla eins og hún er betur þekkt, hefur verið frumkvöðull í heilbrigðum og góðum réttum á Íslandi. Nú hefur hún ásamt eiginmanni sínum opnað veitingastaðinn Gló í Listhúsinu í Laugardal. „Við fórum út í þetta í janúar 2010 en þá stóð okkur til boða að yfirtaka veitingastað sem var hér áður og við ákváðum að slá til. Okkur fannst vera kominn tími á að fara af stað aftur því ég hefði eitthvað nýtt fram að færa. Ég vildi ekki fara að opna annan Grænan kost eða álíka stað,“ segir Solla og bætir því við að hún hafi orðið vör við aukinn áhuga á hráfæði á ferðalögum sínum milli heilsuráðstefna. „Ég tók eftir því að fólk er farið að borða meira hráfæði og þess vegna fannst mér tími til kominn að kynna þetta almennilega fyrir Íslendingum. Ég hef sjálf borðað hráfæði síðan 1996 og þekki þann lífstíl því mjög vel. Þá er ég líka mikill gikkur og vil hafa matinn minn góðan. Þess vegna legg ég mikið upp úr því að maturinn á Gló sé góður. Annað gengur ekki upp því ef hann er ekki góður og fjölbreyttur t.d. með því að bjóða upp á kjöt með þá getur maður bara opnað lítinn stað fyrir nokkra sérvitringa.“ Að sögn Sollu var hún að prófa sig áfram með ýmsa rétti frá 2005 og hefur hún því í góðan sarp uppskrifta að leita auk þess að vera í sífellu að prófa eitthvað nýtt.

Ekki bara grænmeti

„Staðurinn sem var hérna á undan var með kjöt og fisk og ég hugsaði með mér að ef ég væri líka með kjöt myndu fleiri koma og kynnast hráfæðinu en alveg ¾ af disknum er hráfæði. Það var síðan bara tilviljun að þetta er nákvæmlega það fæði sem íþróttafólk leitar mikið í. Við vorum t.d. með heilt fótboltalið hjá okkur í mat. KR-ingarnir komu og þeir fengu kjúklinginn sinn og svo fengu þeir gott kolvetni úr ávöxtunum, grænmetinu, hnetunum og baununum. Ég fæ rosalega mikið af íþróttafólki eins og t.d. crossfit-fólki því þetta fæði hentar íþróttafólki mjög vel,“ segir Solla og bætir því við að hráfæði sé góð leið til að ná manneldismarkmiðum um næringargildi í mat fyrir hvern dag. „Ef þú vilt borða bara hráfæði þá er það bara frábært en ef þú vilt kjöt og fisk þá getur þú gert það en færð þá líka grænmetið hjá okkur.“

Vandaðar sósur og grænmeti

„Við erum alltaf með nóg úrval af grænmeti og ég legg mikið upp úr því að hafa vandaðar salatsósur. Þá ertu að fá omega 3 beint úr dressingunni og svo notum við mikið af fersku kryddi“

Hráfæði er ekki bara gulrætur og kál heldur er það að sögn Sollu allt grænmeti, hnetur, fræ, möndlur, sjávargrænmeti á borð við þara o.fl. „Það er hægt að elda svo margt með þessari aðferð. Ég nota þurrkofna og bý t.d. til snakk úr grænkáli. Þá bý ég til dressingu úr hnetum og set á grænkálið og inn í þurrofninn. Þetta jafnast á við venjulegt snakk nema bara miklu hollara. Svo tek ég helling af basil, klettasalati og hnetum og bý til mauk og set í form og síðan inn í ofn og bý til bökur. Þetta geri ég í staðinn fyrir að nota hveiti, vatn og egg og þetta er sjúklega gott. Fyrirliði íslenska kokkalandsliðsins ætlaði varla að trúa því að súkkulaðimús sem ég bjó til væri gerð úr hráfæði. “

Matarpoki fyrir allan daginn

„Ég hef boðið upp á þá þjónustu að elda ofan í fólk allan daginn,“ segir Solla í léttum dúr. Hjá Sollu býðst fólki að kaupa matarpoka með öllum máltíðum dagsins. „Við fengum matvælafræðinga til að reikna út næringargildi fyrir okkur til að tryggja að fólk fái ráðlagðan dagskammt af næringarefnum. Þú kemur í hádeginu og færð þá hjá okkur hádegismat og síðan ferðu heim með pokann sem inniheldur sjeik í eftirmiðdagshressingu og litlar kúlur úr döðlum sem ég lauma alltaf með og öðru svona til að snarla á ef fólk þarf eitthvað sætt. Síðan er kvöldmatur og kvöldsnarl en kvöldsnarlið getur verið t.d. lífrænt te og um morguninn færðu græna djúsinn sem er rosalega góður og graut úr chiafræjum og bláberjum og smá milli máltíðarsnakk.“

Margir hafa nýtt sér matarpoka Sollu til að hjálpa sér að komast af stað í nýjum lífsstíl. „Þetta er mjög sniðugt fyrir þá sem vilja byrja að taka á mataræðinu. Ég get nefnt dæmi um hjón sem hafa keypt hjá mér matarpokana núna í að verða þrjá mánuði og eiginmaðurinn er búinn að léttast um nærri 30 kíló á þeim tíma og þau bæði tala um að öll sykurþörf sé horfin.“

Matreiðslunámskeið Sollu

Þeim sem keypt hafa matarpokann af Sollu hefur staðið til boða að mæta á matreiðslunámskeið hjá henni til að læra að elda hráfæði. „Þetta er ekki námskeið sem tekur margar vikur heldur er um að ræða eina kvöldstund þar sem ég fer yfir það helsta og kenni fólk að elda hráfæði. Innifalið í þessu er matreiðslubók og máltíð á námskeiðinu og ég hef hingað til ekki rukkað meira en fimm þúsund krónur fyrir námskeiðið,“ segir Solla og bætir því við að í vetur verði hún með fleiri námskeið sem verða öllum opin. „Ég var bara með eitt námskeið í mánuði í sumar en stefni á að vera með á tveggja vikna fresti í vetur. Þetta er líka svo vinsælt að ég hef ekki verið að auglýsa þetta.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál