Paprikuplantan er upprunnin í Mið-Ameríku og Suðaustur-Asíu. Spánverjar fluttu hana með sér frá Ameríku til Evrópu á sautjándu öld. Það var svo ekki fyrr en eftir síðari heimsstyrjöldina að hún barst til norðanverðrar Evrópu. Orðið paprika er dregið af latneska orðinu piper og gríska orðinu piperi, sem þýðir pipar. Á hebresku er heitið paprika og á japönsku papurika. Lengi vel var paprika mest ræktuð í Ungverjalandi, Búlgaríu, Rúmeníu og Miðjarðarhafslöndunum en nú eru vinsældir hennar það miklar að hún er ræktuð í flestum löndum Evrópu, bæði utandyra og í gróðurhúsum.
Paprikan er af náttskuggaætt (Solanaceae) og því náskyld eggaldini, tómat og kartöflu. Í öllum tegundum papriku er kapsikín, efnið sem gefur þeim hið sterka og einkennandi bragð. Það finnst einkum í fræjunum og himnum innan í aldininu. Úr þessum hlutum aldinsins í kryddpapriku er unnið svokallað chilli duft. Himnurnar og fræin eru einnig nokkuð bragðsterk í venjulegri papriku. Paprika er samheiti yfir aldin tegundarinnar capsicum annuum sem eru stór og mild á bragðið. Til eru margar gerðir af papriku sem eru ólíkar að stærð, lögun og lit en einnig er talsverður munur á bragðinu. Plantan myndar fyrst græn aldin sem síðan verða rauð, gul, appelsínugul, hvít eða dökkfjólublá þegar þau eru fullþroskuð.
Rauð og gul paprika er því í raun fullþroskuð græn paprika sem hefur skipt um lit. Við meiri þroska eykst sætuinnihald aldina en efnið kapsikín minnkar þannig að lituð aldin eru að jafnaði bragðbetri en þau grænu. Sérstök sæt paprika er ræktuð hér á landi og er mjög vinsæl. Hún er í laginu eins og litla kryddpaprikan (chilli), en miklu stærri. Kryddpaprika myndar minni aldin en verjuleg paprika en er mun bragðsterkari.
Næringargildi
Best er að fá vítamín og steinefni úr fæðunni og þá sérstaklega úr grænmeti og ávöxtum. Allt grænmeti er hollt fyrir líkamann en dökkt og litsterkt grænmeti er almennt næringarríkara en það ljósara. Paprika er mjög rík af C vítamíni. Í rauðum aldinum er þrisvar sinnum meira C vítamín en í appelsínum og í grænum aldinum tvöfalt meira af C vítamíni en í appelsínum. Í papriku er einnig mikið af A vítamíni, B vítamíni, steinefnum og trefjum. Grænar og gular paprikur eru mjög ríkar af beta-karótíni sem umbreytist í A-vítamín í líkamanum.
Beta-karótín flokkast sem andoxunarefni og ver frumur líkamans gegn slæmum áhrifum súrefnis og mengunar. Einnig er talið að andoxunarefni eins og beta-karótín og C-vítamín minnki hættu á myndun krabbameins í líkamanum auk þess að draga úr oxun LDL kólesteróls í æðum sem hefur bein áhrif á lægri tíðni kransæðasjúkdóma.
Í papriku eru einnig svokölluð plöntuefni (phytochemicals) sem flokkast ekki með vítamínum en efla varnir líkamans og auka heilbrigði hans. Í papriku, eins og öllu grænmeti, eru trefjar sem eru nauðsynlegar fyrir heilbrigði meltingarkerfisins. Paprikur má nota á óteljandi vegu. Hráar eru þær notaðar í salöt, sem álegg ofan á brauð, með ostum og kexi eða með ídýfu. Paprikur eru einnig ljúffengar í kjöt- og fiskrétti, pastarétti, grænmetisrétti, súpur, á grillið og fylltar t.d. með kjöti og hrísgrjónum. Paprikur eru sérlega góðar með tómötum og ólífuolíu og í ýmis konar kryddlegi. Paprika er hitaeiningasnauð, í 100g eru 36 hitaeiningar (kcal).
Geymsla
Geymsluþol papriku er nokkuð mismunandi, þó geymast græn óþroskuð aldin best. Réttur hiti er 8 – 12 °C. Papriku hættir nokkuð til að tapa vatni í þurru lofti. Hún þolir illa að vera nálægt vörum sem mynda etýlen t.d.eplum, tómötum og perum.