Auðunn Blöndal byrjaði með nýjan þátt á FM957 á dögunum sem heitir FM95Blö og er síðdegisþáttur. Auðunn vakti athygli í myndbandi fyrir þáttinn þar sem hann keyrir á ógurlegu rauðu tryllitæki frá Hyundai. Svipaður bíll flokkast einmitt undir verstu kaup kappans sem hann stórtapaði á.
Hvert er besta sparnaðarráðið? „Allt annað en níska! Það er ekki þess virði að missa vini á sparnaði.“
Í hvaða vitleysu eyðir þú peningum?
„Ætli það sé ekki oftast þegar að maður er búinn með 2-3 kalda í bænum. Það getur orðið dýrt með öllum drykkjum og leigubílum heim.“
Bestu kaupin?
„Líklegast íbúðin mín.“
Verstu kaupin?
„Hyundai Coupe 1997 árgerð. Hann var keyptur á 100% láni á 1,3 milljónir, en ég endaði á að borga 2,4 fyrir hann. Svo seldi ég hann á 200.000 kr.“
Sparar þú meðvitað?
„Nei því miður, en er samt að skána.“
Ef þú ættir milljón á lausu, hvað myndir þú kaupa?
„Flatskjá handa múttu og kíkja svo í gott ferðalag.“