Auður Guðmundsdóttir í Stjörnuþjálfun er orðin svolítið kvíðin fyrir „eftir“ myndinni sem tekin verður af stelpunum þegar átaki lýkur.
„Svona eftir á að hyggja þá er „fyrir“ myndatakan miklu minni mál, þá mátti ég vera bolla og öllum var sama um hvort að myndin væri frábær eða ekki því að ég var hvort sem er í þessu til að laga mig til, en það er ekki hægt að segja að öllum verði sama um hvernig útkoman á „eftir“ myndatökunni verður og þá sérstaklega ekki mér! Nei mér er sko ekki sama, því að ég vil sýna það og sanna að það er allt hægt á 12 vikum og vera fyrirmynd fyrir aðrar konur sem vilja taka sig í gegn. Þessar seinustu tvær vikur verða því teknar með trompi svo að ég geti hreykin staðið á baðfötunum 2. desember og verið virkilega stolt af stjörnuþjálfaða kroppnum mínum, því hann og ég eigum það bæði skilið að vera stolt af okkur,“ segir Auður á bloggi sínu.
„Ég er núna alveg komin á fullt í að hugsa um hvað ég eigi svo að gera næst. Ég er komin í miklu betra form en mig hafði nokkurn tíma dreymt um og mér líður eins og allir vegir séu færir, fyrir utan það að detta aftur í sukkið, það er sko ekki í boði! Þeim vegi hefur verið lokað og það stendur ekki til að opna fyrir hann aftur. Kannski maður skelli sér bara í að prófa crossfit eða eitthvað slíkt eftir áramót, það gæti verið gaman að prófa það.“
„Ég fæ oft spurninguna frá vinum og vandamönnum : „máttu borða þetta?“ Mér finnst þetta alltaf jafn asnalega orðuð spurning vegna þess að auðvitað má ég borða allt sem ég vil, en ég bara kýs að gera það ekki! Ég er orðin miklu meðvitaðri um hvað ég er að láta ofan í mig og mér er farið að þykja svo vænt um stjörnuþjálfaða kroppinn minn að ég er bara ekki til í að setja hvað sem er ofan í hann! Þetta er allt saman spurning um val og eins og Anna Eiríks segir svo oft : Val er vald og það gæti ekki verið meira satt. Mér finnst líka miklu auðveldara að hugsa að ég ætli ekki að fá mér nammi af því að ég kýs að gera það ekki, heldur en af því að það er bannað. Bannað er eitthvað svo leiðinlegt orð og það að eitthvað sé bannað gerir hlutina meira spennandi, þannig erum við bara. Allt sem er bannað er freistandi. Svo bara það að skipta út orðinu bann fyrir val gerir hlutina strax svo miklu auðveldari. Það að hætta að borða einhverja ákveðna fæðu þarf heldur ekki að vera lífstíðardómur, heldur bara tilraun í einhvern ákveðinn tíma, svo getur bara vel verið að þú finnir að fæðan hentar þér ekki og ákveður sjálfviljug/ur að taka hana út úr mataræðinu en það er þá vegna þess að þú kýst það, en ekki að það sé bannað,“ segir Auður á bloggi sínu.