Það var víst engin vitleysa hjá foreldrum okkar í gamla daga að hafragrautur er ákaflega hollur og góður. Hann er saðsamur og fullur af næringarefnum. Á síðari árum, eftir því sem úrvalið hefur aukist af hollustuvörum, hefur fólk áttað sig á því að hægt er að bragðbæta hafragraut á margvíslegan hátt. Bæði er hægt að setja út í grautinn ýmis fræ en einnig ávexti, jafnt þurrkaða sem ferska, jarðarber, bláber, rúsínur, trönuber, hnetur, möndlur, melónukjarna og engifer.
Sem dæmi um ferska ávexti til að setja út í hafragrautinn má nefna epli, banana, mangó eða ananas. Fleiri suðrænir ávextir passa vel með grautnum. Frosin ber gera einnig gagn en úrval af niðursneiddum berjum er nú auðvelt að nálgast í búðum.
Gott er að nota fljótandi hunang til að sæta grautinn en einnig kókósflögur eða þurrkaðar apríkósur. Það eru ótrúlega margir möguleikar til að breyta venjulegum hafragraut í sannkallaðan veislu-morgunmat.