Páll Magnús Guðjónsson var 105 kíló þegar hann steig á vigtina í janúar 2004. Hann segist hafa verið feitur frá tám og upp að eyrum og fann til vanmáttar. Hann vill þó ekki meina að hann hafi glímt við offitu heldur hafi verið þybbinn. Í dag er hann búinn að snúa blaðinu við, stundar nám við Keili og kennir í Reebok fitness.
„Sem barn var ég venjulegur í vextinum en upp úr fermingu fer að síga á þyngri hliðina. Í janúar 2004 var ég orðinn þriggja stafa tala og þá þurfti ég að fara að gera eitthvað í málunum. Þegar ég steig á vigtina í janúar 2004 sýndi vigtin 105 kíló,“ segir Páll. Hann var lítið fyrir íþróttir og fannst fólk sem stundaði líkamsrækt klikkað.
„Ég var búinn að prófa alls konar skyndilausnir, Herbalife og brennslutöflur en ekkert virkaði. Ég vil taka það fram að ég er ekkert á móti Herbalife, það hentaði mér bara ekki.“
Fjölskylda Páls var nýbúin að fá sér hund og til að byrja með fór hann í göngutúr með hundinn á hverjum degi. Hann byrjaði auk þess á því að borða morgunmat, en það hafði hann aldrei gert áður.
„Í framhaldinu fór ég að stunda líkamsrækt í líkamsræktarstöð en fannst ég samt mjög hallærislegur. Ég átti ekki flott íþróttaföt og hélt að allir í líkamsræktinni væru að spá í það. En svo komst ég að því að flestir voru bara að pæla í sjálfum sér.“
Hann segist hafa verið eins og jójó fyrstu árin. Náði af sér nokkrum kílóum en fitnaði svo aðeins aftur og grenntist aftur og þar fram eftir götunum.
„Svo tók ég þetta föstum tökum og náði af mér 17 kílóum og í dag er ég 33 kílóum léttari en ég var þá.“
2007 fór Páll að vinna sem flugþjónn hjá Iceland Express og segist hafa borðað aðeins of hraustlega af flugvélamatnum.
„Þegar ég byrjaði að fljúga fór ég að borða allt of mikið brauð, gos og nammi. Í lok árs 2007 flutti ég til Kanaríeyja þar sem ég starfaði sem fararstjóri. Þá byrjaði ég að æfa fimm sinnum í viku og áhugi minn á spinning vaknaði. Í framhaldinu fór ég að mæta í brennslutíma og í body pump-tíma. Þarna komst ég upp á lagið og hef haldið mér í góðu formi síðan. Í apríl 2008 fór ég aftur að fljúga og þá gekk mér miklu betur. Meðfram fluginu fór ég að æfa í Hreyfingu og þá datt ég í gírinn.“
Páll skráði sig á kennaranámskeið í body pump og eftir það fékk hann vinnu sem spinning-kennari og hefur verið óstöðvandi í ræktinni síðan. Þegar hann er spurður hvað sé svona heillandi við spinning nefnir hann útrásina sem hann upplifir í tímunum. „Áður fannst mér rosalega leiðinlegt að sitja á hjóli með tónlist en komst að því að spinning er frábært ef maður er með rétta tónlist.“
Páll fór þó ekki bara í ræktina heldur vandi sig á að borða sex máltíðir á dag. Hann segir að líf sitt hafi breyst til batnaðar.
„Ég borða allt og tek mér alltaf einn sukkdag í viku og það er á þriðjudögum. Þá panta ég mér pítsu og leyfi mér aðeins meira.“
Páll segist alls ekki hefðu viljað fara á mis við það að vera þybbinn.
„Mér finnst svo ómetanlegt að hafa gengið í gegnum þetta,“ segir hann og hlær.