Jónína Benediktsdóttir hefur hjálpað Bergþóri Pálssyni, Sigrúnu Eðvaldsdóttur og Ólafi Ísleifssyni að komast í form. Nú er hún búin að skrifa nákvæma leiðbeiningabók sem hjálpar fólki að breyta um lífsstíl. Bókin gengur ekki bara út á að létta fólk heldur á hún að hjálpa því að hægja á öldrun og auka lífsgæði sín. Með bókinni fylgja tveir stuðningsdiskar sem eiga að hjálpa fólki að ná markmiðum sínum.
Bergþór Pálsson söngvari er mjög ánægður með þann árangur sem hann náði undir handleiðslu Jónínu.
„Ég hef tvisvar verið í meðferð hjá Jónínu Ben. sem hefur skilað góðum árangri. Hún hefur til að bera þekkingu og dýrmæta reynslu sem og einlægan og smitandi eldmóð sem þarf til að vekja fólk af værum blundi og hvetja til dáða,“ segir hann. Sigrún Eðvaldsdóttir konsertmeistari hefur sömu sögu að segja.
„Áhrif svona meðferðar eru töfrum líkust fyrir líkama og sál. Með fyrirlestrum og leiðsögn kenndi Jónína mér að breyta mínum lífsstíl algerlega. Ég nýt góðs af því á hverjum degi,“ segir hún.
Hagfræðingurinn Ólafur Ísleifsson hefur einnig náð miklum árangri með hjálp Jónínu.
„Með leiðsögn Jónínu Ben. lærði ég að sneiða hjá hvítum sykri, hvítu hveiti, velja mat sem er næst upprunanum og temja mér hófsemi. Ávinningur og árangur eru gríðarlega mikil.“