Yrsa B. Löve, sérfræðingur í ofnæmislækningum, segir að frúktósi, eða ávaxtasykur, sé í raun á margan hátt verri fyrir líkamann og erfiðari úrvinnslu en glúkósi. Agave-síróp er dæmi um afurð sem inniheldur hátt hlutfall frúktósa og hefur notið mikilla vinsælda þar sem því hefur verið haldið fram að það sé hollara en hvítur sykur. Það er unnið úr agave-plöntunni og sætan í því er að stærstum hluta frúktósi (mishátt hlutfall milli framleiðenda). Hvítur sykur er unninn úr sykurreyr og er svokölluð tvísykra, sett saman úr glúkósa og frúktósa. Frúktósi er gríðarmikið notaður til að sykra tilbúna fæðu í dag í stað hefðbundins sykurs, gjarnan sem „high fructose corn syrup“.
Í vikunni birti Smartland grein þar sem þeirri spurningu var varpað fram hvort betra væri fyrir líkamann að neyta agave-síróps en hvíts sykurs. Yrsa segir að frúktósi í svo hreinu formi hafi ekki góð áhrif á líkamann.
„Nánast allar frumur líkamans geta tekið upp glúkósa og nýtt sér hann. Líkaminn vinnur hins vegar úr frúktósa með sama hætti og hann vinnur úr alkóhóli, þ.e. nánast eingöngu í lifrinni. Mikil alkóhólneysla skaðar lifrina, fólk getur fengið svokallaða fitulifur. Mikil neysla á frúktósa er nú líka talin geta valdið fitulifur. Lifrin býr til litlar fitusameindir úr frúktósanum. Þær safnast fyrir í fitufrumum okkar og stuðla einnig að myndun æðasjúkdóma, m.a. kransæðasjúkdóma,“ segir Yrsa.
Hún segir að frúktósi valdi líka því að magn leptíns og insúlíns í blóði lækki en leptín er prótein sem veldur seddutilfinningu. Þannig geti mikil neysla frúktósa valdið því að við finnum ekki fyrir því að við séum orðin södd og borðum því meira en ella. Þetta veldur þyngdaraukningu. Frúktósi veldur minni, en meira langvarandi hækkun á blóðsykri en hvítur sykur og hefur það verið talinn einn af kostum frúktósans. Þetta skiptir þó ekki máli fyrir heilbrigt fólk með eðlilega insúlínframleiðslu.
„Frúktósi í sínu náttúrulega formi, í ávöxtum, er ekki talinn skaðlegur að sama marki, því trefjarnar í ávöxtunum hindra m.a. að hluta til upptöku frúktósans úr meltingarveginum. Hvítur sykur er auðvitað ekki góður heldur, enda samsettur úr glúkósa og frúktósa til helminga. Þannig má segja að hvorugur sé góður en frúktósinn þó sýnu verri sé hans neytt í miklu magni. Rangt er að halda því fram að hann sé hollari en hvítur sykur. Snefill er af öðrum næringarefnum í agave-sírópi s.s. kalki, kalíumi og magnesíumi, en það er í svo litlu magni að næringarlega skiptir það engu máli.“
Yrsa bendir á afar fróðlegan og skemmtilegan fyrirlestur um frúktósa og offituvandann á netinu sem dr. Robert H. Lustig, prófessor í barnalækningum og innkirtlasjúkdómum við University of California, San Francisco (UCSF), flytur.