Þorbjörg Hafsteinsdóttir gefur uppskrift að rúgstykkjum sem eru dásamlega ljúffeng.
Brauðin eru mjög góð sem millibiti eða nesti þegar maður er á ferðinni. Sjálfri þykir mér gott að hafa harðsoðið egg með. Svo má baka fleiri og frysta. Þá er fljótlegt að grípa til þeirra.
½ l volgt vatn
2 msk kókosolía, t.d. frá Rapunzel
35-40 g lífrænt ger, t.d. frá Rapunzel, eða
1 poki þurrger
3-4 tsk gróft salt
1 tsk vanilluduft
2 dl graskersfræ
1½ dl rúsínur
1 tsk anísfræ
9 dl gróft rúgmjöl, t.d.
frá Spielberger
Hrærðu ger, olíu og salt út í vatnið. Bættu graskersfræjum, anís, vanilludufti og rúsínum saman við. Hrærðu 4 dl af rúgmjöli út í blönduna.
Láttu deigið standa í 1-2 klst.
Settu afganginn af rúgmjölinu saman við. Hrærðu deigið vel saman. Mótaðu 10-12 aflöng brauð og raðaðu á bökunarpappír á plötu. Stráðu svolitlu rúgmjöli ofan á og láttu þau lyfta sér aftur í klukkustund. Bakað í u.þ.b. 40 mínútur í forhituðum ofni við 180 gráður.