Varð atvinnumaður á sínu fyrsta móti

Elma Grettisdóttir er atvinnumaður í fitness.
Elma Grettisdóttir er atvinnumaður í fitness. Sigurgeir Sigurðsson

Markmið Elmu Grettisdóttur þegar hún steig á svið í hreystikeppni í fyrsta sinn var að sigra sjálfa sig. Hún gerði gott betur en það og stefnir nú á heimsmeistaramót í hreysti í Bandaríkjunum í ágúst. Þrátt fyrir að hún hafi kviðið fyrir að standa á sviði segir hún að ferlið sjálft hafi verið mjög skemmtilegt en það hafi vissulega krafist einbeitingar og rútínu.

„Einu væntingarnar sem ég hafði voru að klára mitt fyrsta mót og hafa gaman af,“ segir Elma Grettisdóttir, einkaþjálfari í World Class, sem tók þátt í sínu fyrsta móti fyrir rúmlega viku og gerði sér lítið fyrir og sigraði í sínum flokki. Þess utan leist dómnefndinni það vel á Elmu að hún var gerð að atvinnumanni sem gerir henni kleift að keppa sem atvinnumaður á mótum sem WBFF heldur. Þetta telst vera mjög góður árangur á fyrsta móti enda segist Elma vera himinlifandi. „Þetta er ólýsanleg tilfinning. Ég ætlaði bara að sigra sjálfa mig.“

Hvatning skiptir öllu

Elma tók sjö vikur í undirbúning fyrir mótið sjálft en segir að almennt lifi hún frekar heilbrigðu lífi. „Ég kom því vel undirbúin í niðurskurð því minn lífsstíll inniheldur mikla hreyfingu og hollustu. Hins vegar ákvað ég að fá þjálfara til að fylgja mér því stuðningur og hvatning skiptir öllu máli í þessu ferli. Þau urðu líka mörg kraftaverkin á þessum sjö vikum fram að móti, þökk sé þjálfaranum mínum, Antoni Eyþóri Rúnarssyni. Lykillinn að góðum árangri er svo að hafa trú á sjálfum sér, góð einbeiting, skipulagning, agi, samviskusemi og síðast en ekki síst að hafa gaman af því sem maður er að gera. “

Einbeiting og rútína

Elma segir að þrátt fyrir góðan árangur hafi undirbúningurinn ekki verið eins erfiður og hún bjóst við. „Mataræðið hentaði mér fullkomlega og orkan var mikil. Það sem hefur verið erfiðast við þetta er að geta ekki tekið þátt í öllu félagslífinu enda krefst það mikillar einbeitingar og rútínu að klára svona ferðalag. Það er líka mikill kostnaður við að taka þátt í svona móti en sem betur fer fékk ég góða styrktaraðila til að styrkja mig, þar á meðal Icepharma, Vaxtarvörur, snyrtistofan Krisma, Laugar Spa og vitanlega eru fjölskylda og vinir ómetanlegur styrkur.“

Braut ísinn

Aðspurð af hverju hún hafi ákveðið að taka þátt í móti í fyrsta sinn segist Elma alltaf hafa haft áhuga á hreysti. „Ég hef farið á ótal mót og fengið að fylgja vinkonum mínum alla leið þegar þær hafa tekið þátt í mótum. Loks fann ég að ég var sjálf tilbúin, að það væri kominn tími til að brjóta ísinn og stíga á svið,“ segir Elma sem kveið ekkert fyrir keppninni. „Ég bjóst við að ég yrði taugahrúga en þetta var svo gaman að kvíðinn komst ekki að. Ég var greinilega tilbúin í þetta. Ég kom því sjálfri mér á óvart og naut þess í botn að vera á sviðinu. Minn persónulegi sigur var í höfn þegar ég hafði brotið ísinn og þá var eins gott að standa sig og gera sitt besta.“ Elma segir að það skemmtilegasta í öllu þessu ferli, æfingunum og mótinu, hafi tvímælalaust verið félagsskapurinn. „Það er líka ansi gaman að sjá afraksturinn af ellefu ára lyftingum. Svo má ekki gleyma allri hvatningunni og hrósinu sem ég hef fengið,“ segir Elma og bætir við að hún hafi alls ekki búist við að þetta yrði svona skemmtilegt.

Gerst ansi hratt

Framundan hjá Elmu er heimsmeistaramót WBFF í Toronto sem haldið verður 24.-25. ágúst en þar mun Elma stíga á svið með mörgum af þekktustu hreystistjörnum heims. Innt eftir því hvort Elma sé búin að átta sig á þessu öllu saman segist hún engan veginn búin að því. „Þetta er svona að púslast saman en þetta hefur gerst ansi hratt. Markmið mín núna eru að halda áfram að bæta mig og koma enn sterkari inn á næsta mót.“

Fagmennska að leiðarljósi

WBFF stendur fyrir World Bodybuilding & Fitness Federation en það eru líkamsræktarsamtök sem stofnuð voru af Paul Dillett sem er með 25 ára reynslu af atvinnumennsku í vaxtarrækt. WBFF standa fyrir ótal hreystikeppnum um allan heim enda er markmið samtakanna að gefa íþróttafólki vettvang þar sem það getur keppt og komið er fram við það af fagmennsku. Metnaðurinn í samtökunum er því mikill, hvort sem verið er að setja upp sýningu eða láta keppendum líða vel. Þannig vill WBFF stuðla að aukinni hreysti í atvinnugrein sem fer sífellt stækkandi. Á mótum WBFF er hægt að keppa í mörgum flokkum, allt frá módelhreysti yfir í vaxtarrækt.

Ljósmynd/Jónas Hallgrímsson
Elma Grettisdóttir er atvinnumaður í fitness.
Elma Grettisdóttir er atvinnumaður í fitness. Sigurgeir Sigurðsson
Ljósmynd/Jónas Hallgrímsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda