Keyptu bók sem breytti lífinu

Guðrún Ásdís Sturlaugsdóttir og Tjörvi Óskarsson.
Guðrún Ásdís Sturlaugsdóttir og Tjörvi Óskarsson. Styrmir Kári

Fyrir tveimur árum tóku Guðrún Ásdís Sturlaugsdóttir og eiginmaður hennar Tjörvi Óskarsson sig til og breyttu algerlega um lífsstíl. Bæði voru þau komin langt yfir kjörþyngd en með breyttu mataræði hafa þau náð að taka af sér samtals 60 kílógrömm. Guðrún Ásdís á og rekur eigið fyrirtæki og Tjörvi er kennari í Tækniskólanum.

„Það eru margir að skrifa okkur og spyrja hvernig við höfum farið að þessu,“ segir Guðrún en þegar þau hjónin fóru að ná svona góðum árangri fannst henni ekkert því til fyrirstöðu að deila með öðrum og ef til vill hjálpa. Guðrún opnaði því facebooksíðu þar sem hún póstar uppskriftum og fróðleik um heilbrigðan lífsstíl sem fengið hefur góðar móttökur.

„Ég er að skrifa þarna okkar sögu og hvernig við höfum farið að þessu. Það eru uppskriftir þarna sem hafa slegið í gegn, svo sem „bilað góðar próteinstangir“ og það hefur verið mjög gaman að fá svona góðar móttökur.

„Við byrjuðum á að breyta litlu fyrst og einföldum hlutum,“ segir Tjörvi. „Fórum að borða meira grænmeti, drukkum minna gos og sjaldnar skyndibita. Fyrsta árið missti Guðrún 15 kíló og ég 10. Þá fórum við að standa í stað og leyfa okkur aðeins meira.“

Guðrún segir að á þessum tímamótum hafi góð bók komið til sögunnar. Hún fór á Amazon til að skoða þar bækur um mataræði og rakst á You Can be Thin: The Ultimate Programme to End Dieting... Forever. Bókin fékk mjög góða dóma hjá notendum og Guðrún ákvað að slá til og pantaði eintak.

„Þessi bók virkaði á mig eins og hálfgerð dáleiðsla, hún er eiginlega alveg ótrúleg og eftir lesturinn vildi ég endilega að Tjörvi læsi hana líka. Hún hafði mjög mikil áhrif á okkur, hvernig við hugsum og það fór allt að ganga betur og við náðum af okkur hellingi af kílóum í viðbót,“ segir Guðrún en bætir við að hún geti ekki ábyrgst að bókin hafi sömu áhrif á alla. „Við vorum á þeim stað að vera tilbúin og opin fyrir lestrinum.“

„Höfundurinn kennir fólki að nota ímyndunaraflið, að hugsa um afleiðingarnar og hvað mann virkilega langi. Í kjölfarið hentum við pasta og sykri og við eigum til dæmis aldrei sykur í skápnum. Þá drukkum við líka mikið af sykurlausu Pepsí og hættum því alveg og okkar svaladrykkur er vatn í dag. Það tók 21 dag að venja sig á það,“ segir Tjörvi.

Guðrún segir lífsstíl þeirra farinn að hafa áhrif á aðra í kringum þau. Vinkonur og fjölskylda hafi smitast og vitundarvakning orðið um hollari lífshætti í kringum þau. „Reglan hjá okkur er samt sú að það er ekkert bannað en það er auðvitað frábært að á nammidögum velur dóttir okkar oft spennandi ávexti fram yfir nammi.“

 Prótínstangir Guðrúnar:

Innihald í 12 stangir:

  • 1/2 bolli haframjöl
  • 40 g vanillu 100% mysuprótein (whey), t.d. frá Nutramino
  • 1 tsk. kanill
  • 30 g saxaðar möndlur
  • 30 g rúsínur

Þurrefnum blandað saman í skál.

Í sérskál er eftirfarandi blandað saman:

  • 30 g súkkulaði (70% súkkulaði)
  • 50 g hnetusmjör
  • 1/2 bolli hrísmjólk (eða annar vökvi, mjólk eða vatn!)
  • 15 g hunang


Þessi blanda er sett í örbylgjuofn í 30-40 sek. og síðan blandað saman við þurrefnið og allt hrært vel.

Best er að taka formkökuform eða annað kassalaga form og setja í það smjörpappír sem hylur vel allt formið og hella blöndunni á botninn. Sett í frysti í nokkrar klukkustundir og síðan tekið út og skorið í 12 bita. Best er að geyma stangirnar í frysti eða kæli. Til dæmis hægt að pakka hverjum bita inn í smjörpappír.

Geymist í nokkra daga í kæli og lengur í frysti. Í hverri stöng eru um það bil 100 hitaeiningar.

Guðrún og Tjörvi að baka próteinstangir án próteins fyrir börnin.
Guðrún og Tjörvi að baka próteinstangir án próteins fyrir börnin. Styrmir Kári
Guðrún segist hafa gaman af því að deila af sinni …
Guðrún segist hafa gaman af því að deila af sinni reynslu og uppskriftum á Facebook-síðu sinni. Styrmir Kári
Guðrún og Tjörvi mynduð með árs millibili.
Guðrún og Tjörvi mynduð með árs millibili.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda