„Það gengur alveg frábærlega. Ég er búin að vera mjög duglegur að undanförnu. Ég var 168 kíló þegar ég byrjaði átakið mitt en í dag er ég 135,7 kíló. Þannig að það eru rúmlega 32 kíló farin,“ segir Valgeir Matthías Pálsson sem fékk styrk hjá Kópavogsbæ til að sækja námskeið hjá MFM-miðstöðinni. Styrkinn fékk hann eftir að hafa komið fram í þættinum Leiðin til betra lífs á Smartlandi Mörtu Maríu þar sem hann tjáði sig um ofþyngd sína, vanlíðan og vanmátt.
Í byrjun apríl komst Valgeir í meðferð hjá MFM-miðstöðinni og var undir þeirra handleiðslu í þrjá mánuði. „Ég hefði gjarnan viljað vera lengur í prógrammi hjá þeim en ég sá ekki möguleika á að greiða það úr eigin vasa,“ segir Valgeir. Hann segir að líf sitt hafi tekið ákaflega jákvæðum breytingum með hjálp MFM-miðstöðvarinnar. Auk þess er hann farinn að hreyfa kroppinn undir handleiðslu Erlings Óskars Sigurgeirssonar og Andra Freys Hafsteinssonar, einkaþjálfara í Sporthúsinu. „Ég er að ná góðum tökum á lífsstílsbreytingunni hjá mér. Það er yndislegt.“
Valgeir segir að það sé langerfiðast að takast á við mataræðið og borða heilsusamlega. Auk þess hefur hann glímt við andleg veikindi, þunglyndi og kvíða, en segist vera á batavegi. „Þunglyndið er að minnka og ég reyni að halda mér innan rammans í mataræðinu. Það er ekkert voðalega auðvelt. Ég er með matarfíkn og það er ekkert grín.“
Hvað borðarðu? „Það er auðvitað misjafnt. Ég reyni að byrja daginn á því að fá mér AB-mjólk og svo borða ég allavega einn ávöxt á dag og svolítið af hrökkbrauði. Ég reyni að halda mig frá sætindum en ég fæ mér einstöku sinnum Pepsí Max, en það er í litlum mæli.“
Hvert er markmiðið? „Ég ætla að komast í tveggja stafa sölu, komast undir 100 kílóin. Það mun takast hjá mér.“