Hvað er mikilvægt í þessu lífi?

Ingibjörg Stefánsdóttir.
Ingibjörg Stefánsdóttir. mbl.is/Styrmir Kári

„Ég þakka fyrir hvern tíma sem ég kenni og er alltaf mjög þakklát fyrir að sjá fólk mæta í tíma hjá mér,“ segir Ingibjörg Stefánsdóttir, jógakennari og eigandi jógastöðvarinnar Yoga shala. „Það gefur mér mjög mikið. Maður þarf að vera næmur, lesa líkama sem hafa hver sína sögu, finna hvernig maður getur nálgast hvern og einn, því það er svo mismunandi á hverju fólk þarf að halda.

Sumir koma til að styrkja líkamann, aðrir vilja kafa meira inn á við, eða vera í stemningu sem er gefandi og skemmtileg, djúp og falleg. Ég segi að jóga er eins og spegill – maður mætir sjálfum sér á jógamottunni.“

Ingibjörg segir mikla heilsuvakningu hafa orðið frá því að hún opnaði Yoga shala árið 2005. „Kreppan vakti fólk líka til umhugsunar: Hvað er mikilvægt í þessu lífi? Í mínum huga er það að halda heilsu, njóta augnabliksins, eyða gæðatíma með fjölskyldunni, rækta vinina. Það er svo mikill asi og stress að fólk þarf á hjálp að halda til að ná áttum, ná tengingu við sjálft sig, næra sig á heilbrigðan hátt. Þar kemur jóga svo sterkt inn.“

Karlaklefinn stækkaður

Í Yoga shala er kennt hatha yoga og mismunandi útfærslur af því, svo sem yoga-flæði og ashtanga vinyasa yoga. „Ashtanga vinyasa yoga er byggt á seríum sem fólk lærir hægt og rólega utan að. Stöðurnar eru tengdar saman með ákveðnum æfingum og öndun.

Hjá okkur er Ashtanga vinyasa yoga mjög hefðbundið, eins og það er kennt af meistaranum heitnum Sri.K.Pattabhi Jois. Ég er svo lánsöm að hafa lært hjá honum en ég fór fimm sinnum til Indlands að heimsækja hann. Ég er eini kennarinn hér á landi sem lærði hjá honum og mér finnst mikilvægt að Ashtanga vinyasa sé kennt á faglegan hátt, og með ást og umhyggju.

Í Yoga shala eru einnig tímar sem við köllum hlýtt yoga sem eru byggðir á yoga-flæði. Tímarnir eru fjölbreyttir og mismunandi eftir kennurum, notuð er tónlist og salurinn hitaður upp í sirka 37 gráður.“

Hún segir viðskiptavinahópinn fjölbreyttan, fólk á öllum aldri. „Karlmenn koma í auknum mæli. Ég hef þurft að stækka karlaklefann og bæta við sturtum, það er mjög jákvæð þróun. Það er ekki einhver ein týpa sem sækir tíma hjá okkur, við erum með fólk úr viðskiptalífinu, listamenn, nema, fólk frá ýmsum löndum, fólk af öllum stærðum og gerðum.

Við vinnum í auknum mæli með fyrirtækjum, fáum vinnustaðahópa til okkar eða förum til þeirra og kennum þar. Sum fyrirtæki eru með fasta jógatíma fyrir starfsfólkið einu sinni til tvisvar í viku. Þetta hefur gefist rosalega vel og fólk fundið gífurlegan mun á sér í vinnunni. Því líður miklu betur, er orkumeira og jávæðara.“

Á kafi í hráfæði

Ingibjörg segir mataræði sitt hafa gjörbreyst frá því að hún var um tvítugt. „Ég ólst upp hjá ömmu minni og fósturafa og hún eldaði venjulegan íslenskan heimilismat. Síðan flutti ég til New York og vann meðal annars á lífrænum veitingastað í tvö ár sem var valinn besti heilsustaðurinn eitt árið. Þarna var ég komin heim. Mér finnst grænmetisfæði alveg rosalega gott. Og ristilverkir eru úr sögunni.

Ég vildi óska þess að ég hefði meiri tíma til að elda. Ég myndi segja að við elduðum nokkuð jafnt, maðurinn minn og ég. Ég er meira í grænmetinu, hann sér um kjötið. Annars er ég er búin að vera á kafi í hráfæði og bý mjög oft til smoothies með áherslu á ofurfæðu.

Ég borða mjög oft úti og þá aðallega á okkar frábæru heilsustöðum sem erfitt er að gera upp á milli. Má þá nefna Gló, Lifandi markað, Krúsku og Garðinn. Erlendir jógakennarar sem hafa heimsótt mig tala allir um hversu góðir grænmetis- og heilsustaðir eru hér í Reykjavík. Það mættu vera fleiri slíkir staðir úti á landi.“

Ingibjörg Stefánsdóttir.
Ingibjörg Stefánsdóttir. mbl.is/Styrmir Kári
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda