Það er ekki bara með djús-kúrum sem við getum stuðlað að náttúrulegri hreinsun líkamans af ýmsum eiturefnum.
Með því að gæta þess að hafa neðangreind níu matvæli reglulega í mataræðinu vinnum við að því að styrkja m.a. lifrina, nýrun og önnur líffæri, sem daglega vinna að eðlilegri hreinsunarstarfsemi líkamans. Á sprengidag er ekki slæmt að vita til þess að t.d. að bæði rófur og linsubaunir geta reynst vel við hreinsunarstarfið þar samkvæmt heilsusíðunni SHAPE (við förum ekki út í saltkjötið hér!):
Blómkál - Blómkál er ríkt af andoxunarefnum og styður þannig við náttúrulegt hreinsikerfi líkamans. Blómkál virkar líka gegn bólgum.
Spergilkál eða brokkolí - Spergilkál er einnig ríkt af andoxunarefnum auk þess sem það er stútfullt af fjölmörgum vítamínum.
Rófur - Rófur eru enn eitt grænmetið sem er ríkt af andoxunarefnum. Rannsóknir hafa einnig sýnt fram á að neysla á rófum getur unnið gegn myndun krabbameins auk þess sem þær geta einnig dregið úr hvers kyns bólgum. Þetta er ekki amalegt að hafa í huga nú þegar rófustappan kemur sterk inn á sprengidaginn.
Linsubaunir - Linsur eru ríkar af trefjum. Þær geta einnig hjálpað við að lækka kólesterólmagn og jafna blóðsykur í líkamanum, auk þess geta þær verið mikilvægur orkugjafi.
Greipaldin eða greip - Greip er mjög ríkt af trefjum. Með því að fá sér þennan bitra ávöxt reglulega stuðlar maður að lækkun kólesterólmagns í líkamanum, vinnur gegn myndun nýrnasteina auk þess sem meltingarkerfið nýtur líka góðs af.
Agúrka - Gúrkur eru kannski 95% vatn en þannig hjálpa þær einmitt líkamanum við að losna við eiturefni og stuðla að jöfnun sýrustigs, eins og er svo vinsælt m.a. í basísku mataræði.
Grófir hafrar - Gömul saga og ný – og á alltaf jafn mikið erindi. Trefjaríkir, grófir hafrar stuðla að heilbrigðum meltingarfærum auk þess sem við erum saddari lengur en af flestum öðrum matvælum.
Sólblómafræ - Rík af E-vítamíni og öðrum bætiefnum geta sólblómafræ hjálpað lifrinni við að brjóta niður mismunandi sameindir. Sólblómafræ geta einnig sinnt mikilvægu hlutverki við að fyrirbyggja kólesterólmyndun í æðum.
Hampfræ - Hampfræ eru rík af omega 3 & 6 fitusýrum. Þau eru einnig auðmeltanleg og geta reynst vel við að draga úr hvers kyns bólgum.