Vildi ekki vera 60 kílóum of þung

Hera Björk Þórhallsdóttir
Hera Björk Þórhallsdóttir mbl.is/Golli

„Yndislegir vinir og ættingjar hafa sagt mér það í gegnum árin að ég sé dásemdar dýrindis eintak, falleg og fín. Mér hefur verið sagt að ég sé hávaxin, stórbeinótt og glæsileg. Þeir hafa hvatt mig áfram í öllu því sem ég geri og sagt mér að hunsa það algerlega þegar bloggheimar og kommentakerfin skarta fullyrðingum um vaxtalag mitt eða þegar „Standup-brandarakallar“ hafa ákveðið að nýta mig og minn „aukafarangur“ sem efnivið á skemmtunum fyrir landsmenn.

Ég hef auðvitað hlýtt þessu góða fólki og verið algjör töffari. Látið eins og þetta komi ekki við mig.  Ég heyri og sé en set jafnóðum upp breiða brosið enda trúi ég því einlæglega sjálf fyrir allan peninginn að ég sé yndisleg, sterk, sexý og góð kona og aukakílóin mín komi engum við. Núna, þegar ég legg grímuna til hliðar, þá viðurkenni ég fúslega að á stundum hefur umræðan sært, og ekki bara mig heldur einnig mína nánustu,“segir söngkonan Hera Björk Þórhallsdóttir sem hefur ákveðið að taka sig taki og breyta um lífsstíl. 

„Það er mjög langt síðan mér var sagt það að BMI stuðull yfir 40 væri grafalvarleg offita. Svo alvarleg að það væri fullkomlega óhjákvæmilegt annað en að ég, sem hef einmitt verið í þeim ört stækkandi hópi, fengi sjúkdóma vegna þess. Ég var hins vegar í fullkominni afneitun og lét eins og ég væri ósnertanleg. Ég var engin offitusjúklingur - ég var bara aðeins of þung...svona ca. 30+!! Sannleikurinn...í lok júní sl. þegar ég byrjaði á mínu TR90 prógrammi var ég tæplega 60 kílóum of þung...toppaðu það. Ég var semsagt að burðast með 1 stk manneskju út um allar grundir og fannst ekkert athugavert við það, sem er fullkomlega óeðlilegt í alla staði,“ segir hún. 

Hún segist hafa lært að elska lífið meira og meira með aldrinum.

„Ég hef lært að elska sjálfa mig, börnin mín, maka minn, fjölskylduna mína og vini meira og meira ... enda hrúgast að mér snillingar og dúllusnúðar úr öllum áttum sem er ekki hægt annað en dýrka og dá. Og eftir því sem ég elska lífið meira þeim mun betur hlusta ég og hef með hjálp eyrnanna áttað mig á því að ég vil lifa þessu lífi sem lengst og sem best. Ég er búin að gera það upp við mig að ég hef engan áhuga á að fá háan blóðþrýsting, sykursýki, liðverki, asma, kæfisvefn, hjartasjúkdóma, enn meiri bjúg, þvagleka og allt hitt sem fylgir alvarlegri offitu. Einstaklingar með alvarlega offitu lifa að meðaltali 15 árum skemur en aðrir og ég vil ekki vera í þeim hópi. Ég vil vera heilbrigð og hamingjusöm. Ég vil stunda heilsurækt. Og ég vil umfram allt annað stunda  massíva hamingjurækt.“

Nú er aðhald Heru Bjarkar farið að skila sér því BMI stuðullinn er að fara undir 40 í fyrsta skipti í mjög langan tíma sem er ákaflega góður árangur. 

„En ég þarf að halda áfram og ég vil að þið hvetjið mig áfram á þeirri braut að ná tökum á heilsu minni. Ég veit að ég er sæt hvort sem ég er feit eða mjó en ég verð víst aldrei hraust eða langlíf nema ég haldi áfram í þeim nýja lífsstíl sem ég er að tileinka mér. Og ég lofa að missa ekki söngröddina þó rassinn minnki,“ segir hún. 

Hera Björk.
Hera Björk.
Hera Björk.
Hera Björk.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda