„Þessa kvikmynd rústaði Golden Globe og er að fara að slátra Óskarnum og okkur fannst þetta vera djörf áskorun að vaða í að endurgera þennan trailer, svolítið að henda okkur í djúpu laugina og gera eitthvað sem vekur athygli,“ segir Fannar Sveinsson Hraðfréttaprins en hann er einn af fjórum umsjónarmönnum Söngvakeppni Sjónvarpsins ásamt Benedikt Valssyni, Ragnhildi Steinunni Jónsdóttur og Gunnu Dís Emilsdóttur. Saman endurgerðu þau trailerinn úr kvikmyndinni American Hustle sem er nýkomin í bíó.
„Við ákváðum að vera ekkert að fara alla leið í tímabilinu sem um ræðir í kvikmyndinni hvað fatnað varðar. Við fórum aðallega djúpt ofan í fataskápana. Stelpurnar fengu síðan hitt og þetta lánað til að fá smá glamúr. Það var rosalega gaman að vinna með Ragnhildi Steinunni og Gunnu Dís í tökunum en það gat samt verið svolítið erfitt á köflum þar sem þær eru báðar nýbakaðar mæður og þurftu alltaf að skjótast að gefa brjóst, okkur fannst óþolandi að þær gátu ekki bara mjólkað sig um morguninn og verið allan daginn í tökunum,“ segir Fannar.
„Við fjögur verðum í kynnahlutverkum, stelpurnar halda að þær séu að fara að verða eitthvað aðalkynnar á Söngvakeppninni en við Benni munum ná að troða okkur inn eins mikið og við getum. Þetta verður rosaleg Söngvakeppni og ég vonast eftir svona 90-100% áhorfi annars verð ég gríðarlega vonsvikinn.“
Upprunalegi trailerinn úr American Hustle