Hjálpar fólki í frjósemisvanda að finna hamingjuna

Fjóla Dögg Helgadóttir sálfræðingur hjálpar fólki í frjósemisvanda.
Fjóla Dögg Helgadóttir sálfræðingur hjálpar fólki í frjósemisvanda.

Sálfræðingurinn Fjóla Dögg Helgadóttir hefur búið til meðferð sem hjálpar fólki með frjósemisvanda. Prógrammið tekur á bæði þeim óhjálplegu hugsunum og hegðunum sem tengjast frjósemisvanda og hjálpar fólki að takast á við félagsleg samskipti við vini og fjölskyldu. Í meðferðinni er sérstakur kafli sem hjálpar fólki að finna hamingjuna að nýju, með eða án barns.

Fjóla Dögg ólst upp í Mosfellsbænum, stundaði nám við Verslunarskóla Íslands en þaðan lá leiðin í Háskóla Íslands þar sem hún lagði stund á sálfræði. Um tvítugt fékk hún ferðabakteríuna sem leiddi hana á framandi slóðir. Á meðan hún stundaði sálfræðinámið vann hún á geðdeild landspítalans til að safna sér peningum fyrir ferðalögum. Þegar Fjóla Dögg var 22 ára fór hún til dæmis í ferðalag til Asíu og eftir að sálfræðináminu lauk sótti hún um skóla og komst í framhaldsnám í Peth sem er í vestur Ástralíu.

„Á leið minni þangað fór ég í smá reisu um suður Ameríku. Þegar ég bókaði flug frá suður Ameríku til Perth, sagði ferðaskrifstofan að ég yrði að koma við í Sydney, sem ég var ekkert sérstaklega spennt fyrir þar sem ég hafði áður komið þangað. Þar bjó íslensk stelpa, vinkona vinkonu minnar, og leyfði hún mér að gista á sófanum hjá sér. Þetta varð til þess að ég hitti núverandi eiginmann minn sem var meðleigjandi hennar. Eftir tveggja ára nám í klínískri sálfræði í vestur Ástralíu, fékk ég skólastyrkt til að stunda doktorsnám við einn virtasta háskóla Ástralíu í Sydney og ég og núverandi maðurinn minn byrjuðum að búa saman,“ segir Fjóla Dögg.

Í Syndney starfaði Fjóla Dögg á margskonar spítölum og vann með fólki sem var með krónísk verkjavandamál, með fólki sem var að deyja úr krabbameini, fólki sem hafði lent í slysum og hafði lamast og á miðstöðvum sem sérhæfðu sig í félagsfælni, áráttu og þráhyggju, frammistöðukvíða tónlistarfólks, þunglyndi og öðru.

„Þar sem fyrsta árið mitt í doktorsnáminu var sama ár og ég var að klára klínísku þjálfunina bjó ég til þá lausn að búa til sálfræðiprógram sem gæti verið með fólk í meðferð á meðan á sama tíma og ég var í þjálfun á spítölunum og svo framvegis. Sálfræðitölvuprógrammið sem ég hannaði spurði notendur um einkenni og svo sat ég á kvöldin og um helgar og skrifaði þúsundir sálfræðimeðferða, lærði að forrita og bjó til prógrammið sem vann svo til nýsköpunarverðlauna á landsvísu í Ástralíu. Eftir að hafa klárað klínísku þjálfunina rak ég mína eigin sálfræðistofu í þrjú ár á meðan ég kláraði doktorsnámið. Árið 2010 fór ég á ráðstefnu í Boston, USA og var mér þar boðin flott staða (Senior researcher) við Oxford háskóla áður en ég var búin að klára doktorsnámið mitt,“ segir hún.

Eftir að hún skilaði doktorsverkefninu sínu óskaði hún eftir því að fá að hefja störf í Oxford sex mánuðum síðar svo hún gæti farið í aðra reisu. Þau byrjuðu ferðalagið í Laos og enduðu það í Svíþjóð. Loks komu þau til Íslands þar sem markmiðið var að ganga í heilagt hjónaband.

„Við mættum við til Íslands þremur vikum fyrir brúðkaup, þar sem við vorum að fá 70 manns frá útlöndum í brúðkaupið. Við áttum svo flug frá Stokkhólmi, þegar Grímsvötn fóru að gjósa, þannig að 2 og hálfri viku fyrir brúðkaup var ekkert búið klára að plana, enginn kjóll, staðsetning og svo framvegis. En þar sem ég á bestu fjölskyldu og vini í heimi, giftumst við með pompi og prakt í Bláa Lóninu 17 júní, 2011. Eftir brúðkaup flugum við svo til Vancouver í Vestur Kanada og eyddum öllum peningnum sem við fengum í gjöf í að kaupa Volvo og keyrðum þvert fyrir Kanada (um 11.000 kílómetra) og ég byrjaði að að vinna í Oxford í ágúst 2011,“ segir hún og hlær. En það var eitt og annað sem hún upplifði þegar hún kom til Íslands og það var hinn eilífi spurningavagn þar sem hún var spurð að því hvenær hún ætlaði eiginlega að koma með eitt lítið.

„Í hvert einasta skipti sem ég kom til Íslands á þessum árum var ég spurð „hvenær ætliði svo að koma með barn?“. Öll árin var ég 200% prógrammi, annað hvort að vinna að tveim háskólagráðum í einu eða að vinna að doktorsnámi og í fullri vinnu,“ segir hún og segir það umhugsunarvert að hvergi annarsstaðar í heiminum hafi hún lent í jafnmiklu spurningaflóði og á Íslandi.

„Ekki neins staðar annars staðar var ég grilluð með þetta á saman hátt. Mér fannst oft eins og aðalmælikvarði á lífið sem skipti máli heim var: Að eiga börn, sem ég gat svo ekki.“

Þegar Fjóla Dögg kom til Oxford fór hún að vinna í rannsóknum og meðferð á átröskunum og þunglyndi. Auk þess stofnaði hún fyrirtæki með manninum sínum og doktorsleiðbeinanda sínum frá Ástralíu. Fyrirtækið heitir AI-Therapy og er með hundrað manns frá 25 löndum í meðferð við félagsfælni.

„Ég notaði svo allt það sem ég hafði lært í doktorsnáminu og í Oxford til að búa til nýjasta prógrammið mitt „Taktu á stressinu sem fylgir frjósemisvanda“. Ég rannsakaði vísindinn á bakvið sálfræðilegu hlið frjósemisvanda og byrjaði að notast við þessar aðferðir. Fyrir mig, þá fann ég hvernig það að taka á tilfinningalega hliðinni af þessum vanda var stór sigur og gerði ferlið auðveldara.“

Sjálf greindist hún með legslímuflakk og fékk að fara í aðgerð í Oxford sem rannsóknarþátttakandi, þar sem stór rannsókn átti sér stað á legslímuflakki.

„Ég var ein þeim heppnu og aðgerðin virkaði. Fjórum mánuðum eftir aðgerðina varð ég ólétt og náði að vera ólétt í 40 vikur og 10 daga. Við eignuðumst fullkomin son. Nú skil ég hvernig fólki líður þegar það getur ekki annað en að setja endalaust myndir af afkvæmum sínum á Facebook. Ég hét því að ég skildi ekki falla í þessa gryfju og stillti mig um að deila myndum af barninu fyrstu mánuðina. En hef fengið kvartanir frá vinum og fjölskyldumeðlimum, þannig ég hef verið að deila meira og meira. Ég er bara með blogg þar sem fólk getur fylgst með ef það hefur áhuga (og lykilorð). Enn allt er best í hófi.“

Þrátt fyrir að Fjóla Dögg hafi dottið í lukkupottinn og hafi orðið mamma þá segist hún engu hafa gleymt.

„Mér þykir enn rosalega mikilvægt að lífið haldi áfram. Öll (án barna) plönin geta alveg verið mótuð þannig að barn geti verið með í ferð og að hægt sé að lifa lífinu til fulls. Sonur minn hefur til dæmis heimsótt 12 lönd þó að hann sé bara 9 mánaða. Ég veit líka að ef við hefðum ekki orðið ólétt þá veit ég að ég og maðurinn minn hefðum lifað hamingjuríku lífi og svo sannarlega látið fleiri af draumum okkar rætast. En að sjálfsögðu var barnið plan A, en plan B var bara orðið svo vel útpælt og skemmtilegt líka. Það sem mér finnst einna mikilvægast í lífinu er að láta sig dreyma og síðan setjast niður og finna út hvað maður þarf að gera til að láta þá rætast. Það er ágætt að lifa í núinu, en að mínu mati er að byggja þá framtíð sem þig langar í mikilvægari. Ertu að nota núið til að vinna að þinni framtíð dags daglega? Fyrir mér er lífið of stutt og svo margt sem mig langar að gera áður en ég dey,“ segir hún og bætir við:

„Ég held stundum að ef ég hefði ekki átt við þennan vanda hefði verið auðvelt að detta inn í einhverja rútínu, og ekki endilega valið hvernig lífi mínu er háttað. Það sem ég hræðist mest í lífinu er að vera með eftirsjá þegar ég er gömul. Með því að þurfa að bíða svona lengi, hafði ég nógan tíma til að finna hluti í lífinu sem gefa lífinu gildi og búa til plön um hvernig ég gæti látið þá rætast. Ég var til dæmis í Pizzuskóla í Suður-Ítalíu í síðasta mánuði eftir að sonurinn var farin að sofa á kvöldin. Þetta er draumur sem mig hefur langað að láta rætast í rúm 10 ár! Ég er líka búin að vera læra Ítölsku og er að skrá mig í Kóresku nám. Ég er búin að fá nýja vinnu í Kanada, hér í Vancouver, eitthvað sem mig alltaf langaði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda