Agnes Ósk Marzellíusardóttir er 21 árs laganemi við HR. Hún er meðlimur í Facebook-hópnum Beauty Tips en sá hópur samanstendur af rúmlega 13.000 íslenskum stelpum. Agnes stakk upp á að safna peningum fyrir jólin til styrktar Mæðrastyrksnefnd og meðlimir Beauty Tips tóku heldur betur vel í það. Nú hafa safnast mörg hundruð þúsund krónur.
Brynjólfur Löve Mogensson átti upprunalega hugmyndina að söfnuninni að söng Agnesar en hann er meðlimur í Facebook-hóp sem kallast Sjomla Tips, sá hópur er fyrir stráka sem vilja ræða allt milli himins og jarðar sín á milli.
„Við höfum verið í stöðugu sambandi eftir að ég setti þetta inn á Beauty Tips, við erum bara að þessu saman í sitthvorri grúppunni,“ segir Agnes sem ákvað að „framlengja“ verkefni Brynjólfs þegar hún frétti af framtaki hans.
Lekamál ársins
Agnes segir óskrifaða reglu ríkja innan beggja hópanna, Beauty Tips og Sjomla Tips. „Kærasti minn er í Sjomla Tips-hópnum en það eru reglur inni í báðum hópum þess efnis að við megum ekki ræða það sem fram fer í hópunum við fólk af öðru kyni. Þannig að það mætti segja að þetta væri besta lekamál ársins,“ útskýrir Agnes sem frétti af verkefninu í gegnum kærasta sinn.
„Ég hugsaði með mér að það væri gaman að sjá hverju kraftur fjöldans á Beauty Tips gæti skilað af sér en við erum mun fleiri í þeim hóp en Sjomla tips. Mér þótti Mæðrastyrksefnd vera vel valið málefni hjá Brynjólfi og ákvað því að viðra þessa hugmynd við stelpurnar.“
Agnes segir undirtektir stelpnanna í Beauty Tips hafa verið stórkostlegar. „Mér þykir ekkert skemmtilegra en að sjá hvað samhugur getur skilað miklu, nú hafa safnast rúmlega 800.000 krónur til styrktar Mæðrastyrksnefndar. Við Brynjólfur erum sammála um að það væri virkilega gaman að geta styrkt Mæðrastyrksnefnd um að lágmarki milljón hinn 10. desember.“
Hver króna skiptir máli
Agnes bendir á að það séu tveir söfnunarreikningar í gangi sem verða svo sameinaðir. „Það er svolítið skemmtilegt að sjá muninn á færslunum á reikningunum,“ segir Agnes. „Mun fleiri stelpur en strákar hafa lagt málefninu lið en þær eru að millifæra lægri upphæðir en strákarnir,“ segir Agnes en minnir á að hver króna skiptir máli í söfnun sem þessari.
Agnes er upptekin þessa dagana en hún er í lokaprófum og heldur einnig utan um söfnunina. „Vinnan í kringum söfnunina snýst aðallega um það að minna fólk á hana, láta fólk vita hvernig gengur og þar fram eftir götum. Ég er í lokaprófum eins og er og er því að sinna náminu samhliða söfnuninni. Síminn er stutt frá bókunum með einkabankann opinn og ég fylgist spennt með upphæð söfnunarreikningsins hækka.“
Innbyrðis hefur myndast skemmtileg keppni um hvor hópurinn nái að safna hærri upphæð. „Þó svo að reikningarnir verði sameinaðir að lokum þá er þetta skemmtilegur hvati fyrir fólk,“ segir Agnes sem bendir á reikningana tvo sem eru í gangi.
Beauty Tips:
0130-05-062337, kt. 031193-4009
Sjomla Tips:
0111-05-261952, kt. 170889-3399