Mikil umræða hefur myndast inni á Facebook-hópnum Beauty Tips vegna sólbaðsstofunnar Sportsól. Þar greindi ung stúlka frá því að hún hefði verið í áskrift hjá Sportsól en sagt svo upp samningi sínum, eftir það hélt hún áfram að fá mánaðarlega reikninga inn á heimabanka sinn. Hún kvaðst hafa reynt að ná í eiganda stofunnar svo mánuðum skiptir án árangurs.
Ótal stelpur höfðu sömu sögu að segja og lýstu því hvernig þær hefði jafnvel fengið foreldra sína til að ná í eiganda Sportsólar til að fá greiðslur stöðvaðar. Ein stúlkan greindi svo frá því að hún og vinkona hennar hefðu báðar verið að borga af sama kortinu. „Hún ætlaði að taka við samningnum mínum. Ég var alltaf að fá rukkunina fyrir kortinu en hún gat notað kortið en ekki ég. Hann sagði alltaf að þetta væri bara að fara í gegn. Svo var byrjað að rukka okkur báðar og þetta var meira vesenið held ég bara í 3-4 mánuði.“
Umrædd áskrift hljóðar upp á ótakmarkað magn ljósatíma í tólf mánuði á 3.490 krónur.
Búið að leiðrétta öll mistök
„Það er búið að leiðrétta það,“ segir fyrrverandi eigandi Sportsólar, Björgvin Þór Þorsteinsson. „Allir sem hafa lent í einhverju veseni hafa fengið endurgreitt,“ útskýrir hann. Hann segir málið snúast um uppsagnarfrest. „Þetta er eins og hjá til dæmis líkamsræktarstöðvum. Það er uppsagnarfrestur og maður þarf að segja upp með ákveðnum fyrirvara. Núna er búið að leiðrétta þetta.“
Þess ber að að geta að Björgvin greindi frá því að hann hefði nýverið selt fyrirtækið til nýrra eigenda.