Eyþór datt út úr Biggest Loser

Svava Rut Jónsdóttir og Eyþór Árni Úlfarsson.
Svava Rut Jónsdóttir og Eyþór Árni Úlfarsson.

Eyþór Árni Úlfarsson datt út úr Biggest Loser Ísland í fyrsta þættinum af seríu tvö. Þjóðin þekkir hann vel því þetta er í annað skipti sem hann tekur þátt í sjónvarpsþættinum. Í fyrstu seríunni var hann þyngsti keppandinn en náði að grenna sig töluvert á meðan á tökum stóð. Þegar hann mætti aftur til leiks hafði hann fitnað aftur um 25 kg.

Þegar ég hafði samband við hann sagði Eyþór að þetta hefði verið dálítið skringileg upplifun, það er að segja að mæta aftur til leiks með öðrum hóp. Hann fann það strax að hann var kominn á annan stað í lífinu.

„Það er rosalega skrýtið að koma aftur og mér fannst ég ekki ná að að tengjast öllu sem var að gerast þarna þann stutta tíma sem ég var. Mér fannst ég ekki kynnast hinum keppendunum eins vel og fannst ég ekki upplifa sömu spennu og í fyrri seríunni. Þetta var svolítið eins og að fara í vikufrí og hamast svolítið og svo var ég eiginlega bara kominn heim strax aftur,“ segir hann.

Eyþór segist hafa upplifað það strax hvað hinir keppendurnir voru sterkir og hefur orð á því hvað honum fannst hinir strákarnir kraftmiklir.

„Það voru mikil vonbrigði hvað ég léttist lítið en á sama tíma fannst mér ég alveg vera að leggja mikið á mig. Það gerðist miklu meira á sama tíma í fyrra,“ segir hann. Þegar við ræðum það betur og köfum aðeins ofan í hvað hafi raunverulega verið öðruvísi játar hann að hann hafi verið með annað hugarfar í fyrra. En hvers vegna breyttist hugarfarið?

„Í fyrstu þáttaröðinni var ég meðvitaður um að ég yrði að gera breytingu til þess hreinlega að deyja ekki úr offitu. Með það í farteskinu að hafa gengið í gegnum fyrstu seríuna langaði mig að ná lengra og ýta sjálfum mér á betri stað. Ég ætlaði að sanna fyrir sjálfum mér að ég gæti meira, en því miður gekk það ekki eftir.“

Eyþór er svekktur yfir því að hafa verið sendur heim. 

„Það voru ákveðnir hlutir sem fóru í taugarnar á mér. Mér fannst ég ekki eiga mest skilið að vera sendur heim. Út af því hvernig mín vigt var miðað við hjá öllum öðrum var eins og ég hefði lagt miklu minna á mig. Það var samt ekki þannig. Vandamálið er að ég var alveg búinn að vera að hreyfa mig síðan ég var í fyrri seríunni á meðan þeir sem eru í annarri þáttaröð hafa margir hverjir ekki hreyft sig neitt. Auðvitað hreyfist vigtin meira hjá þeim þegar þeir byrja að hreyfa sig. Ég varð því reiður út í sjálfan mig og fannst ég ekki hafa lagt nægilega mikið á mig.“

Þótt Eyþór sé svekktur yfir því að hafa verið sendur heim getur hann þó ekki kvartað því hamingjan hefur elt hann á röndum síðan hann tók þátt í fyrri seríunni. Hann hnaut til dæmis um ástina og trúlofaði sig um jólin.

„Lífið er búið að vera rosalega furðulegt síðan ég var sendur heim. Eiginlega er það búið að vera of gott. Líf mitt tók algera u-beygju stuttu áður en ég fór í seríu tvö því mánuði áður byrjaði ég í ástarsambandi,“ segir hann.

Það er kannski ósköp hversdagslegt fyrir einhverja að byrja í ástarsambandi en það var stórt skref fyrir Eyþór því hann hafði lítið verið að vinna í kvennamálum sínum síðustu 15 árin þegar hann hnaut um Svövu Rut Jóns­dótt­ur.

„Þetta er í annað skipti á ævinni sem ég er í ástarsambandi. Þegar ég datt út var ég alveg að springa, ég var svo ástfanginn. Ástin hefur átt hug minn allan síðasta hálfa árið og við byrjuðum strax að skipuleggja það að fara að búa saman.“

Á hálfu ári hefur tilvera Eyþórs algerlega snúist á hvolf. Ekki nóg með að hann hafi hnotið um ástina heldur á unnusta hans þrjú börn og er hann orðinn stjúppabbi, sem er krefjandi verkefni.

„Ég er bara læra það hvernig maður á umgangast börn og á sama tíma er ég að læra að vera kærasti. Ég kunni ekkert að vera kærasti áður en ég kynntist Svövu. Þetta hefur átt hug minn allan síðustu mánuði og það tekur tíma að fá þetta allt til að púslast saman og ná jafnvægi,“ segir hann.

Aðspurður hvort það hafi gefist einhver tími til að stunda líkamsrækt segir hann svo ekki vera. Eftir fyrstu seríu sótti hann líkamsrækt í Reykjavík, en hann býr á Suðurnesjum, en nú hafi hann ekki efni á að keyra fram og til baka mörgum sinnum í viku. Hann segir að þetta standi allt til bóta og segir að þau reyni að gera matarplan fyrir vikuna og lifa eins heilsusamlegu lífi og þau geti.

Á dögunum sagði Smartland Mörtu Maríu frá því að Eyþór og Svava hefðu fundið ástina á Tinder, trúlofað sig um jólin og hygðust ganga í hjónaband síðar á þessu ári.

„Við erum að springa úr ást og þess vegna drifum við í því að trúlofa okkur. Við vorum eitthvað að vesenast með dagsetninguna á brúðkaupinu en ákváðum í gríni að athuga hvort ákveðin kirkja yrði laus hinn 10.10.15 og viti menn, hún var laus, þannig að brúðkaupið mun fara fram þann dag.“

Eyþór Árni Úlfarsson er mættur aftur til leiks í Biggst …
Eyþór Árni Úlfarsson er mættur aftur til leiks í Biggst Loser Ísland.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda