Shaman Durek er andlegur læknir sem mun koma til Íslands 11. febrúar til að halda námskeið og bjóða upp á einkatíma. Durek kveðst geta kennt fólki að að ná tökum á sínum innri mætti og hann segir námskeið sín hafa mikil áhrif á fólk.
„Ég er hérna til að færa ást og innblástur til þeirra sem þurfa á því að halda.“
Durek kveðst hafa unnið meðal annars með Hollywood-stjörnum, þekktu íþróttafólki, evrópsku kóngafólki, pólitíkusum og yfirmönnum í stórum fyrirtækjum. Hann getur þó ekki gefið upp hvaða fólk þetta er.
„Ástæðan fyrir því að þessar stjörnur leita til mín er sú að ég get haldið persónulegum upplýsingum um þau frá fjölmiðlum. Ég skil þörf þeirra á næði,“ útskýrir Durek sem kveðst til dæmis hjálpa þessu fólki að ná tökum á sköpunargáfunni.
Durek hlakkar til að koma til Íslands að eigin sögn. „Það gleður mig að geta komið til Íslands til að deila gjöfum sem ég hef einnig deilt með leiðtogum um allan heim,“ segir Durek.
En hver er ávinningur þess að koma á námskeið Dureks?
Ávinningarnir eru margir að sögn Durek. Hann segir það fólk sem kemur á námskeið hans gjarnan verða undrandi á áhrifunum sem leiðbeiningar hans hafa á þeirra daglega líf.
„Tólin og innsýnin sem þetta fólk fær er ómetanlegt. Hugsið ykkur það vald sem fólk öðlast þegar það fær upplýsingar sem frægt fólk og leiðtogar búa yfir. Þessar upplýsingar hafa ekki verið aðgengilegar almenningi þar til núna. Ég tel að fólk hafi rétt til þess að vita það sem þetta 1% veit. Allir sem sækja námskeið mitt munu öðlast nýjan skilning á lífinu. Þau læra að skapa sér möguleika og víkka sjóndeildarhringinn,“ segir Durek.
„Efasemd er eðlileg,“ segir Durek aðspurður hvað hann vilji segja við fólk sem trúir ekki á óhefðbundnar lækningar og andlega heilun. „Ég bý yfir heilunarmátt en hinn einni sanni heilari ert þú. Við skulum hafa það á hreinu,“ segir Durek sem telur að allir búi yfir einhverri orku en fáir kunni að nota hana. Durek kveðst geta kennt fólki að nota þessa orku og sjá þannig lífið með opnari augum. „Þetta er ekkert hókus-pókus dæmi. Þetta snýst bara um að tengjast okkar innri manneskju en ekki þeirri manneskju sem breytir sér til að þóknast öðrum.“
Áhugasamir geta kynnt sér námskeið Durek á facebook-síðunni Shaman á Íslandi og á balancenr1.is.