María Lilja óttaðist að segja frá fóstureyðingunni

María Lilja Þrastardóttir skrifaði um eigin fóstureyðingu í Stundinni.
María Lilja Þrastardóttir skrifaði um eigin fóstureyðingu í Stundinni.

Fjölmiðlakonan María Lilja Þrastardóttir skrifaði áhugaverða grein í Stundina um fóstureyðingar. Í greininni segir hún frá eigin reynslu en hún fór í fóstureyðingu síðasta haust.

Hingað til hafa fóstureyðingar verið mikið tabú og ræða konur ekki mikið um þær og ekki er algengt að konur segi frá reynslu sinni í fjölmiðlum. Aðspurð hvort hún hafi ekki óttast viðbrögðin segir hún svo vera.

„Ég verð að viðurkenna að ég hafði af þeim þónokkrar áhyggjur. Ég eiginlega nennti ekki að hlusta á neikvæðnisraddir í minn garð og hugsaði mig um vel og lengi áður en ég birti greinina eins og hún kom út, með persónulegum vinkli. Ég vissi samt að fólk myndi, í flestum tilfellum ekki hafa þor í að segja eitthvað beint við mig og ég veit til þess að einstaklingar, sem þótti þetta eitthvað skrítið, hafa spurt vinkonur mínar út í það hvers vegna ég, manneskja sem á barn fyrir, hafi ákveðið að fara þessa leið og fleira í þeim dúr. Það er einmitt lýsandi fyrir það hversu mikið „tabú“ þessi umræða er, að jafnvel þótt ég hafi gefið fullkomið færi á mér í það samtal, veigrar fólk sér við því að spjalla við mig,“ segir María Lilja.

Hvers vegna ákvaðstu að segja frá þessu?

„Það var svo ótal margt sem brann á mér eftir þetta ferli. Ég var svo ótrúlega hissa á meðferðinni sem ég sætti, ég tek samt fram að ég áfellist ekki heilbrigðisstarfsfólk, það er aðeins að vinna vinnuna sína eins og fyrirmæli segja til um. Það er kannski ekki mikið rými fyrir andóf heilbrigðisstarfsfólks innan spítalans. Þó alltaf megi gera betur í persónulegri þjónustu. Samfélagið og hvernig við horfum á konur (og það á við innan heilbrigðiskerfisins sem utan) hefur sniðið heilbrigðisstarfsfólki fremur þröngan stakk. Ég ákvað að einhver þyrfti að standa í lappirnar gegn þessu. Ég veit að ég hef sterka rödd og er í aðstöðu til þess að koma frá mér hverskyns efni. Mér var svo misboðið á köflum að ég varð hreinlega að gera eitthvað.“

María Lilja segist hafa fengið mjög góð viðbrögð við greininni.

„Til mín hafa leitað fjölmargar konur og sagt mér frá sinni reynslu af fóstureyðingum. Fæstar eru þær frábærar, því miður. Þá skilst mér að læknarnir á kvennadeildinni hafi verið eitthvað ósáttir yfir umfjölluninni, fundist hún halla með einhverjum hætti á þeirra störf. Ég reikna með að þau svari fyrir það fljótlega og hlakka til að geta átt það samtal við þau. Enda mikilvægt að málin séu rædd frá öllum hliðum.“

Þegar María Lilja er spurð að því hvort það hafi breytt sýn hennar á tilveruna að fara í fóstureyðingu segir hún svo ekki vera.

„Ég get ekki sagt það. Ég sé ekkert eftir því þó að upp komi stundir þar sem mér finnst erfitt að hafa farið í gegnum þetta ferli. Ef það hefur breytt einhverju þá er ég kannski læsari á tilfinningar mínar og eigin andlegu líðan. Það fylgja því miklar skap-, tilfinninga- og hormónasveiflur að fara í gegnum þetta ferli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda