Hættu að segja „skíttmeðða“ og veldu rétt

Ágústa Johnson lumar á góðum ráðum.
Ágústa Johnson lumar á góðum ráðum.

„Er erfitt verkefni að setja hollustuna í forgang í okkar samfélagi? Það er ekki úr vegi að velta því fyrir sér því við eigum jú okkar Norðurlandamet í sykurneyslu og erum ein feitasta þjóð í heimi,“ skrifar Ágústa Johnson í sinn nýjasta pistil áður en hún gefur lesendum góð ráð um hvernig má standast freistingar.

„Flestum finnst okkur gott að borða og allt í kringum okkur alla daga er eitthvað matarkyns sem freistar okkar. Á næsta borði í vinnunni er einhver að maula bland úr poka og á kaffistofunni er rjómaterta í boði afmælisbarns dagsins.  Í hádeginu þegar vinnufélagarnir slá saman í risafötu af djúpsteiktum kjúklingabitum, situr þú e.t.v. með þín góðu áform um hollustulíferni, og starir niðurdreginn á litríka salatið þitt og finnst þú vera að missa af.“

„Kannastu við þetta?  Sumir segja einfaldlega „skíttmeðða“ og ákveða að sukka með hinum en aðrir standast freistinguna, byggja þannig upp sjálfsagann og móta smám saman nýjar venjur sem skila þeim heilbrigðara lífi og betri líðan.“

„Líkaminn, þessi eini sem þarf að duga okkur allt lífið, er musterið okkar,  og okkur ber skylda til að hugsa vel um hann. Það er vinna að rækta hann eins og flestallt það sem skiptir máli í lífinu.“

„Það er í eðli okkar mannanna að sækja í sætt bragð ef það er í boði.  Og sannarlega er það í boði!  Nokkurn veginn hvar sem þú kemur geturðu fljótlega og auðveldlega nálgast eitthvað sætt í munninn.  Látir þú eftir þér daglega súkkulaði, bland í poka og annað sælgæti, snakk, ís, gosdrykki og/eða lélegt skyndibitafæði má segja að líkaminn þinn sé svolítið eins og ruslatunna. Innihald þessarar fæðu er ekkert annað en næringarsnautt rusl sem líkami þinn þarf alls ekki á að halda.“

En hvernig stenst maður freistingarnar? 

1. Tiltekt

„Fyrsta skrefið er að taka til í hausnum á sér því þar eru jú allar ákvarðanir teknar.  Málið snýst um að velja það rétta, það sem er þér fyrir bestu.  Þú getur ef þú vilt, staðist freistingarnar og uppskorið heilbrigðari lífsstíl, bætta líðan og betra útlit.  Alla daga, oft á dag, tekurðu meðvitaða, eða ómeðvitaða ákvörðun um allt milli himins og jarðar og margt sem hefur áhrif á líf þitt og líðan. Tekurðu stigann eða lyftuna, hvað velurðu í innkaupakörfuna? Er alltaf eitthvað sætt með kaffinu?  Reyk eða reyklaus? Hreyfirðu þig eða ertu sófadýr? Læturðu eftir þér allt sem þig langar í eða velurðu og hafnar með heilsuna í forgangi?“

2. Vatn er mikilvægt

„Góð leið til að hafa stjórn á mataræðinu er að koma þér ekki í þá stöðu að hungrið taki yfir stjórnina.  Drekktu vatn reglulega yfir daginn til að halda vatnsbúskapnum í góðu jafnvægi, það skiptir máli því þorsti veldur því gjarnan að við leitum í mat.  Tilvalið er að blanda ávöxtum í vatnið til að fá bragð,“ skrifar Ágústa sem mælir einnig með jurtatei.

3. Notarðu mat sem huggun eða slökun?

„Þegar þú finnur löngun í mat hellast yfir þig skaltu áður en þú setur eitthvað upp í þig, átta þig á hvernig þér líður. Streita og áhyggjur leiða oft á tíðum til þess að okkur langar í einhverskonar „huggunarmat“. Huggunarmatur er sú fæða, oftast sæt eða sölt, sem er í uppáhaldi hjá þér. Um leið og þú sekkur tönnunum í rjómatertusneiðina, súkkulaðikökuna, kartöfluflögurnar eða hvern þann mat sem kallar fram þessi streitulosandi áhrif þá slaknar á streitunni og þér líður betur... en aðeins rétt á meðan í þær örfáu mínútur sem tekur að tyggja og kyngja súkkulaðibitakökunni og streitan bíður þín á ný.  Þú þarft að fjarlægja þig frá aðstæðunum sem valda streitunni, fara frá í smá tíma og hreinsa hugann.“

4. Hvað vilt þú?

„Aftur komum við að kjarna málsins sem er stjórn á aðstæðum.  Ef við gefum okkur tíma til að staldra við og hugsa, vil ég setja þessa fæðu í munninn, er það hollt fyrir mig, samræmist það mínum heilsumarkmiðum?  Vil ég frekar hinkra aðeins, velja annað sem gefur næringu, vítamín, hollustu og vellíðan?“

„Þegar allt kemur til alls þá er það staðreynd að okkar er valið alla daga oft á dag.  Ef við viljum gera allt sem í okkar valdi stendur til að stuðla að góðri heilsu og hraustum líkama veljum við rétt.  Gott er að hafa í huga 80/20 regluna.  Ef við fóðrum skrokkinn í 80% tilvika með fjölbreyttri næringarríkri fæðu sem er óunnin, ætti að vera í góðu lagi ef hin 20% falli út fyrir þau viðmið.“

„Þetta er einfaldlega undir okkur sjálfum komið hvort við erum eins og gangandi ruslafata með öllum þeim neikvæðu afleiðingum sem því fylgir eða hvort við vöndum valið okkur sjálfum til allra heilla.  Mundu...ÞITT ER VALIÐ!“

Hafðu stjórn á mataræðinu með því að drekka nóg vatn.
Hafðu stjórn á mataræðinu með því að drekka nóg vatn. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda