Öll höfum við heyrt frasann: Þú ert það sem þú borðar. Við látum hann samt mörg sem vind um eyru þjóta og höldum áfram að troða okkur út af góðgæti sem er alls ekki hollt fyrir okkur. Prevention tók saman nokkrar fæðutegundir sem gera húðinni ekki neinn greiða.
Hrískökur
Einu sinni voru hrískökur á allra vörum, en þær voru taldar allra meina bót og frábærar í baráttunni við aukakílóin.
Nú vitum við að blóðsykurinn rýkur upp úr öllu valdi þegar við leggjum okkur hrískökur til munns. Þetta hefur slæm áhrif á húðina og flýtir fyrir hrukkumyndun.
Sælgæti
Þetta er svo augljóst að varla er þörf á að minnast á það. Sælgæti getur bæði valdið bólum og útbrotum, auk þess sem það er hlaðið sykri og getur því flýtt fyrir öldrun húðarinnar.
„Heilsu“morgunkorn
Ekki láta glepjast. Fjölmargar tegundir af morgunkorni, sem markaðssettar eru sem heilsufæða, eru mikið unnar og hlaðnar sykri.
Mjólk
Já, mjólk inniheldur kalk, en hún gerir ekki góða hluti fyrir húðina. Mjólk inniheldur fullt af hormónum og alls kyns efni sem geta valdið bólgum og aukinni olíuframleiðslu. Ef þú vilt ekki gefa mjólkina upp á bátinn prufaðu þá lífræna mjólk.
Snakk
Mikið unnin kolvetni og löðrandi í fitu. Kartöfluflögur eru bólgumyndandi, auk þess sem þær skemma kollagen. Mikil neysla á þeim mun því sýna sig í fínum línum og hrukkum, en þær geta einnig valdið bólum.
Þeytingar
Tilbúinn þeytingur inniheldur oft sykur. Auðvelt er að gera súperhollan og bragðgóðan þeyting heima, án sykurs og annarrar óhollustu.
Agavesíróp
Margir telja að agave sé hollara en hefðbundinn sykur. Sannleikurinn er þó sá að sírópið inniheldur mikinn frúktósa sem líkaminn breytir í fitu, en að auki er agavesíróp betur í stakk búið til að brjóta niður kollagen en hefðbundinn sykur.
Ávaxtasafi
Ávaxtasafi og gos innihalda mikinn sykur, en litlar sem engar trefjar. Það er einmitt skortur á trefjum sem gerir safa óhollan. Trefjar eru nauðsynlegar til að hafa stjórn á blóðsykrinum, en miklar sveiflur á honum hafa slæm áhrif á húðina.
Skyndibiti
Skyndibiti er yfirleitt troðfullur af óhollri fitu og mikið unnum kolvetnum. Hann getur því orsakað leiðindabólur og útbrot.
Smjörlíki
Sum fita er bráðholl og góð fyrir húðina. Önnur bara hreint ekki. Rannsóknir hafa sýnt að mikil neysla á smjörlíki (transfitu) eykur hrukkumyndun.