Nanna er 20 kg léttari

Nanna Rögnvaldardóttir.
Nanna Rögnvaldardóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Matreiðslubókarhöfundurinn Nanna Rögnvaldardóttir var að gefa frá sér matreiðslubókina Létt og Litríkt. Nanna er ekki þekkt fyrir að vera eitthvert heilsu-gúrú en nú kveður við svolítið annan tón. Nanna hætti að borða hvítan sykur 2014 sem gerði það að verkum að kílóin hrundu af henni, hana langaði minna í sætindi sem gerði það að verkum að hún er í dag 20 kílóum léttari. 

„Þetta gerðist bara, markmiðið var ekki að léttast, heldur að reyna að losna við sykursýkihættuna og breyta dálítið viðhorfinu til matarins. Þá fylgdi hitt í kjölfarið og það var auðvitað ágætt en ekki aðalatriðið fyrir mér. Ég hef aldrei á ævinni fundið hjá mér þörf til að fara í kúr eða átak, mér hefur alltaf liðið vel með kílóin mín, sama hve mörg þau hafa verið, en ég sakna þeirra svosem ekkert, það skal ég viðurkenna. Ég breytti engu meðvitað í mataræðinu en hins vegar breyttist matarlystin þegar ég tók sykurinn út, ég verð sjaldnar svöng og minna en áður og þá borða ég auðvitað minna. Svo ákvað ég líka að borða hægar og vera meðvitaðri um það – ekki bara innihaldið eða hollustuna, heldur um sjálfa athöfnina að borða. Að gleypa aldrei neitt í mig í hugsunarleysi, og það skiptir máli. Kannski er ákveðin núvitund í þessu, það vildi svo til að þegar ég byrjaði á þessu var ég að lesa próförk að bók um núvitund og ákvað að nota eitt og annað sem ég hafði lesið um þar… en kannski hef ég misskilið þetta allt. Það virðist samt virka,“ segir Nanna. 

Þegar ég spyr Nönnu að því hvort lífið hafi breyst eitthvað eftir að hún léttist neitar hún því ekki. 

„Ég er óneitanlega léttari á mér, jújú. Ég var búin að vera slæm af bjúg á fótunum í mörg ár og er laus við hann núna, ég er mun liprari í hnjánum og mjöðmunum og þrekmeiri. Gæti sjálfsagt komist í þokkalegt form ef ég nennti að hreyfa mig. Ég er ekki búin að gera það alveg upp við mig hvort ég ætla að léttast meira, er ágætlega sátt við mig núna.“

Þeir sem lesa bloggið hennar Nönnu vita að hún er enginn aðdáandi megrunarkúra og hefur verið býsna gagnrýnin á það að sleppa þessum og hinum fæðutegundum. Hún hefur líka gagnrýnt svokallað „ofurfæði“ og segir að þetta sé alls ekki svona einfalt. 

„Mér finnst allt of mikið um að fólk leiti að auðveldu leiðinni eða setji hollustustimpil á eitthvað bara af því að það inniheldur þetta hráefni en ekki hitt. Ef það væri nú svo einfalt … En ég held að fleiri og fleiri séu að átta sig á að það er ekki til einhver ein leið eða eitt mataræði sem hentar öllum. Og ég er bara á góðri leið með að finna það mataræði sem hentar mér best – og þá meina ég matur sem er góður á bragðið, hefur góð áhrif á líkamann og mér finnst gaman að elda og borða,“ segir Nanna. 

Breyttir þú um mataræði smátt og smátt eða ákvaðstu einn daginn að taka U-beygju?

„Ég var nú búin að vera að gera ýmsar breytingar á mataræðinu síðustu árin, var til dæmis löngu hætt að drekka gosdrykki, hafði dregið verulega úr saltnotkun og þess háttar. Ég vissi líka alveg að ég þyrfti að fara að taka til í mataræðinu en vantaði eitthvert spark til að láta verða af því. Svo kom að því að blóðsykurinn var orðinn allt of hár og ég var komin með ýmis sykursýkiseinkenni. Ég vissi að ef ég ætti að eiga einhverja möguleika á að snúa því við yrði það að gerast þar og þá. Svo að ég hætti bara að borða allan viðbættan sykur og það fór strax að skila árangri, reyndar mun meiri en ég reiknaði með.“

Hvaða hráefni ertu að sleppa í nýju bókinni þinni sem þú hefur ekki gert áður?

„Engu. Ég nota engan sykur en annars er ekkert sem ég tek alveg út, ég borða bara hlutfallslega meira af því sem er hollara – það er mikið um grænmeti, fisk, heilkorn og baunir í bókinni. Bara venjulegt hráefni, yfirleitt í ódýrari kantinum – þetta eru mest hversdagsréttir. Lítið af kjöti en þó fáeinar uppskriftir. Ég útiloka eiginlega ekkert og satt að segja finnst mér allt of algengt að fólk hafi neikvætt viðhorf gagnvart mat eða ákveðnum fæðutegundum – að of mikil áhersla sé á allskyns „leysis“-bækur og -uppskriftir. Kolvetni, glúten, mjólkurvörur, egg, ger og svo framvegis, þetta er allt af hinu illa og óholtt fyrir alla, finnst sumum. En málið er bara ekki svo einfalt. Þetta þykir kannski einhverjum koma úr hörðustu átt frá manneskju sem hefur skrifað sykurlausa matreiðslubók en ég hef alltaf lagt áherslu á að sykur sé ekkert eitur, við borðum bara of mikið af honum. Og svo nota ég sykur í formi ávaxta – í hófi þó. Auðvitað eru ýmsir sem virkilega þurfa að forðast eitthvað vegna ofnæmis, óþols eða annars en ég er ekki ein af þeim og ég held að margir séu of fljótir að varpa sök á einhver tiltekin hráefni og taka þau út þegar ástæðan er kannski allt önnur.“

Þegar ég spyr Nönnu hvað drífi hana áfram í lífinu segir hún að það sé ekki mikil drift í henni.  

„En jú, sú fullvissa að maður eigi bara þetta eina tækifæri til að lifa og njóta, gera lífið eins gott og það getur orðið og vera eins góð manneskja og manni er mögulegt. Um að gera að nota það meðan heilsa og kraftar endast.“

Hver eru markmiðin þín fyrir 2016?

„Elda fullt af góðum mat og borða sumt af honum sjálf, skrifa einhver ósköp, eiga góðar stundir með börnum og barnabörnum, ferðast til staða sem ég hef ekki komið til áður, lifa lífinu. Og gefa eitthvað af mér, vonandi.“

Hvað ætlar þú að gera öðruvísi 2016 en þú gerðir 2015?

„Afskaplega fátt, ég var mjög ánægð með 2015. Reyndar hugsa ég, þegar ég lít til baka, að það hafi verið eitt besta árið sem ég hef átt  á allri minni bráðum 59 ára ævi.“

Ertu byrjuð á næstu bók?

„Ég er byrjuð á mörgum bókum. Hvort ég klára einhverjar þeirra og hverjar það verða þá – það veit ég ekki enn. Kemur í ljós.“

Baunasalat með halloumiosti

Ljósmynd/Nanna Rögnvaldar



225 g halloumiostur

2 msk ólífuolía

1 tsk paprikuduft, gjarna reykt

½ tsk timjan

½ tsk óreganó

½ tsk hvítlauksduft

cayennepipar á hnífsoddi

1 dós baunir, gjarna blandaðar

2 vorlaukar, grænu og ljósgrænu blöðin

2-3 vel þroskaðir tómatar

100 g maís, frystur eða niðursoðinn

lófafylli af salatblöðum, söxuðum

safi úr 1 límónu

pipar og salt

kóríanderlauf

Skerðu ostinn í þunnar sneiðar. Blandaðu saman olíunni og öllu kryddinu og veltu ostsneiðunum upp úr blöndunni. Láttu þær liggja smástund.

Helltu baununum í sigti og skolaðu af þeim undir kalda krananum. Saxaðu vorlaukinn og skerðu tómatana í litla bita. Blandaðu saman baunum, vorlauk, tómötum, maís og salati og dreifðu á fat eða í grunna skál.

Hitaðu pönnu, taktu ostinn úr olíunni og steiktu hann við meðalhita í um 1½ mínútu á hvorri hlið. Taktu hann svo af pönnunni. Hristu saman afganginn af olíunni, límónusafa og ögn af pipar og salti og dreyptu yfir salatið. Raðaðu að lokum halloumisneiðunum ofan á og berðu fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda