Þorbjörg Hafsteinsdóttir hjúkrunarfræðingur og næringaþerapisti mælir með því að fólk drekki frekar smjörlatte en venjulegt latte. Undirrituð spurði Þorbjörgu hvers vegna hún mælti með smjörlatte í stað venjulegs latte.
„Ástæðan fyrir því að ég kýs frekar smjörlatte en venjulegan er að samsetningin í honum er hagnýt. Flestallir fá annaðhvort of litla fitu, ranga fitu, lélega fitu eða hreinlega skaðlega fitu. Fólk þarf að borða meira af hollri og mikilvægri fitu,“ segir Þorbjörg.
Í smjörlatte er espressoskot eða instant kaffi, 1 msk. hreint ósaltað smjör og 1 msk. kókósolía. Þetta er sett í blandara í um það bil 10 sekúndur. Þorbjörg segir að fituumræðan sem staðið hefur yfir í 40-50 ár sé á villigötum.
„Þessi umræða hófst þegar farið var að tengja velmegunarsjúkdóma eins og offitu, háan þrýsting og kolesteról og hjartasjúkdóma, við mataræðið og þá varð fitan gerð að sökudólgi. Þá var fólki ráðlagt að forðast rautt kjöt og alla fitu sérstaklega dýrafitu og smjör en borða í staðinn jurtaolíur og smjörlíki og meira af brauði, pasta, hrísgrjónum og kartöflum. Það tók ekki betra við en að offitan snarhækkaði á árunum eftir, og velmegunarsjúkdómar til jafns við það. Það er ekki fyrr en fyrir svona 15 árum síðan að við fórum að tengja offitu og sjúkdóma við sykur og léleg kolvetni og sterkju,“ segir Þorbjörg.
Þorbjörg segir að það sé ekkert að dýrafitu frá grasfóðruðum dýrum.
„Hún virkar á heilann, taugakerfið, hormónakerfið, ónæmiskerfið, bólgur, brennslu og húð. Við erum að tala hér um áhrif á minni og einbeitingu, skýrleika og styrkingu og jafnvægi. Mettuð fita hefur líka mettandi áhrif þannig að við verðum saddari sem kemur í veg fyrir offát og nart.
Kókosolían er líka mettuð olía og gerir næstum það sama en samt ekki alveg þar sem þetta eru jú tvær mismunandi olíur. En kókosolían eykur fitubrennslu, og sérstaklega gerir hún það í MCT-formi sem einnig er fáanleg í heilsubúðum. Kókosolían er góð fyrir húð og meltingu og drepur candida-sveppi,“ segir hún.
Þorbjörg bendir á að kaffi sé ekki óhollt en það fari auðvitað eftir gæðum þess og magni. Hún sé alls ekki að halda því fram að það sé hollt að drekka 20 bolla á dag en tveir bollar séu allt í lagi.
„Gott kaffi inniheldur andoxunarefni og eykur brennslu og úthald. Kaffi og mettuð fita saman er þess vegna góður kokteill. Þetta er gott á bragðið ef drykkurinn er gerður rétt. Smjörlatte róar blóðsykur, gefur orku og jafnvægi og brennir fitu um leið,“ segir hún.