Sálfræðingarnir Þórdís Rúnarsdóttir og Heiðdís Sigurðardóttir standa að ráðstefnunni Gallabuxurnar – er eitthvað að þeim en ekki þér? sem haldin verður í Hörpu 2. október næstkomandi. Á ráðstefnunni verður skoðað hvaða áhrif markaðurinn hefur á sjálfsmynd fólks, og þá sér í lagi kvenna.
„Okkur finnst tíðni óánægju með líkama fólks vera að hækka. Það var til að mynda nýleg rannsókn innan háskólans sem sýndi að 70% háskólanema voru óánægð með eigin líkama. Önnur nýleg rannsókn sýndi að 50% stelpna í 9. og 10. bekk hafa farið í megrun, en í sömu rannsókn kom í ljós að átta ára börn vita algerlega hvað megrun er. Þá er framboðið af skyndilausnum, bókum og megrunarkúrum alltaf að aukast,“ segir Þórdís, spurð að því hvers vegna þær hafi ákveðið að koma ráðstefnunni á koppinn.
„Rannsóknir sýna mjög skýrt að megrunarkúrar skila engum árangri í baráttunni við ofþyngd. En einhvern veginn flæðir þetta áfram og verður verra og verra. Þetta hefur mikil áhrif á fólk og það fylgja þessu tilfinningar líkt og skömm og sektarkennd, sem eru eitrandi. Ráðstefnan einblínir því á jafnvægi, en við viljum tala um mikilvægi þess að finna sátt í stað þess að leita í öfgar,“ segir Þórdís, en hvað telur hún að valdi þessari aukningu í óánægju fólks með eigin líkama?
„Ég held að það séu margir þættir, en ég held að stærstu þættirnir séu samfélagsmiðlarnir. Við höfum alltaf verið að bera okkur saman við aðra, en í dag erum við stöðugt með líf annarra fyrir framan okkur. Við vitum að þetta er billjón dollara iðnaður, að auglýsa og koma vörunum á framfæri, og samfélagsmiðlar hafa gert það. Einnig er streita orðin faraldur í vestrænum samfélögum. Og ein lausn fólks út úr því er að finna skyndilausnir. Hvort sem það miðar að geðheilsu eða líkamsímyndinni.“
Þórdís bendir á að hér áður fyrr hafi það aðallega verið unglingsstúlkur sem hafi verið útsettar fyrir slæmri líkamsímynd, en bendir jafnframt á að um 25 – 30 ára aldur hafi margar hverjar vaxið upp úr hugsunarhættinum.
„Þá var eins og fólk hafi öðlast einhvern þroska til að lesa samfélagið betur. Í dag hefur hins vegar tíðni átraskana hjá konum, 40 ára og eldri, aukist. Það sást fyrst í Bandaríkjunum, og er farið að sjást hér heima líka. Ný könnun sem var gerð hjá Háskólanum á Akureyri sýndi einnig að ungir drengir eru farnir að hafa meiri áhyggjur af líkamsímynd sinni. Þetta hefur að langmestu leyti einskorðast við stelpur, en okkur finnst það vera hættuleg þróun og sýna hvað þetta er að fara í ranga átt,“ segir Þórdís.
En hvað geta foreldrar barna gert til að vernda þau fyrir áreitinu, sem er allt um kring?
„Ég myndi þó til dæmis benda foreldrum á að vera svolítið meðvituð um Youtube-notkun yngri barna, því þau eru fljót að rekja sig í hluti sem er ekki endilega gott að þau séu að horfa á. Sumir foreldrar, sérstaklega þeirra barna sem hafa verið að lenda í vandræðum, hafa verið að reyna að loka fyrir ákveðnar síður. En börnunum tekst oftast að finna leið í kringum það. Besta leiðin er að kenna börnunum þetta viðnám, kenna þeim að lesa samfélagið. Önnur leið er að styrkja sjálfsmynd barnanna, því barn með sterka sjálfsmynd kemur betur út úr þessu öllu saman. Í þriðja lagi að tala vel um eigin líkama í þeirra eyru,“ segir Þórdís að endingu.
Eins og áður sagði fer ráðstefnan fram 2. október og mun fjöldi fyrirlesara halda erindi. Þá mun heimildamyndin The Illusionist einnig verða sýnd á ráðstefnunni, en stiklu úr henni má sjá hér að neðan. Frekari upplýsingar um ráðstefnuna, sem ætluð er almenningi, má svo finna hér.