Ásdís Ásgeirsdóttir blaðamaður og ljósmyndari ætlar að fara í gegnum Ljómandi 13 námskeið Þorbjargar Hafsteinsdóttur sem byrjar formlega á miðvikudaginn. Námskeiðið er haldið á Oddsson og leggur Þorbjörg mikið upp úr því að fólk kveðji sykurinn og taki upp heilsusamlegri lífshætti. Meðan á þessu fjögurra vikna námskeiði stendur ætlar Ásdís að skrifa pistla um námskeiðið inni á Smartlandi. Ég lagði fyrir hana nokkrar spurningar áður en námskeiðið byrjar.
Hvers vegna langar þig að fara á Ljómandi-námskeið hjá Þorbjörgu Hafsteinsdóttur?
„Ég hafði heyrt um þetta námskeið og þekki fólk sem hefur farið og liðið vel og fundist þetta bæði skemmtilegt og fróðlegt. Svo langar mig til að borða hollar og missa nokkur kíló fyrir fimmtugt!“
Þorbjörg mun kafa ofan í mataræðið. Hvernig er mataræði þitt í dag? „Mataræði mitt yfir höfuð er nokkuð gott (ef við teljum ekki með jólin). Ég reyni að forðast sykur svona dags daglega og er sem betur fer ekki nammigrís. Ég drekk sjaldan gos og borða nánast engan unninn mat. En ég borða ábyggilega ekki nóg grænmeti og er ekki flink í að nota baunir, bygg eða kínóa í matargerð. Er aðeins of föst í að hafa hvít grjón eða pasta í mat. Ég borða ekki mikið brauð en fæ líklega ekki nóg af trefjum úr matnum.“
Hvað má betur fara?
„Það mætti alveg komast meiri regla á hollustuna. Að venja sig á að búa til hollustudrykki úr einhverju öðru en skyri til dæmis. Það væri gott að fá hugmyndir og breyta til aðeins í átt að enn hollara mataræði.“
Ertu að borða eitthvað sem þú veist að er ekki gott fyrir þig? „Ég á það til að fá mér einstaka gosflösku, nammi í bíó og svo er ég ansi veik fyrir kökum og ís. En það er oftast meira spari og þá oftar um helgar. Lakkrís er ákveðinn veikleiki sem ég leyfi mér kannski einu sinni í mánuði en þá borða ég líka allan pokann.“
Hvað býstu við að gerist á námskeiðinu? „Ég býst við róttækri breytingu á mataræðinu! Ég vona að mér líði vel af nýja matnum og að hann fari vel í mig. Mér hefur ekki alltaf liðið vel af of miklum heilsumat! Svo býst ég við að missa nokkur kíló!“
Óttast þú eitthvað? „Já, ég óttast að mér finnist þetta of öfgakennt og að mér þyki maturinn ekki góður. Ég er líka hrædd um hvernig ég verð ef ég fæ ekki minn daglega kaffiskammt! Sem eru ansi margir bollar yfir daginn! Breytingar eru alltaf smá ógnvekjandi en ekkert til að hafa áhyggjur af. Ég hlýt að lifa þetta af.“