Skiptir öllu máli að klæða sig rétt

„Það er ekki eins flókið að ákveða í hverju maður á að vera og það virðist í fyrstu. Frost, vindur, rigning eða sól? Það er mikilvægt að geta brugðist við síbreytilegu veðrinu á Íslandi en jafnframt látið sér líða vel, ekki of heitt og ekki of kalt.  Flestir kjósa að klæða sig í lagskiptan fatnað svo það sé hægt að stýra hitanum en það hentar mun betur heldur en að klæða sig í eina hnausþykka flík eða eina örþunna,“ segir Vilborg Arna Gissurardóttir í sínum nýjasta pistli: 

Fötunum er skipt upp í þrjú lög og þeim púslað saman eftir veðri og vindum.


Innsta lagið
er það sem er næst húðinni og sér um að hleypa rakanum frá húðinni.  Oft þegar maður er búinn að erfiða og orðinn sveittur verður manni hrollkalt þegar maður stoppar. Þess vegna skiptir öndunin svo miklu máli. Það er algjörlega bannað að vera í bómull en mælt er með ullar- eða gerviefnaflíkum. Ullin hentar að sjálfsögðu betur þegar kalt er í veðri og hefur hún ósjaldan bjargað mannslífum. Gerviefnin eru frábær þegar það er mjög heitt þar sem mörg þeirra hafa kælandi eiginleika. Þau safna að vísu frekar í sig lykt en þá er bara að smella örlitlu Roadaloni í þvottavélina og málið er leyst.

Miðlagið hefur einangrunargildi. Eftir því sem flíkin tekur meira loft í sig þeim mun meiri einangrun. Það hefur orðið mikil þróun síðustu ár og núna er það ekki bara flísið sem gildir heldur eru komnar allskonar útfærslur af þessum flíkum t.d. létt primaloft, blanda af flís- og primaloft-peysum og ýmislegt fleira. Það er ekkert sérstaklega mælt með því að vera í ullarpeysum ef það er rigning eða þörf á utanyfirjakka því þær eiga það til að þæfast hressilega undan núningnum. Softshell-buxur hafa komið sterkt inn síðustu ár og eru stundum kallaðar 90% buxur þar sem hægt er að vera í þeim 90% af tímanum. Þær eru vindþéttar og hrinda vel frá sér vatni.

Ysta lagið er skjólið sem ver okkur fyrir rigningu og vindi og jafnan kallað skeljar. Þetta eru oft tæknilegar flíkur með öndunarfilmum sem hleypa rakanum út en eru samt vatnsheldar. Mikilvægt er að flíkin passi vel og sé alls ekki of þröng því vatnsheldnin minnkar á snertiflötum. Í dag er hægt að fá jakka og buxur með allskonar fídusum og tæknilegum útfærslum á vösum, rennilásum og ermum. Gott er að hugsa fyrir því að ermarnar nái vel niður og jakkinn sé ekki of stuttur í mittið svo hann haldist nú örugglega á sínum stað í öllu bröltinu.  Að velja flíkur í skemmtilegum litum er góð hugmynd því þá sést maður betur og bónusinn er að allar myndir verða svo miklu líflegri!

Fyrir þá sem hafa áhuga á að stunda gönguferðir í sumar þá mæli ég alltaf með því að eiga góða skó. Það þarf svo sem ekkert að fara út í neinar stórfjárfestingar en góður sóli sem er bæði stöðugur og með gott grip hjálpar alltaf. Stuðningur við ökklann hjálpar og mikilvægt er að reima skóna bæði rétt og vel svo þeir þjóni tilgangi sínum. Fyrir léttar fjallgöngur sem krefjast ekki þess að vera að bera þunga poka eru léttir skór algjörlega málið. Stífir og þungir skór eru bæði óþægilegir og meiri líkur eru á hælsærum og þess háttar.

Svo er bara málið að skella vatni á brúsa og reima skóna!

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda