Ást við fyrstu hnébeygju

mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Kristín Sif Björgvinsdóttir útvarpsmaður á K100 er helköttuð, hraust og sterk. Hún er uppalin í Borgarnesi en flutti í bæinn 2008. Hún var alin upp við mikið frjálsræði, klifraði í trjám og var úti að leika sér öllum stundum á milli þess sem hún var á stífum íþróttaæfingum. Í dag æfir hún crossfit og hnefaleika og er að fara að keppa í því síðarnefnda í næstu viku. 

„Þegar ég um 11 ára gömul langaði mig að fara að æfa körfubolta. En þar sem við vorum bara þrjár stelpur í árganginum mínum sem vildu æfa körfubolta og það var enginn stúlknaflokkur í Borgarnesi var því komið þannig fyrir að við æfðum með strákunum. Síðan bættust fleiri stelpur í hópinn og áður en við vissum af vorum við komnar með fínasta lið. Öll unglingsárin æfði ég og keppti með stúlkna- og meistaraflokki Skallagríms og komst í landsliðsúrtakið fyrir U18 liðið,“ segir hún. 

Kristín Sif var líka á kafi í frjálsum íþróttum en ekki leið á löngu þar til hún kynntist lóðunum en það var ekki alveg tekið út með sældinni. 

„Ég æfði frjálsar íþróttir tvisvar í viku hjá Írisi Grönfeld á mínum yngri árum. Svo bættust körfuboltaæfingar við og æfði ég hann þrisvar í viku. Svo voru reglulega keppnishelgar þegar ég var komin í meistaraflokk. Síðan byrjaði ég að lyfta og stundaði ólympískar lyftingar og fannst það mjög skemmtilegt. En mér var strítt á því og þess vegna hætti ég að lyfta,“ segir hún. 

mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Kristín Sif flutti til Reykjavíkur 2008 og réð sig í vinnu á Hárgreiðslustofunni Salon VEH. Hún starfaði þar sem síma- og móttökudama ásamt því að hlaupa í þau störf sem þurfti að vinna. Eftir hrun bað Elsa Haraldsdóttir, eigandi Salon VEH, hana að færa sig yfir í heildsöluna sem hún rekur.

„Þegar ég fór að vinna í heildsölunni kynntist ég Svavari Erni hárgreiðslumanni og í framhaldinu réð hann mig til að sjá um tölvumálin hjá sér. Þegar það vantaði tölvunörd í morgunþáttinn hjá Svala & Svavari þá bað Svavar mig um að koma og prufa, ég hef verið með þeim síðan. Svala fannst vanta fleiri stelpur í útvarpsbransann svo hann lét mig byrja að æfa mig að taka kynningar og síðan áður en ég vissi af var ég farin að leysa af og síðan fékk ég helgarvaktirnar og finnst það mjög skemmtilegt,“ segir hún en í dag sér hún um helgarvaktirnar á K100 ásamt því að vera með stjörnufréttir í þætti Svala & Svavars. 

mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Árið 2012 fór Kristín Sif að hafa áhuga á crossfit. Hún skráði sig á grunnnámskeið í Crossfit Reykjavík í Skeifunni og eftir það fór boltinn að rúlla. 

„Ég fílaði það strax og fór auðvitað „all in“ eins og ég á til að gera og fór á svokallað Level 1 námskeið strax í framhaldinu af grunnnámskeiðinu og hef ekki litið til baka. Þetta var ást við fyrstu hnébeygju,“ segir hún og hlær. 

Þegar ég spyr hana út í hvernig hún æfi í dag segist hún alltaf æfa sex daga vikunnar og taki einn rólegan dag. Á rólegum dögum labbar hún eða teygir. Hún segist elska að æfa og finnist alltaf langskemmtilegast að lyfta. 

„Eftir að ég byrjaði í crossfit fór mér að finnast gaman aftur að æfa. Ég byrjaði að líta á æfingarnar sem áskorun og markmiðasetning kom að sjálfu sér því það er alltaf eitthvað til að vinna í. Svo auðvitað breyttist mataræðið til að ná meiri árangri og vöðvarnir byrjuðu að birtast. Það sem breyttist mest var andlega hliðin þvi að ég byrjaði að hafa meiri trú á sjálfri mér,“ segir Kristín Sif einlæg. 

„Crossfit breytti öllu hjá mér, andlega og líkamlega. Ég var með mjög mikla minnimáttarkennd sem nú er nánast bara horfin. Ég hef mikla trú á sjálfri mér og minni getu núna, en passa mig þó að halda í auðmýktina. Mér finnst sérstaklega frábært að fólk leitar til mín með spurningar og spyr mig ráða. Mér finnst æðislegt að geta ráðlagt fólki varðandi hreyfingu og mataræði. Crossfit er líka svo mikill félagsskapur hef eignast mína allra bestu vini þar.“

mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Crossfitið er þó ekki allt. Kristín Sif æfir líka hnefaleika. 

„Hnefaleikar eru eitthvað sem ég hef alltaf haft áhuga á og fylgst með. Mig langaði alltaf að byrja að æfa en það var auðvitað ekkert í boði. Svo prufaði ég að fara í tíma í Bretlandi þegar ég var 18 ára og þjálfaranum leist greinilega ekkert á mig og setti mig út í horn að sippa allann tímann og ég mætti ekki aftur þangað. Seinna langaði mig að fara í Mjölni en fannst ég engan veginn í nógu góðu formi. En svo lét ég til leiðast. 

Krakkarnir minir eru að æfa jiujitsu í Mjölni og mér fannst sniðugt að nota tímann meðan þau æfðu og skella mér í Víkingaþrekstímana í Mjölni. 

Í staðinn fyrir að fara á 6 vikna grunnnámskeið tók ég nokkra tíma hjá Steinari yfirþjálfara í Víkingaþrekinu en hann er líka yfirþjálfari í boxinu, til að læra að kýla og sparka og líka læra tækni fyrir þrekið. Hann sá eitthvað „potential“ og spurði hvort ég hefði áhuga á að prufa box og benti mér á að mæta á grunnnámskeið. Sem ég gerði og sé sko ekki eftir því.“

Nú er Kristín Sif farin að keppa í hnefaleikum í fyrsta sinn. 

„Ástæða þess að mig langar að keppa er að það er ótrúlega góð og skemmtileg tilfinning sem fylgir því. Ég hef keppt tvisvar á Íslandsmótinu í crossfit og maður ýtir sér alltaf aðeins lengra og hraðar í keppni. Þetta er sú tilfinning sem mig langar að finna í boxinu. 

Ég keppi minn fyrsta bardaga í september ef ekkert klikkar. Ég er búin að vera að bíða eftir að keppa síðan i vor. Það er erfitt fyrir stelpur að fá bardaga því það eru svo fáar stepur í boxi.“

Þegar hún er spurð út í hvað hún fái út úr hnefaleikunum segir hún að þessi íþrótt sé æðisleg. 

„Ég fæ mikið þol og styrk á því að boxa og svo er tæknivinnan svakaleg. Þolið hefur aukist gríðarlega eftir að ég byrjaði að æfa. Síðan er bara eitthvað svakalega skemmtilegt að standa maður á móti manni og skiptast á höggum.“

Hvað þarf að hafa til að bera til að vera góður í hnefaleikum?

„Númer eitt tvö og þrjú er agi til að æfa sig mikið sjálfur fyrir utan tímana. Þetta er svo mikil tækni að það er nauðsynlegt að æfa sig.“

Ertu ekkert hrædd við þetta? 

„Nei, ég er ekkert hrædd núna, en það var stórt skref að mæta i fyrsta sparr-tímann og vera eina stelpan. Ég á móti grjótuðum gaur sem æfir kickbox og box og jafnvel mönnum úr keppnisliðinu í MMA. Ég játa að það var ógnvekjandi. En það sem ég komst að er að þeir taka tillit og eru frekar að segja til og hjálpa mér að verða betri. Eitt skemmtilegasta sparr sem ég hef tekið var við hana Sunnu.“

Hvað með mataræðið, ertu á einhverju sérfæði?

„Ég var að byrja nýlega á geggjuðu mataræði sem heitir RP Strength og er algjör snilld. Pínu flókið í byrjun en þetta snýst um að borða rétt hlutföll af proteini, kolvetni og fitu í kringum æfingar. Ég er búin að létta mig um átta kíló síðan í lok febrúar,“ segir hún.

Er eitthvað sem þú borðar ekki til að ná árangri? „Ég drekk aldrei gos, lítið sem ekkert áfengi en annars er bara allt gott í hófi.“

Hvað ertu að borða á hefðbundnum degi? „Ég borða mikið grænmeti. Tómatar og brokkoli eru uppáhald. En þetta er bara venjulegur matur sem ég borða. Kjöt og fiskur, grænmeti, hnetur og fræ og síðan uppáhaldið mitt súkkulaði casein-búðingur á kvöldin með ferskum berjum og möndlusmjöri.“

Hvað færðu þér þegar þú vilt gera vel við þig? „Steik og bernaise.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál