Lífið breyttist eftir sambandsslitin

Elva Dögg ákvað fyrir tæpu ári að byrja hugsa betur …
Elva Dögg ákvað fyrir tæpu ári að byrja hugsa betur um eigin heilsu. mbl.is/

Elva Dögg Sigurðardóttir er ein af þessum íslensku ofurkonum, hún er 25 ára einstæð tveggja barna móðir sem vinnur á leikskóla ásamt því að stunda fullt háskólanám. Eftir að hún sleit sambandi við barnsföður sinn byrjaði hún lokins að setja sjálfa sig í fyrsta sæti og tók lífstílinn í gegn.

Í desember í fyrra, stuttu áður en Elva Dögg hætti með barnsföður sínum tók hún fyrstu skrefin í átt að breyttum lífstíl en þá var hún komin alveg upp í kok af sjálfri sér. Á tveimur vikum missti hún sex kíló heima í stofu eftir að hún skráði sig á frítt fjarnámskeið hjá Söru Barðdal en á þessum tíma var hún að nálgast þriggja stafa töluna.

„Síðan missti ég tökin aftur, en eftir sambandslitin þá bjó ég heima hjá mömmu og pabba og náði að detta aftur í gömlu rútínuna sem ég hafði verið í áður en ég kynntist barnsföður mínum og byrjaði að vera líkari sjálfri mér aftur. Ég byrjaði ekki í ræktinni fyrir alvöru fyrr en í sumar. Ég hef alltaf hatað ræktina og fundist þetta ógeðslega leiðinlegt og skammaðist mín fyrir hvað ég gat ekki lyft neinu, en stóra systir mín tók það að sér að kenna mér að lyfta og nota tækin. Hún stóð við bakið á mér og sýndi mér að það er allt í lagi að byrja létt, allir byrja einhvers staðar,“ segir Elva Dögg.

Lífið breyttist við barneignirnar

Elva Dögg hafði ekki alltaf verið í þyngri kantinum en lífið breyttist þegar hún eignaðist tvö börn með stuttu millibili. Elva Dögg var rétt um tvítugt þegar hún varð ólétt af sínu fyrsta barni. Rútínan sem fylgdi því að búa á hótel mömmu hvarf þegar hún flutti inn með barnsföður sínum og byrjaði að narta á kvöldin eins og hann átti til.

„Ofan á þetta þá fæddist fyrsta barnið mitt með leyndan hjartagalla sem uppgötvaðist í skoðuninni áður en við áttum að fá að fara heim og þar sem barnsfaðir minn þurfti að vinna þá var ég voða mikið ein að melta þessar fréttir. Ég náði aldrei almennilega að melta þær því ég leyfði mér ekki að syrgja heldur beit ég á jaxlinn og setti upp front í gegnum allt sem fylgdi hjartaaðgerðinni. Þessar breytingar tóku sinn toll, þannig með tímanum byrjaði ég að þróa með mér þunglyndi. Smátt og smátt útilokaði ég mig frá öllum og fann mér huggun í mat og þar með byrjaði ég að bæta á mig,“ segir Elva Dögg sem datt síðan niður í enn meira þunglyndi eftir að hafa átt seinna barn sitt. Hún segir að hún hafi helst ekki viljað fara út þar sem hún skammaðist sín fyrir vaxtarlag sitt en notaði mat áfram sem huggun.

Margt breyttist þegar Elva Dögg varð ólétt rétt um tvítugt.
Margt breyttist þegar Elva Dögg varð ólétt rétt um tvítugt. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki hægt að kenna tímaleysi um óhollan mat

Elva Dögg byrjaði ekki bara að hreyfa sig heldur tók hún líka mataræðið í gegn. Hún hætti að borða endalausan skyndibita og nammi og tók gos út, hún tekur samt fram að hún banni sér ekki neitt. „Ég hugsa þetta svolítið út frá því hvað myndi ég velja fyrir börnin mín, auðvitað myndi ég velja það sem er hollt og gefur þeim næringu þannig af hverju á ég ekki að hugsa svoleiðis um sjálfan mig líka?“

Þó svo að Elva Dögg hafi í mörg horn að líta lætur hún ekki ræktina mæta afgangi og segir að hún skipuleggi daginn í kringum ræktina en ekki öfugt. Margir kenna tímaleysi um óhollt matarræði en Elva Dögg bendir réttilega á að það taki jafnlangan tíma að skella í sig epli eins og að fá sér kex. Það tekur líka alveg jafnlangan tíma að smyrja sér hrökkbrauð eins og að smyrja venjulegt brauð.

Vellíðanin skín af henni

Elva Dögg segir það dásamlega tilfinningu að finna fyrir því hvernig líkami hennar er að styrkjast. „Mér finnst ég loksins vera „in control“ en ég er bara rétt að byrja og stefni á að styrkja mig enn þá meira.“ Andlega líðanin hefur líka tekið stakkaskiptum. „Fyrir ári síðan hefði ég ekki meikað hálfan dag við það sem ég geri núna. Hreyfingin hjálpar mér að vinna á þunglyndinu, ég er miklu léttari í skapinu og finnst bara allt miklu auðveldara og bjartara yfir öllu. Það skín greinilega líka í gegn hvað mér líður mikið betur því ég fæ það reglulega frá fólki hvað það geisli af mér og það sjáist hvað mér líður vel,“ segir Elva Dögg glöð í bragði.

Henni gengur því vel að skipuleggja sig enda segist hún vera mjög skipulögð og kassalöguð týpa að eðlisfari. Síðustu mánuði hefur hún lært að hugsa vel um sig og hluti af því er að gleyma ekki að slaka á. „Ég reyni að skipuleggja mig alltaf þannig að ég sé búin að öllu tengdu skólanum og heimilinu þegar börnin fara í pabbahelgar svo ég geti átt þarna tvo daga í að gera það sem mig langar og slaka á, það er algjörlega nauðsynlegt að passa upp á að gefa sér líka tíma í sjálfan sig þótt það sé ekki nema að sitja heilalaus heima og horfa á Netflix,“ segir Elva Dögg sem segist þó vera heppin með fólkið í kringum sig sem er alltaf til í að hjálpa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda