Margrét Jónsdóttir Njarðvík, eigandi ferðaskrifstofunnar Mundo, hefur haldið allskonar jól í gegnum tíðina. Ólíkt mörgum öðrum tekur hún sig taki á aðventunni og fastar. Hún segir að það skili miklum árangri, hugsunin verði skýrari og henni líði miklu betur í alla staði.
Margrét elskar að sofa í hvítum damaskrúmfötum og segir að það sé afar notalegt að skríða upp í tandurhreint rúm á aðfangadag.
„Best við jólin er að ég sef alltaf í hvítum straujuðum damaskrúmfötum með milliverki. Lyktin af þeim á aðfangadag er ómissandi sem og rjúpnalyktin. Best er auðvitað að næra samskipti og samveru með fólkinu sem ég elska.“
Þegar Margrét er spurð út í sín eftirminnilegustu jól nefnir hún jólin þegar synir hennar voru litlir.
„Jólin sem ég hef dvalið erlendis standa upp úr. Í Mexíkó var ég á siglingu allan aðfangadag í stað þess að stússast í eldhúsinu, spænsk jól eru frekar dauf fram að þrettándanum og ég gat ekki skilið að fólk horfði á fótbolta á aðfangadagskvöldi. Líklegast eru þó eftirminnilegustu jólin þegar strákarnir mínir voru litlir, spenntir og glaðir á jólunum. Það var dásamlegt að vera í því hlutverki að gefa í skóinn og búa til góða stemningu með þeim.“
Aðspurð hvort hún hafi einhvern tímann upplifað skrýtin jól nefnir hún jólin í Mexíkó.
„Það er skrýtið að vera í Mexíkó á jólunum því hitinn og birtan passa ekki við að það séu jól.“
Margrét treður ekki í sig kræsingum á aðventunni. Hún fastar og segir að það skýri hugsunina og geri henni gott.
„Undanfarin ár hef ég tekið jóla- og páskaföstu. Þá tek ég þrjár vikur á hreinu fæði – borða engan sykur, engan unninn mat og engan mjólkurmat. Tvær máltíðir á dag eru fljótandi og sú um miðjan daginn er ríkuleg. Það gerir mér gott og eykur meðvitund mína um holla lifnaðarhætti. Einnig fer ég alltaf á í það minnsta tvenna tónleika og reyni eftir mætti að búa til samverustundir með vinum,“ segir hún.
Um jólin eldar hún rjúpur ef hún kemst yfir þær og býr til heimagerðan ís. Eftir föstuna kann hún náttúrlega mun betur að njóta þeirra kræsinga sem jólin hafa upp á að bjóða.
Þegar Margrét er spurð út í jólagjafainnkaup segir hún þau verða æ einfaldari með hverju árinu. Hún kýs að gefa frekar samveru en eitthvað áþreifanlegt.
„Jólagjafir verða auðleystari með hverju árinu sem líður. Þær gjafir sem ég gef er gaman að velja og æ oftar vel ég að gefa samveru eða tíma – það sem ég á minnst af.“
Sendir þú jólakort?
„Nei, það hef ég ekki gert lengi lengi þó að alltaf sendi ég kannski þrjú stykki.“
Hvað kemur þér í jólaskap?
„Veðrið, myrkrið, tónlistin, skreytingarnar, samverustundirnar – allt hjálpast þetta að.“
Hvað langar þig í í jólagjöf?
„Þessa dagana er ég full af allsnægtatilfinningu og verð að segja að mig langar ekki neitt annað en að vera flutt inn í nýju íbúðina mína á jólunum.“
Upplifir þú mikið jólastress?
„Nei, ekki eftir að strákarnir mínir urðu fullorðnir. Nú vel ég mun betur hvernig ég ver tíma mínum.“
Flestir njóta þess að vera í fríi en Margrét er sjaldnast í fríi um jólin því hún er með marga skiptinema á sínum snærum og þeir þurfa yfirleitt á henni að halda um jólin.
„Eitt af því sem gerir jólin mín skemmtileg er að fylgjast með skiptinemum Mundo í Frakklandi, Bandaríkjunum og á Spáni. Ég elska starfið mitt og það er einmitt um jólaleytið sem skiptinemarnir fara að blómstra fyrir alvöru. Þá eru þeir komnir svo langt að bjarga sér á tungumálinu, eiga vini og eru komnir yfir helsta menningarsjokkið. Engu að síður eru jólin skiptinemunum erfið því eftir allt saman þá eru jólin tími sem við viljum verja með þeim sem við elskum mest. Því er hluti af mínum jólum að vera með skiptinemana mína á línunni og hvetja þá áfram.“