Það að léttast er bara bónus

Guðrún Bergmann.
Guðrún Bergmann. mbl.is/Árni Sæberg

Guðrún Bergmann var búin að prófa margar leiðir í átt að betra mataræði þegar tengdadóttir hennar rétti henni bókina Clean eftir dr. Alejandro Junger. Guðrún hélt að þetta væri enn ein megrunarbókin en eftir að hafa lesið hana ákvað hún að fara á hreinsikúrinn í bókinni, þýða bókina yfir á íslensku ásamt Nönnu Gunnarsdóttur og nú hafa 1.100 manns farið í gegnum Hreint mataræði, námskeið hjá henni. Hún segir að lífið gjörbreytist þegar fólk hættir að borða yfir tilfinningar sínar.

„Jóhanna tengdadóttir mín var nýbúin að kaupa þessa bók þegar ég kom til Texas í heimsókn til hennar og Guðjóns sonar míns haustið 2014. Vinahjón þeirra höfðu farið í hreinsunina saman og hún keypti hana til að þau gætu gert slíkt hið sama, en voru bara enn að lesa bókina á þessum tímapunkti. Ég var frekar hrokafull þegar hún sýndi mér bókina og sagðist vera búin að skoða svo margs konar mismunandi mataræði að ég nennti ekki að bæta meira við. Sem betur fer var þetta í upphafi tveggja vikna heimsóknar hjá þeim, svo ég fór að blaða í bókinni og fannst hún svo áhugaverð að ég endaði á að taka eintak hennar með heim og panta nýtt handa henni,“ segir Guðrún sem var búin að gera margar breytingar á mataræði sínu þegar hún kynntist hugmyndum Junger.

Guðrún þýddi bókina Hreint mataræði ásamt Nönnu Gunnarsdóttur.
Guðrún þýddi bókina Hreint mataræði ásamt Nönnu Gunnarsdóttur.

„Ég var alltaf til í að prófa eitthvað nýtt ef það myndi virka betur en það sem ég hafði prófað áður. Mér fannst Hreint mataræði hreinsikúrinn hins vegar svo skynsamlegur, vegna þess að þar ertu að nota fæðuna og mátt alltaf borða þig sadda/n. Svo notar þú bætiefni til að hreinsa líkamann og styrkja hann svo hann geti í raun endurnýjað sig.

Ég ætlaði að fara auðveldu leiðina þegar ég fór fyrst í gegnum hreinsikúrinn og panta pakka með próteinum og bætiefnum frá Clean Program í Bandaríkjunum. Ég komst hins vegar að því að þeir seldu pakkann ekki út fyrir landið, þar sem í bætiefnunum var ákveðin jurtablanda sem ekki er leyfð af Evrópusambandinu. Ég fékk því leiðbeiningar frá þeim hvaða bætiefni ég ætti að nota og hef síðan þá ráðlagt þau sömu á námskeiðum mínum.

Yfirleitt má vænta fráhvarfseinkenna fyrstu dagana þegar teknar eru út matvörur eins og kaffi, mjólkurvöru r, sykur og brauð og líkaminn fer í gegnum mesta afeitrunarferlið. Þá getur maður verið þreyttur og með höfuðverk. Á þeim tíma er um að gera að taka það rólega og hvíla sig, því þegar aðeins líður á ferlið eykst orkan til muna og maður fer að gera ýmislegt sem er á „geyma þar til seinna“ listanum.

Eitt það besta við ferlið finnst mér vera sú ráðlegging að borða bara í 12 tíma og fasta í 12 tíma. Alejandro Junger, höfundur Hreins mataræðis, segir að líkaminn þurfi átta tíma til að vinna úr matnum sem við höfum borðað yfir daginn og fjóra til að hreinsa hann af eiturefnum. Það hljómar eitthvað svo rökrétt og eftir fyrstu hreinsun fyrir þremur og hálfu ári hef ég haldið mig við þetta,“ segir hún.

Í bókinni er lagt til að fólk taki 21 dag en Guðrún ákvað að fara í átta vikna hreinsun en það gerði hún í samráði við heimilislækni sinn. Blóðgildi hennar voru mæld fyrir og eftir 24 daga. Hún segir að blóðgildin hafi verið miklu betri eftir hreinsun en fyrir hana.

„Mér finnst ég alltaf þurfa að deila góðum ráðum og upplýsingum sem snúa að heilsunni með öðrum, því heilsan er svo mikilvæg. Ég var í góðu sambandi við Sölku bókaútgáfu og sagði þeim af árangri mínum af hreinsikúrnum, sem þeim fannst áhugaverður og leituðu strax eftir útgáfuréttinum. Til að hraða mætti útgáfu bókarinnar var ákveðið að við myndum tvær þýða hana, ég og Nanna Gunnarsdóttir.“

Í framhaldinu fór Guðrún að halda námskeið upp úr bókinni og í dag hafa 1.100 Íslendingar farið í gegnum þetta prógramm. Guðrún segir að hún hafi haft það að leiðarljósi að hafa námskeiðin eins einföld og hægt er svo fólk myndi ekki gefast upp.

„Mörgum finnst svo ógnvekjandi að gera breytingar á mataræðinu, jafnvel þegar þeir vita að það muni gera þeim gott. Einföldun er því að mínu mati afar mikilvæg. Það tók mig nokkurn tíma að þróa námsefnið þannig að það veitti þær upplýsingar og þann stuðning sem það gerir í dag. Svo held ég bara áfram að bæta það eftir því sem ég læri meira sjálf.“

Guðrún segir að fólk noti mat oft og tíðum til að hugga sig.

„Við erum oft að fela djúpstæðan sársauka, einmanaleika, erfiðleika úr æsku, misnotkun og höfnun, svo eitthvað sé nefnt, á bak við matinn. Sælgæti gerir „súrt“ ástand í lífinu sætara og brauð, sem flestir eiga í sterku ástarsambandi við, er þungt í maga og slær því vel á allar tilfinningar sem vilja koma upp á yfirborðið.

Það verða auðvitað miklar breytingar þegar við tökum í burtu matinn sem hefur falið tilfinningar okkar og áföll svo vel. Sumir eru duglegir og takast á við undirliggjandi sársauka, á meðan aðrir fara aftur í gamla farið. Það eru ekki allir sem gera sér grein fyrir léttinum sem fylgir því að gera upp gömul mál, fyrirgefa og sleppa tökum á því gamla. Við verðum svo miklu sterkari og heilli ef við vinnum úr tilfinningamálunum okkar og um leið styrkist líkaminn. Tilfinningaleg áföll hafa nefnilega svo mikil áhrif á heilsu okkar því minningin um það sem fyrir okkur hefur komið situr í frumunum og getur leitt til sjúkdóma. Ein vinkona mín sem hefur mikla innsýn í þessi mál segir að ef við vinnum ekki úr gömlu áföllunum okkar komi þau oft fram sem alvarlegir sjúkdómar í kringum sextugt,“ segir Guðrún.

Á námskeiðunum leggur Guðrún mikla áherslu á að fólk taki inn ákveðin vítamín sem hjálpa fólki að halda sig frá sykri og annarri óhollustu.

„Í vítamínpakkanum eru magnesíum & kalsíum 2:1, probiotic 10 góðgerlar, silymarin sem er virka efni í mjólkurþistli, omega 3 og lyktarlaus hvítlaukshylki, auk psyllium husk sem er góðar trefjar fyrir meltinguna.

Í magnesíum- og kalsíumblöndunni, sem er mikilvæg fyrir ótal boðskipti í líkamanum og stuðlar að aukinni hægðalosun eru líka sink og D-3, sem gera upptöku bætiefnanna betri. Góðgerlarnir eru nauðsynlegir til að byggja upp betri þarmaflóru, en ástand örveruflórunnar þar hefur svo mikil áhrif á heilsu okkar almennt. Silymarin er styrkjandi fyrir lifrina, en hún er nokkurs konar endurvinnslustöð líkamans. Omega 3 virkar vel fyrir hjarta- og æðakerfið, auk þess sem það styrkir slímhúð líkamans og hvítlaukurinn drepur bakteríur sem kunna að vera í meltingarveginum. Þar er oft meira af þeim en marga grunar. Husk trefjarnar eru svo góðar til að þétta hægðirnar, auk þess sem þær virka sem næring fyrir góðgerlana.“

Nú hafa 1.100 manns farið í gegnum námskeið hjá þér og sumir koma jafnvel oftar en einu sinni. Hvers vegna hefur þetta slegið svona í gegn?

„Ég held að einfalda svarið sé að það virkar. Fólk losnar á einungis 24 dögum við þráláta höfuðverki, bólgur í liðum, bjúg, bakflæði, meltingin batnar til muna og almenn vellíðan eykst. Hjá ýmsum lækkar blóðþrýstingur, svefninn batnar og lundin verður léttari. Ég fæ iðulega pósta og símtöl frá fólki sem segist vilja koma á námskeið af því að vinkona eða vinur þess hafi komið og líti svo vel út og líði svo vel. Það er sérlega ánægjulegt að sjá þetta ferli virka fyrir svona marga.“

Oft heyri ég fólk á miðjum aldri tala um að það taki því ekki að tileinka sér tækninýjungar. Þú ert ekki stödd þar heldur býður fólki upp á námskeið online eins og sagt er. Er ekki nauðsynlegt að geta þjónustað þá sem búa erlendis eða eiga ekki heimangengt?

„Ég lít svo á að ég sé alltaf að læra og tækninýjungar eru þar ekki undanskildar. Ég byrjaði að bjóða netnámskeið í upphafi þessa árs og eftirspurnin hefur sífellt aukist. Þau gefa fólki á landsbyggðinni, í sumarhúsum og erlendis tækifæri á að vera með og fá daglegan stuðning í gegnum ferlið, en hann kemur í gegnum Facebook-hóp,“ segir hún.

Þú hugsar námskeiðin ekki út frá því að léttast heldur leggur mikið upp úr því að fólk lengi líf sitt og verði ekki veikt. Er sú hugsun ekki vænlegri til árangurs heldur en fólk sé bara að hugsa um að léttast?

„Hreiniskúrinn byggist fyrst og fremst á því að styrkja heilsu hvers og eins og hjálpa fólki að finna út hvaða fæðutegundir það eru sem gætu verið að valda bólgum og ýmsum óþolseinkennum. Hann eykur því lífsgæðin og þau eru svo mikilvæg. Bónusinn er svo að margir léttast, eiga auðveldara með allar hreyfingar og verða léttari í lund.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda