Silja Björk Björnsdóttir er 26 ára skúffuskáld að norðan. Hún starfar sem kaffibarþjónn og þjálfari í fræðsluteymi hjá Te og kaffi. „Ég hef verið framarlega í baráttunni gegn fordómum í garð geðsjúklinga síðustu fimm ár, hef skrifað fjölda greina og haldið fyrirlestra þess efni og er einn stofnenda GEÐSJÚK og #égerekkitabú samfélagsmiðlabyltingarinnar sem fór fyrst á flug í október 2015. Um þessar mundir stunda ég líka nám í kvikmyndafræði við Háskóla Íslands og á von á mínu fyrsta barni, þannig að þá má kannski orða það þannig að ég sé með mörg járn í eldinum,“ segir Silja.
Þegar Silja lítur til baka segir hún að líkamsvirðing sé eitthvað sem maður hafi alltaf verið að hugsa um ósjálfrátt, hvort sem það hefur verið á neikvæðan eða jákvæðan hátt. Skilaboðin sem dynja á manni frá unga aldri um hvernig maður eigi að líta út, hvernig maður eigi að haga sér og hvað þykir æskilegt á hverjum tíma fyrir sig. „Sem manneskja er maður auðvitað í stöðugum samanburði. Af hverju er þessi svona en ekki ég?“
„Snemma fer þetta ekki að snúast um neitt annað en yfirborðskennt útlit og hvernig er tekið á móti líkama manns og útliti í samfélaginu. Auðvitað var maður óöruggur sem barn og unglingur, sérstaklega á mótunarárunum, þegar líkaminn er að breytast og allir líkamar vinkvenna þinna eru að breytast á sama tíma og tímaritin, sjónvarpið, poppkúlturinn allir eru að segja ykkur hvernig er ákjósanlegast að vera.“
Silja segir að fyrir sér sé líkamsvirðing tvíþætt hugtak. „Það er eitt að elska líkamann sinn og útlit hans eins og hann er og svo annað að stunda heilbrigðan lífstíl, einblína á heilsu innra sem utan sem mér finnst líka vera stór partur af líkamsvirðingu.“
Það var ekki fyrr en hún var komin yfir tvítugt að hún fór að hugsa um andlega og líkamlega heilsu sína. Hún hafði verið mjög þunglynd og veik, átti í óheilbrigðu sambandi við mat og mataræði og segist hafa borðað eins og ruslatunna. Hún tengdi mat við tilfinningar og borðaði til að líða vel, til að fagna, til að hugga sjálfa sig og þegar henni leiddist og vildi gleyma hversu illa henni leið.
Silja hefur aldrei haft gaman af íþróttum og því ekki stundað þær af nokkru viti. Í kjölfarið þyngdist hún mikið og bar enga virðingu fyrir líkama sínum. „Ég bar ekki virðingu fyrir því hvernig hann þurfti að nærast eða viðhalda sér, hreyfingunni sem hann þurfti og hvernig hann leit út. Ég horfði á mig í spegli og ég gjörsamlega hataði það sem ég sá, ekki bara af því ég hafði bætt á mig einhverjum kílóum heldur líka bara vegna þess að ég bar ekki virðingu fyrir sjálfri mér, hvorki líkama mínum né andlegu ástandi. Ég var ekki að hugsa vel um sjálfa mig.“
Hún byrjaði að hitta sálfræðing og stuttu seinna einkaþjálfara. Einkaþjálfarinn hjálpaði hennar að beina sjónum að því sem skipti hana máli varðandi líkama sinn. Það var ekki endilega útlitið eða hversu léttur eða þungur hann var. Heldur úthald, hversu sterk hún varð og heilbrigð. Silja segir að þá hafi virðingin komið.
„Ég lærði að hreyfing og gott mataræði breytti öllu, líka innra með mér. Það var ekki bara það að ég leit „betur“ út ef svo má að orði komast, heldur leið mér líka betur innra með mér og það skein held ég meira í gegn en einhver kílóatala. Ég hef svo alveg tekið tímabil þar sem ég er þvengmjó og allir hrósa manni fyrir hvað maður er mjór og sætur, en þá hefur mér liðið svo illa í sálinni að ég hef verið að svelta mig. Það að læra að það er ekki samasemmerki á milli andlegrar heilsu og þess að vera æðislega mjór var gríðarlega mikilvægt skref fyrir mig í átt að skilja betur líkamsvirðingu og hvers virði ég er í samfélaginu, burtséð frá kílóatölum og „magaspiki“.“
„Ég get ekki verið ánægð, liðið vel og elskað sjálfa mig nema ég sé í góðu andlegu jafnvægi. Þannig að ég passa það fyrst og fremst að vera í góðu jafnvægi andlega, fara til sálfræðings þegar mér finnst ég þurfa á því að halda og kúpla mig út, hugleiða og staldra við þá og þegar og einblína á það sem mér finnst raunverulega skipta máli.“
Silja er ólétt og segir að það hafi veitt sér nýja sýn á það að virða líkamann sinn. Hún hélt að meðgangan myndi ganga illa því hún hefur lent í tveimur bílslysum og verið bakveik sökum þess. Meðgangan hefur hins vegar gengið mjög vel og hefur Silja aldrei elskað sjálfa sig jafnmikið. „Ég er ekki að segja að allar konur þurfi að upplifa það að verða óléttar til þess að „fatta“ hvað líkamsvirðing gengur út á og það er líka örugglega fullt af konum sem líður alls ekki svona vel á meðgöngunni, en fyrir mína parta hefur þetta kennt mér að bera nýfundna virðingu fyrir þessu sköpunarverki og hvað hann er fær um.“
„Þú átt bara einn líkama. Punktur. Það pælir enginn svona mikið í þínum líkama eins og þú sjálf/ur/t. Það er á þína ábyrgð að sjá um hann, rækta hann og elska því ef þú gerir það ekki þá gerir það enginn annar, “ segir Silja.
„Við þurfum að hætta að einblína svona ótrúlega mikið á ytra útlit og fituprósentur og huga meira að almennri heilsu. Fara til læknis? Líkamsvirðing. Fara út að labba, skreppa í ræktina eða sund og hreyfa sig aðeins? Það er líkamsvirðing. Hugsa vel um andlegu heilsuna og heilann, sem er partur af líkamanum þínum og starfsemi hans, það er líkamsvirðing. Að vera jákvæður og góður við sjálfan sig, sleppa öllum samanburði og gera bara betur í dag en maður gerði í gær – það er líkamsvirðing.“
Silja segir sjálfa sig og sína lífsreynslu veita sér innblástur til að virða líkama sinn. Hún segir þó að það sé ótrúlega þarft og gott að sjá aðrar konur og annað fólk og tala um þessi málefni. „Ég byrjaði á því að hætta að bera mig saman við annað fólk. Enginn spáir eins mikið í mínu útliti og ég. Útlit skiptir ekki öllu máli, maður lærir það hægt og bítandi á lífsleiðinni. Ég geri það sem mér finnst gott, það sem gerir mig hamingjusama og stundum þarf maður að gera erfiða, leiðinlega hluti til þess að öðlast frið og hamingju. Það getur verið gott að snúa samfélagsmiðlum á andhverfu sína og birta myndir af manni sem maður myndi kannski ekki annars gera eða er ekki 100% ánægður með. Gefa þessu útlitsdýrkandi batterí svolítið löngutöngina.“