Lífið er bölvaður barningur

Katrín Björk Guðjónsdóttir er 24 ára í bataferli eftir tvær …
Katrín Björk Guðjónsdóttir er 24 ára í bataferli eftir tvær heilablæðingar og einn blóðtappa.

„Ágúst er greinilega mánuðurinn sem kemur með stóru sigrana og sýnir mér að ég megi aldrei nokkurn tímann svo mikið sem íhuga það að gefast upp. Lífið er bölvaður barningur á mismunandi sviðum fyrir okkur öll,“ segir Katrín Björk Guðjónsdóttir ofurhetja í sínum nýjasta pistli:

Ég er svo gífurlega lánsöm að vera elskuð og pössuð af þeim allra besta unnusta sem hugsast getur. Fólkið sem stendur mér næst leggur sig allt fram um að geta á hverju degi borið mig uppi á einhverju því mýksta og þægilegasta skýi sem til er og þá fæ ég að dansa með fólkinu sem ég elska svo undurheitt, umvafin allri þeirri ást, kærleik og væntumþykju sem nokkur getur ímyndað sér, föðmuð af þessum óstöðvandi og gífurlega skemmtilega hlátri sem er alls staðar í kringum mig. Ég er svo heppin. Þó að líkamleg heilsa sé ekki upp á marga fiska þá dreymir mig stórt og ég fæ að stefna huganum í þær allra hæðstu hæðir.


Mér finnast það vera hrein og klár forréttindi að fá að átta sig á því að við erum öll okkar eigin skipstjórar og ráðum því hvernig við tökum á hlutunum. Ég reyni alltaf að sigla í birtunni og logninu en ef illviðrið gómar mig þá er ég fljót að koma mér úr því. Ég sigli nefnilega mínum bát og veiði einungis sigrana upp úr fljóti lífsins, þeir gleðja sjóarann síkáta (mig) alltaf jafnmikið sama þó að sumir þeirra séu alveg agnarpínulitlir, flestir eru svolítið stærri og svo þá koma alltaf inn á milli þessir risastóru. Tilfinningin sem hríslast um mig alla við að draga þessa risastóru inn er eitthvert það stórskemmtilegasta samansafn af tilfinningum sem ég þekki, það er einhvers konar blanda af eftirvæntingu, fögnuði, ótrúlegri gleði, ólýsanlegri ánægju og þegar ég er orðin nokkuð fullviss að sigurinn sé unninn byrja ég að hlæja og grenja til skiptis.

Það er svo mikil og innileg ánægja sem ég fyllist þegar ég skrifa þessi orð því ágústsigurinn er stór og breytir öllum áherslum í þeirri þjálfun sem ég stunda.

Í seinustu viku fór ég bara tvisvar og hitti þjálfarana mína og fékk að ganga og taka á undir þeirra verndarvæng og leiðsögn. Ég er svo ótrúlega heppin með þjálfara, þær passa að ég gangi ekki fram af mér en þær leyfa mér alltaf að gera mitt albesta og stundum þá fæ ég að gera jafnvel örlítið meira og reyna að gera aðeins betur. Þetta er þrjóskupúkinn sem bæði eltir mig og talar í mér og skipar mér að gera mitt allra besta og í það minnsta reyna að áorka miklu meira. Þökk sé honum þá stundum kemur árangurinn í stökkum.

Í sumar þá hafa nokkrir pínu-agnar-smáir sigrar unnist í göngunni. Fyrsti agnarsmái „sigurinn“ ef sigur má kalla, sem „vannst“ var sá að ég endanlega gafst upp á því að nota göngugrind til að styðja mig í göngunni, mér fannst sem hún væri bara fyrir mér og gerði ekki annað en að hefta mig. Ég gat ekki ráðið skreflengdinni, ef ég vogaði mér að vera skrefstór þá kostaði það mig nokkra slæma og ljóta marbletti á fæturna mína. Eins truflaði það mig alveg óskaplega að hafa báðar hendurnar fastar til að stýra grindinni, svo ofan á þetta allt þá finnst mér hún bara vera afskaplega ljót, hún skyggir á mig og fötin sem ég klæðist fá ekki að njóta sín jafnmikið og ég vil að þau geri. Þetta hentar mér alla vega ekki akkúrat núna kannski þroskast ég upp í það að geta gengið með/við göngugrind.

Ég kasta göngugrindinni fegin frá mér og byrja að ganga á milli þjálfarans og svo gríp ég í handrið með vinstri hendi. Þannig geng ég góðan spotta, ég æfi gönguna þannig, alveg sama hvort ég geng á jafnsléttu, upp brekku eða niður brekku.

Í seinustu viku fann ég fyrir einhverri aukinni innspýtingu af þeim almesta krafti sem mig óraði ekki fyrir að ég væri svo heppin að geta búið yfir. Ég var að ganga niður brekku og allt í einu stoppa ég og bið þjálfarann minn að sleppa mér því ég ætlaði að athuga hvort ég gæti haldið jafnvægi einungis með því að halda í handriðið og reyna að stíga skref. Þjálfarinn minn var treg til að fá sig til að þora að treysta mér en hún gerði það á endanum og ég tók þrjú skref þar sem eini stuðningurinn sem ég hafði var einungis vinstri höndin á handriðinu! Í næsta tíma tók ég TÓLF skref þar sem ég gekk upp brekkuna og studdi mig einungis við handrið!

Ef þið fylgið mér á Instagram (katrinbjorkgudjons) þá sáuð þið eflaust „storýin“ hjá mér þegar þetta átti sér stað. Ég er alveg fullviss um að þessi aukni ágústkraftur sem ég hef fyllst á undanförnum þremur árum komi frá öllum þeim aukna krafti sem Reykjavíkurmaraþonið árið 2015 veitti mér, ég er viss um að ég búi að þeim krafti út allt lífið mitt!

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda