Áhrifavaldurinn Erna Kristín Stefánsdóttir hefur beitt sér fyrir jákvæðri líkamsímynd á samfélagsmiðlum. Í bókinni Fullkomlega ófullkomin segir Erna Kristín ásamt fleiri konum sögu sína, hvernig þær lærðu að elska líkama sinn eins og hann er. Bókinni, sem er komin út, verður fagnað með útgáfupartý í Lindex á morgun, föstudag, klukkan átta og eru allir velkomnir að sögn Ernu Kristínar.
Smartland birtir hér brot úr kafla úr bókinni þar sem áhrifavaldurinn Fanney Dóra segir opinskátt frá sársaukanum sem fylgdi því að finnast hún vera feit, ferðalaginu að því að taka sjálfa sig í sátt og ekki leyfa lýsingarorðinu feit að skilgreina sig.
„Tuttugu og eins árs uppgötvaði ég að þetta væri ekki það versta í heimi, hin ódauðlegu orð skyldu fá að sleppa um munn mér. Orðin sem mér var bannað að segja, ég væri nú ekki feit heldur væri ég stór, stórbeinótt, plús stærð, sæt. Já, hvers vegna gat ég ekki verið feit af því að ég var sæt?“ segir Fanney Dóra í bókinni og heldur áfram.
„Ég áttaði mig fljótlega á því að ég gæti verið fyrirmynd, fyrir stelpuna eða strákinn sem passar ekki í fötin í Kringlunni. Sem borðar í leyni því enginn má sjá eða dæma, sem fer í ræktina í skjóli nætur því enginn má dæma. Ég gæti verið sú, sem fólk gæti litið upp til. Oj, hvað það var erfitt. Að finna tárin renna vegna þess að þú sagðir nei við stefnumóti af því að þér fannst þú alltof feit. Að finna tárin renna þegar þú fékkst ljótu skilaboðin á Snapchat, þar sem sagt var að þú værir alltof feit. Að þurfa samt að vera opin og segja fólki að þér finnist þú flott og að þú lítir í spegil á hverjum morgni og hrósir þér.
Það sem breytti lífi mínu var að leyfa mér að upplifa allar tilfinningar, að upplifa af hverju ég verð sár þegar einhverjum úti í bæ finnist ég feit. Af hverju er þetta að slá mig utan undir? Ég veit þetta. Ég er feit! Í mínum huga er það að vera vörður líkamsímyndar að passa að allar líkamsgerðir eigi rétt á sér. Ég neita að segja að fólk fái að vera óheilbrigt. Fólk mun aldrei geta litið á mig og sagt að ég sé óheilbrigð, það er ég alls ekki. Þá verð ég reið. Orðið feit gerir mig ekki reiða lengur, en óheilbrigð er ég ekki. Ég er feit. Ég er líka manneskja, dóttir, systir, kærasta, förðunarfræðingur, bloggari, snappari, nemandi, kennari, hjartahlý, hamingjusöm, kvíðin, gölluð, jákvæð, fullkomin að ýmsu leyti. Ég er allt þetta og meira. En þetta eina orð hafði áhrif á alla mína æsku, eyðilagði ótal ár fyrir mér. Í dag skilgreinir þetta ósegjandi orð mig ekki lengur, í dag læt ég öll hin orðin skilgreina mig. Annað væri bara vitleysa og seint verður sagt að ég sé vitlaus.“