Það er hægt að upplifa alveg ótrúlega stemningu með því að fljóta. Til að fljóta setur viðkomandi á sig sérhannaða íslenska flothettu og setur flotbönd á fæturna. Íslenski hönnuðurinn Unnur Valdís hannaði flothettuna 2011.
Með flothettuna og flotböndin á fótunum er ekkert annað í stöðunni en að leggjast á bakið í sundlaug og finna hvernig þreytan og streitan hverfur. Með því að fljóta losnar um spennuna í líkamanum en best er að ná að gera það í klukkutíma eða svo. Í sundlaugum landsins er hægt að prófa samflot án endurgjalds. Sumstaðar þarf fólk að koma með sínar eigin flothettur en á öðrum stöðum er boðið upp á flothettur til láns. Hægt er að fylgjast með á síðunni Samflot á Facebook.