Óskarsverðlaunaleikkonan Kathy Bates hefur grennst töluvert á undaförnum árum. Bates er sögð hafa misst yfir 27 kíló en í viðtali við UsWeekly segir hún það hafa tekið sig tíma að komast á þann stað sem hún er á í dag.
Bates forðast freistingar eins og skyndibita og gos en hún segir núvitund einnig hafa hjálpað sér með að borða minni skammta.
„Núvitund, bara að vera meðvituð um hvenær ég á að ýta disknum frá mér,“ sagði Bates. Talar hún um að á ákveðnum tímapunkti þegar fólk er búið að fá nóg tali heilinn og maginn saman. „Trixið er að veita þessu athygli og ýta disknum frá sér.“
Bates segir fólk þurfi að búa yfir þolinmæði ef það ætlar að ná sama árangri enda tók breytingin nokkur ár. Hún er ekki hrifin af orðinu viljastyrkur en ákveðni kann hún betur við. Hún sér heldur ekki eftir því að hafa tekið sig á.
„Ég hef aldrei verið við jafngóða heilsu,“ sagði Bates. „Mér líður eins og allt annarri manneskju. Ég get hreyft mig, Ég get gengið. Ég óska þess bara að ég hefði gert þetta fyrir mörgum árum.“