90% af öldrun húðarinnar vegna sólar

Lára G. Sigurðardóttir læknir.
Lára G. Sigurðardóttir læknir.

„Það er svo merkilegt að þó maður viti eitthvað upp á tíu þá fer maður ekki endilega eftir því. Það var alskýjað þennan dag þarna sem ég var stödd með fjölskyldunni í klifurferð hátt upp í fjöllum Ítalíu - svo hátt að við komumst í snertingu við skýin. Það var ekkert sérstaklega hlýtt. Líklega vegna veðuraðstæðna vorum við ekki innstillt á að vernda húðina og bera á okkur sólarvörn,“ segir Lára G. Sigurðardóttir læknir í sínum nýjasta pistli: 

Sem mér finnst skrítið til að hugsa eftir á því ég hafði skömmu fyrir ferðina lesið yfir og gert athugasemdir við skýrslu um skaðsemi útfjólublárra geisla fyrir Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina (WHO). Auk heldur hafði ég rifjað upp og skrifað fræðsluefni fyrir þáverandi vinnustað minn um hvernig útfjólubláir geislar geta leikið okkur grátt.

Sólin elskar allt nema…

Þegar sólinni loksins skín þá lifnar allt við, meira að segja mannsandinn. Hvernig má það þá vera að sólin sem heldur í okkur lífi geti einnig skaðað okkur? 

Rannsóknir benda til þess að allt að 90% af öldrun húðarinnar megi rekja til sólarinnar. Húðin verður slöpp, fær línur, æðaslit, ójafna áferð, sólarbletti og jafnvel húðkrabbamein. Það sem við teljum stundum eðlilega öldrun er oft á tíðum einfaldlega afrakstur sólbaða. Prófaðu að bera saman húð sem sól skín sjaldan á og oft til að sjá hve sólin hefur látið húðina eldast.

Þegar sólin er varasömust

UVA og UVB geta verið lúmskir því þeir kveikja ekki hitanemunum í húðinni sem myndu vara okkur við. Hér eru nokkrar staðreyndir um sólargeislana:

  1. Því hærra sem sól er á lofti, því sterkari eru sólargeislarnir. Hámark er venjulega milli kl. 10 og 16 en fer eftir staðarklukku og breiddargráðu. Á vefsíðunni Timeanddate(https://www.timeanddate.com/sun) geturðu fylgst með hádegi á hverjum stað. Þar sérðu t.d. að hádegi í Reykjavík er oftast í kringum 13:30.
  2. Því lengur sem þú ert í sólinni, því meiri skaða geturðu orðið fyrir. Til að fá nóg D-vítamín þarftu ekki að vera lengur úti en um 10-15 mínútur í ermalausum bol eða stuttbuxum.
  3. Því nærri miðbaug sem þú ert, því sterkari eru geislarnir. Þá er afar varasamt að fljúga frá norðurslóðum suður á bóg og fara beint í sterka sól þegar húðin  hefur ekki fengið tíma til að aðlagast.
  4. Því hærra yfir sjávarmáli sem þú ert því sterkari eru geislarnir og meiri líkur á aðbrenna. Því er góð regla að fara aldrei af stað upp á fjall án þess að smyrja á sig sólarvörn, hafa höfuðfat og annan fatnað sem ver húðina.
  5. Um 80% af UV-geislum fara í gegnum skýin sem geta auk þess endurspeglast frá sumum skýjum. Sömuleiðis geta sólargeislarnir endurvarpast frá yfirborði, sérstaklega vatni og snjó.
  6. UVA geislar ná til húðarinnar allt árið um kring en UVB eru sterkastir á sumrin á okkar slóðum. UVA geislarnir smjúga í gegnum rúðu þannig að ef þú situr inni í bíl eða húsi þá geta þeir skaðað húðina. Sjá mynd af 69 ára karlmanni sem keyrði vörubíl í 28 ára (mynd: New England Journal of Medicine).
  7. Ýmiss lyf geta gert húðina viðkvæmari fyrir sólinni. Dæmi eru sýklalyfið docýcyklín (t.d. Doxylin), þíasíð þvagræsilyf (t.d. Cozaar Comp og Darasíð), bólgueyðandi gigtarlyf (t.d. Íbúfen, Voltaren, Naproxen) og náttúrulyfið Jónsmessurunni (St. John’s worth).

Brennd og brún húð

Þegar við brennum þá hafa sólargeislarnir náð að skaða húðfrumur sem ræsir ónæmiskerfið til að hreinsa burt dauðar frumur og laga skemmdirnar sem eftir eru. Vegna bólgunnar þá er meira blóðflæði í húðinni og okkur getur fundist við líta frísklega út - svo lengi sem við erum ekki illa brunnin!

Húðin er klókt líffæri og hefur innbyggða hæfni til að verjast sólargeislunum. Þegar geislarnir lenda á húðinni fer ákveðin tegund af frumum (melanócýtar) að framleiða melanín, sem er litarefnið sem gefur húðinni brúnan lit. Hversu mikið melanín húðin getur framleitt er erfðatengt. Sumir eiga létt með það á meðan hjá öðrum framleiðir hún lítið sem ekkert af melaníni, eins og albinóar.

Það má hugsa um melanín sem einskonar regnhlíf, sólargeislana sem regndropa og þig sjálfan sem húðfrumu. Því brúnni sem húðin er að upplagi því stærri er regnhlífin og því minni líkur á að sólarregnið nái að skaða þig. Ef þú ert ljós á hörund er regnhlífin þín eins og kokteilsólhlíf sem gefur litla vörn.

Fyrir utan skaðann sem geislarnir valda húðinni þá geta þeir einnig aukið líkur á að fá ský á auga eða önnur augnvandamál. Og mikilvægt er að átta sig á að börn hafa þynnri og fíngerðari húð og því hættari við að brenna en fullorðnum. Börn sem brenna fyrir táningsaldur eru talsvert hættara við að fá húðkrabbamein síðar á ævinni.

Örugg í sólinni

Meðalvegurinn er oft vandrataður en það eru þekktar leiðir til hans. Í fyrsta lagi er mikilvægt að velja breiðvirka sólarvörn, þ.e. sem verndar húðina bæði gegn UVA og UVB geislum. UVB eru ábyrgir fyrir bruna en UVA geislarnir ná dýpra í húðina og eru mikið til ábyrgir fyrir öldrun húðarinnar. Báðir geta valdið húðkrabbameinum.

Sem dæmi þá er avobenzone algengt innihaldsefni sólarvarna því það síar út bæði UVA og UVB geisla þar sem það tekur upp UV-geisla af bylgjulend 290-400 nm. Avobenzone getur verið óstöðugt og því eru efnin octocrylene og mexoryl of notuð samhliða til að vörnin endist lengur. Önnur efni sem hafa breiðvirka vörn eru zinc oxide og titanium dioxide, sem fólk með viðkvæma húð þolir oft betur. Fólk með feita húð þolir oft betur gel eða sprey en fólk með þurra húð sækir oft frekar í krem. 

Þá þarf sólarvörnin að vera 30 SPF eða hærra og bera hana á hálftíma áður en farið er í sól. Fatnaður, sérstaklega með SPF vörn, höfuðfat og skuggi eru allt atriði til að hafa í huga. Og síðast en ekki síst sólgleraugu með breiðvirkri vörn.

Börn læra að bera á sig ef við kennum þeim mikilvægi þess og komum sólarvörn inn í daglega venju, t.d. bera á sig eftir að bursta tennur á morgnana. Annað sem hjálpar er að leyfa barninu að velja með þér sólarvörn, t.d. sprey eða krem. Skýjaður himinn getur verið varasamur því þá þola börn það að vera lengur úti og finna ekki áhrifin af sólinni.

Gjóaðu eftir öðru en hitanum

Þegar þú skoðar veðurspána gjóaðu þá augunum eftir UV-index því hann segir þér talsvert um hversu líkleg/ur þú ert til að brenna. Eftir því sem hann er hærri skal hafa í huga að nota meiri varnir, t.d sólarvörn, sólgleraugu, fatnað, höfuðfat og sólhlíf ef UV er mjög hár (10-15). Á vefsíðunni Sunburn map (https://sunburnmap.com/) geturðu slegið inn staðsetningu, valið húðgerð og séð hversu langan tíma tekur fyrir þig að verða rauð/ur eða brenna og hvaða vörnum mælt er með. 

Gleðilega sólardaga

Eins mikið og lifnar yfir þegar sólin skín þá fer okkur best að hugsa vel um húðina, því okkur var bara gefin ein húð. Sjálf féll ég á raunveruleikaprófinu - við brunnum öll í fjallinu, líka börnin mín. Ég varð eðlilega örg út í sjálfa mig því þetta hefði ekki þurft að fara svona. En maður notar reynsluna sér næst sér til varnar. Það er nefnilega ekki nóg að vita hlutina, maður þarf að fara eftir þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda