Leyndur athyglisbrestur? 

Ljósmynd/Mads Christensen

„Í þessari grein langar mig að vekja athygli á ADD (athyglisbrestur). ADD er ekki það sama og ADHD sem flestir tengja við ofvirkni. Athyglisbrestur getur plagað einstakling án þess að hann sé ofvirkur, og jafnvel líklegt að fjöldi einstaklinga sé með ADD án þess að vita af því,“ segir Þórey Kristín Þórisdóttir, klínískur sálfræðingur og markþjálfi, í sínum nýjasta pistli:

ADD er sem sagt athyglisbrestur án ofvirkni. Einkennin eru margvísleg og ætla ég að reyna koma þeim algengustu frá mér og miða hérna sérstaklega við börn.

Dæmigerðar setningar sem ég tengi við ADD eru:

„Ég man ekki neitt“

„Ég á svo erfitt með að muna hluti“

„Ég er bara með svo lélegt minni“

Jú auðvitað muna börn ekki allt, ekki frekar en við fullorða fólkið. En ef þetta eru algengar setningar þá leita ég að öðrum táknum t.d. merkjum um lélegt tímaskyn. Það getur til dæmis komið fram í endurteknum spurningum um hvenær einhver viðburður á að eiga sér stað.  

Annað einkenni getur komið fram í frestunaráráttu. Frestar barnið að hefjast handa? Þegar vinnan hefst er þá erfitt að fylgja verkefninu frá upphafi til enda?

Ert þú foreldri sem hefur ítrekað heyrt það á foreldrafundum að „hann/hún getur miklu meira en hann/hún gerir“?

Er skólagangan erfið af því að heimaverkefnin skila sér ekki heim eða barnið „man“ ekki hvað það á að gera heima?

Á barnið erfitt með að skipuleggja sig?

Gerir barnið oft mistök þegar það er að gera eitthvert verkefni, jafnvel létt verkefni sem þú veist að það ræður alveg við?

Er barnið oft utan við sig? Eða upplifir þú sem foreldri að barnið er ekki að hlusta á þig? Einmitt af því að barnið er utan við sig?

Ef þú sem foreldri kannast við mörg þessara einkenna þá mæli ég með að kanna málið nánar.

Hluti einstaklinga með ADD lendir oft í ágreiningi sem getur stafað af því að þeir eru utan við sig, fresta hlutum eða mæta of seint á viðburði. Þetta getur skapað gremju hjá foreldrum, kennurum eða vinum vegna þess að þetta getur túlkast sem áhugaleysi.

Einstaklingar með ADD sem fara í gegnum skólakerfið ná oft ekki að klára námið eða eiga erfitt með það. Þetta getur svo leitt til að þessir einstaklingar eiga erfitt með að fóta sig í lífinu og skipta þar af leiðandi oft um frama. Auk þess getur sjálfsmatið beðið hnekki til lengri tíma.  

Einungis það að kanna málið eða vera opin(n) fyrir valmöguleikanum getur umbylt lífi barna með ADD og ekki einungis þeim heldur líka foreldrunum upp á að skilja barnið sitt betur. Heili einstaklinga með ADD vinnur nefnilega öðruvísi við móttöku upplýsinga en okkar hinna.

Ég vona að þessi grein nái til foreldra barna með ADD en líka til fullorðinna einstaklinga sem sjá sjálfa sig í eitthvað af þessum einkennum. Að vera meðvitaður og opinn fyrir möguleikanum getur skipt sköpum fyrir lífsgæði einstaklinga með ADD.

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent fyrirspurnir hér: https://mindtherapy.dk/kontakt/

Þórey Kristín Þórisdóttir, klínískur sálfræðingur og markþjálfi.
Þórey Kristín Þórisdóttir, klínískur sálfræðingur og markþjálfi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda