„Ég vil byrja á að þakka fyrir jákvæðar viðtökur við seinasta pistli mínum um ADD. Ég hef fengið fjölda fyrirspurna vegna greinarinnar. Annars vegar, hvað sé hægt að gera ef grunur leikur á að barn sé með ADD og hins vegar hvað fullorðnir einstaklingar sem þola illa lyfjameðferðir geta gert. Mun ég reyna svara þessum tveimur spurningum í þessum pistli og vil benda á að nær allt hér fyrir neðan á einnig við um ADHD,“ skrifar Þórey Kristín Þórisdóttir, klínískur sálfræðingur og markþjálfi, í sínum nýjasta pistli:
Ef grunur leikur á að barn sé með ADD þá er barnið oftast nær í grunnskóla. Á þeim vettvangi verða einkennin nefnilega oft sýnilegust. Það væri mjög gott að taka spjall við kennara barnsins þar sem hann eyðir talsverðum tíma með barninu í einmitt þeim aðstæðum þar sem reynir á verkefnavinnu og þarf af leiðandi einbeitingu. Starfsmenn skólans eiga að vita hver næstu skref eru varðandi greiningu ef sterkur grunur leikur á að barnið sé með einkenni ADD.
Fullorðnir einstaklingar sem hafa verið greindir með ADD og þola illa lyfjagjafir geta prufað önnur úrræði. Þá er þetta dæmigerða líkt og regluleg hreyfing og hollt mataræði eitt af því sem getur ýtt undir betri einbeitingu. Sykraður matur hefur ekki góð áhrif á blóðsykurinn og getur einbeitingin sveiflast í takt við hann sem dæmi.
Rannsóknir hafa einmitt stutt við mikilvægi morgunmats, börnum sem borða reglulegan morgunmat (greining eða ekki greining) gekk betur í skólanum en hópurinn sem borðaði engan morgunmat sýndi ein rannsókn.
Reglulegur og góður nætursvefn er ekki síður mikilvægur.
Þetta á að sjálfsögðu við bæði börn og fullorðna.
Fæðubótaefni? Þau geta gert mikið gagn. Rannsóknir hafa leitt í ljós að Omega 3 fitusýrur úr t.d. fiskiolíu eða hörfræjaolía hafa mjög jákvæð áhrif á andlega heilsu og heilann almennt. Vinkona mín hafði orð á því að kennari barnsins hennar hefði einmitt séð mikinn mun á einbeitingu barnsins eftir að hún byrjaði að gefa barninu lýsi reglulega.
Að auki hef ég heyrt mjög góðar sögur af Happy Calm Focus sem fæst í Heilsuhúsinu á Íslandi. Það er hægt að lesa umfjallanir hér á Amazon. Það er þó ekki ætlað ungum börnum frekar en lesitín.
Vinkona mín sem þoldi illa Happy Calm Focus sagði mér að hún hefði fundið mjög mikinn mun á einbeitingu sinni eftir að hafa tekið inn lesitín. Sumir rannsakendur vilja meina að einstaklingar með Alzheimer eða aðra hugræna hrörnun geti haft gagn af lesitíni. Náttúrulegt lesitín er efni sem finnst nú þegar í líkama okkar og raunar öllum lífverum.
Að lokum vil ég benda á að álag hjálpar aldrei til. Álag eða stress gerir alltaf einkenni verri, sama í hvaða formi þessi einkenni eru. Þetta gildir um króníska verki, ADD, áráttu og þráhyggju og svo framvegis. Reyndu að forðast álag eftir fremsta megni því langtímastress eitt og sér hefur neikvæð áhrif á skammtímaminnið.
Get svo ekki endað pistilinn án þess að benda á mindfulness (núvitund) fyrir alla aldurshópa. Rannsóknir sýna að mindfulness geti dregið verulega úr einkennum ADD en einnig ADHD.
Ég vona að þið getið dregið gagn af þessum pistli. Fyrirspurnir eða tímabókanir fyrir ráðgjöf má senda hér: https://mindtherapy.dk/en/contact/