Hægt verður að heita á hlaupara Samtaka um endómetríósu í Reykjavíkurmaraþoninu á laugardaginn. Þórunn Sveinbjarnardóttir, fyrrverandi ráðherra, er ein af þeim sem ætlar að hlaupa fyrir Samtök um endómetríósu í Reykjavíkurmaraþoninu en hún þekkir sjúkdóminn af eigin raun.
„Ástæða þess að ég safna áheitum fyrir Samtök um endómetríósu er tvenns konar: Fyrr á þessu ári lést vinkona mín Elsa Guðmundsdóttir sem hafði glímt við endómetríósu og afleiðingar hennar í marga áratugi. Hún var rúmlega sextug. Ég hleyp í minningu Elsu. Ég hleyp líka fyrir sjálfa mig og allar aðrar konur sem hafa greinst með endómetríósu. Ég er ein af þeim heppnu. Ég greindist upp úr þrítugu og þurfti bara eina stóra aðgerð. Meira fé í rannsóknir og meiri meðvitund um sjúkdóminn innan heilbrigðiskerfisins,” segir Þórunn sem ætlar að ganga rösklega tíu kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu.