„Það er enginn sem gerir þetta fyrir mann“

Evert Víglundsson býr yfir mikilli reynslu þegar kemur að þjálfun …
Evert Víglundsson býr yfir mikilli reynslu þegar kemur að þjálfun og heilsu. Ljósmynd/Aðsend

Það þekkja margir Evert Víglundsson úr CrossFit Reykjavík og Biggest Loser en nú er hægt að fara á netnámskeið hjá honum í gegnum Frama. Evert brennur fyrir að hjálpa fólki að bæta lífsstílinn og vonast til þess að geta hjálpað enn fleirum en hann hefur gert með námskeiðinu. Þörfin hefur aldrei verið meiri en nú en hann segir mannkynið ansi illa statt.

„Strákarnir hjá Frama komu að máli við mig fyrir þremur mánuðum. Þeir báðu mig að búa til einskonar masterclass-námskeið með fókus á almenna heilsu og hreysti,“ segir Evert um námskeiðið. Evert viðurkennir að vera mikið matarnörd og hefur sjálfur nýtt sér masterclass-námskeið á netinu til að mynda hjá Gordon Ramsey.

Evert vonast til þess að námskeiðið fái fólk sem þarf að gera eitthvað í sínum málum til þess að snúa við blaðinu. Fólk fær tólin til þess með 18 hnitmiðuðum fyrirlestrum um allt sem lýtur að heilsu, mat, svefni, hreyfingu og hugleiðslu.

Fólk þarf að vinna fyrir betri heilsu

En hvað þarf til þess að gefast ekki upp? Fólk skortir oft ekki viljann til þess að skrá sig á námskeið en gefst svo fljótlega upp. Evert segist einmitt fjalla um þetta á námskeiðinu. Hann segir stöðugleika lykilatriði.

„Það sem skiptir mestu máli í öllu er stöðugleiki. Það skiptir meira máli að þú mætir reglulega í ræktina en hvað þú gerir. Ég held að flestir ætli sér of mikið í byrjun og sjá svo fram á að ráða ekki við það. Ef þú ferð á æfingu í fyrsta sinn eftir nokkurra mánaða, jafnvel ára, bið og svo líður þér bara alveg hræðilega illa af því líkaminn er ekki tilbúinn í nein átök. Þannig byrja rólega og aðalatriðið er alltaf að mæta. Þetta á við um svefninn, mataræðið, hugleiðsluna og hreyfinguna,“ segir Evert.

„Það eru engin trix í þessu, þetta er bara vinna sem fólk þarf að skila og það er enginn sem gerir þetta fyrir mann,“ segir Evert þegar hann er spurður um leynitrix sem fær fólk til þess að mæta á æfingu. „Mættu alltaf, það er 90 prósent af þessu. Ef þú nærð að gera það í nokkrar vikur ertu í rauninni kominn yfir þennan hjalla, allavega samkvæmt öllum fræðum hvað það tekur langan tíma að koma sér upp nýjum venjum. Þá ætti það að taka þrjár til fjórar vikur,“ segir Evert og segir þetta eiga líka við um mataræði. Ef þú mætir og vinnur vinnuna þína muntu ná árangri að sögn Everts. Hvað viðkemur mataræði mælir hann með því að 80 prósent af öllu mataræði séu holl. Það verður einnig auðveldara að halda sig við það eftir þrjár til fjórar vikur. 

Evert ráðleggur fólki að finna sér hreyfingu sem því finnst skemmtileg, annars mun það pottþétt gefast upp. Sjálfur er Evert í crossfit og þrátt fyrir að íþróttin sé fyrir alla þýðir það ekki að allir elski crossfit. Hann líkir þessu við bíóferðir. Flestum finnst gaman í bíó en það eru ekki allir sem vilja fara á Hringadróttinssögu.

Mannkynið á botninum

Evert segir kyrrsetu mikið vandamál og sér mun á heilsu fólks í dag og þegar hann byrjaði að þjálfa fyrir um 20 árum.

„Heimurinn hefur aldrei verið veikari. Mannkynið hefur aldrei verið veikara og það má allt saman rekja til ákvarðana sem við tökum varðandi lífsstílinn okkar á hverjum einasta degi. Það er alveg magnað með allar framfarirnar í tækni og vísindum að við séum svona veik á 21. öldinni. Ástæðan er lífsstíllinn; það er nokkuð sem við höfum vald á og getum breytt.

Ég tek eftir því hjá börnunum að þau eru minna tengd við vöðvakerfið, þau eiga erfiðara með að skilja hreyfingu svona sem eitt dæmi. Ég vona bara að við séum komin á botninn varðandi þetta ástand af því það er mikil vakning í heiminum þegar kemur að heilbrigðum lífsstíl,“ segir Evert. 

„Gerðu þitt besta til að vera besta útgáfan af sjálfum þér,“ segir Evert að lokum. „Það er það sem ég kenni og lifi eftir sjálfur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda