Ásdís fastar daglega til að vera hraustari

Ásdís Ragna Einarsdóttir grasalæknir hugsar vel um heilsuna.
Ásdís Ragna Einarsdóttir grasalæknir hugsar vel um heilsuna.

Ásdís Ragna Einarsdóttir grasalæknir er öllum hnútum kunnug þegar kemur að heilsunni og hefur aðstoðað gríðarlega marga við að finna sína fjöl þegar kemur að heilbrigðum lífsstíl. Hún veitir hér lesendum Heilsublaðs Nettó innsýn í sína eigin rútínu og gefur nokkur heilræði sem gott er að hafa á bak við eyrað. 

Hvað þýðingu hefur góð heilsa fyrir þig? 

„Góð heilsa að mínu mati er að upplifa orku og vellíðan í líkamanum, vera í góðu andlegu jafnvægi og vera fær til að geta tekist á við verkefni dagsins, auk þess að geta sinnt áhugamálunum og ekki hvað síst notið þess að vera með fjölskyldu og vinum,” segir Ásdís aðspurð hvernig hún skilgreini hugtakið góð heilsa.

„Til þess að eiga kost á góðri heilsu hef ég m.a. í  gegnum árin stundað útihlaup og styrktarþjálfun. Það síðarnefnda finnst mér mjög mikilvægt fyrir okkur konur til að viðhalda vöðvamassa og beinþéttni og örva framleiðslu á góðum hormónum sem veita okkur vellíðan. Hreyfing er ómissandi partur af daglegu lífi hjá mér og ég hef tamið mér að fara í göngutúra á hverjum degi. Það er mín hugleiðsla og sá tími dagsins þar sem ég næ að hlaða batteríin. Göngutúrar eru að mínu mati algjörlega vanmetin hreyfing og hafa heilmikil heilsufarsleg áhrif og það getur verið gott að hægja aðeins á sér og stunda væga hreyfingu til móts við öll átökin í ræktinni.” 

Ásdís segir flesta vita nokkurn veginn hvað sé æskilegt og hvað ekki þegar kemur að heilbrigðu líferni.

„Aðalmálið finnst mér vera að skapa góðar heilsuvenjur og viðhalda þeim svo við náum þeim árangri og jafnvægi sem sem viljum öðlast með heilsufarið okkar. Sjálf hef ég reynt að tileinka mér ýmsar einfaldar venjur líkt og að passa vel upp á svefninn, velja lífræna og heilsusamlega fæðu, fasta daglega, hreyfa mig og nota infra-rauða gufu reglulega,” segir hún og bætir við að sveigjanleiki sé ekki síður mikilvægur.

„Að gera sér dagamun og gleðja sálina skiptir miklu máli. Í mínu tilfelli er það oftast dökkt súkkulaði sem verður fyrir valinu enda súkkulaðikona með meiru. Heilsusamlegt mataræði á ekki að snúast um boð og bönn heldur að njóta þess að borða mat sem okkur líður vel af og leyfa okkur „trít” öðru hvoru þegar þannig liggur á okkur.”

Mætti vera meira af grænmeti og góðri fitu á disknum

Ásdís hefur unnið náið með fjölda fólks undanfarin fimmtán ár og hefur því góða yfirsýn yfir hvað mætti betur fara hjá þverskurði þjóðarinnar – ef svo má að orði komast.

„Mér finnst margir enn þá flaska á að borða nóg af grænmeti og góðri fitu. Eins er líka algengt að fólk sé að ofnota kaffi, orkudrykki og nota of mikið af sykri og hveiti. Hvað mataræðið varðar þá eigum við að næra okkur út frá því hvað hentar okkar líkama og heilsufari en ekki endilega að eltast við næstu tískubylgju í mataræði. Hlustum heldur á skilaboðin sem líkaminn er að senda okkur og aðlögum mataræðið því sem nærir okkur í takt við núverandi heilsufar og lífsstíl.”

Hún bendir á að sömuleiðis skipti svefninn okkur höfuðmáli og þar megi oft gera betur.

„Að vera vansvefta getur haft talsverð áhrif á heilsuna. Samhliða mikilli streitu geta þessir þættir ýtt undir þróun á ýmsum sjúkdómum. Við þurfum að sofa til að funkera vel og ég sé mikið af svefnvandamálum hjá mínum skjólstæðingum sem þarf að vinna markvisst með en góður svefn og hvíld eru lykilatriði ef við ætlum okkur að bæta heilsufarið.”

Við erum fyrirmyndirnar

Ásdís segir einnig mikilvægt fyrir foreldra að vera meðvitaðir um að vera fyrirmyndir.

„Börnin þurfa vissulega góða leiðsögn varðandi næringu, en fyrir mér er eitt af lykilatriðunum að vera góð fyrirmynd sjálf sem foreldri og vera með hollari fæðu sýnilega á boðstólum á heimilinu. Það ber þó að forðast að vera með boð og bönn en reyna heldur að draga úr inntöku á sykri, unnum kolvetnum, sætabrauði, ávaxtasöfum og orkudrykkjum, sem hefur stóraukist hjá börnum og unglingum síðustu ár. Manni blöskrar oft að sjá hvað sumar þessar vörur innihalda mikinn sykur og kolvetni sem eru ætlaðar fyrir börn og unglinga svo sem dísæt jógúrt, safar, orkustykki, o.fl. Svo er auðvitað mikilvægt að börnin okkar séu að stunda einhvers konar hreyfingu þeim til gagns og gamans,” segir hún. 

Hefðbundinn dagur í lífi Ásdísar:

  • Ég fasta alltaf a.m.k. 12-14 klst. og stundum lengur suma daga (þá drekk ég bara vatn, grænt te og sódavatn).
  • Morgunmatur: grænn þeytingur, eða chiagrautur, eða möndlu-/ kókósjógúrt með ferskum berjum.
  • Hádegismatur: grænt salat með avókadó og kjúklingi, eða lax og grænmeti, eða egg/hummus og avókadó með súrdeigsbrauði.
  • Ef ég þarf millimál seinni partinn sem gerist ekki oft þá fæ ég mér valhnetur, kókósflögur og dökkt 85% súkkulaði eða epli með tahini eða möndlusmjöri. Ég geri mér líka stundum koffínlausan latte með kakó, kollageni og möndlumjólk í millimál.
  • Kvöldmatur: fiskur, lambakjöt, hreinn kjúklingur. Meðlæti er alls kyns grænmeti toppað með góðri fitu s.s. ólífuolíu. Stöku sinnum nota ég quinoa með mat en nota þó aðallega rótargrænmeti og grænmeti eldað á ýmsa vegu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda