„Þegar talað er um kulnun er yfirleitt átt við kulnun (e.burnout) í starfi en það er einnig hægt að lenda í kulnun í foreldrahlutverkum og jafnvel samböndum. Þetta er lítið í umræðunni en engu að síður mikilvægt málefni,“ segir Þórey Kristin Þórisdóttir sálfræðingur og markþjálfi í sínum nýjasta pistli:
En hvað er kulnun? Talað er um kulnun þegar einstaklingar upplifa langtímaálag sem leiðir til andlegrar örmögnunar, tilfinningalega eða líkamlega. Það sem einkennir kulnunina í þessu samhengi er þegar minnstu hlutir geta orðið yfirþyrmandi vegna langtímaþreytu sem stafar af því að þurfa sífellt að mæta kröfum barnsins/barna (maka).
Rannsókn frá árinu 2019 leiddi í ljós að þeir foreldrar sem upplifa kulnun eiga í hættu að aftengjast barni sínu. Hugsanlega því að barnið verður tenging við vanlíðan sem langtímaálagið hefur haft í för með sér. Þetta getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir tengslamyndun foreldris og barns. Enn fremur fer foreldri að efast um sjálft sig sem gott foreldri sem eykur enn á vanlíðan foreldra. Þar sem fleiri foreldrar eru útivinnandi miðað við áður fyrr, þá leiðir það til meira álags. Að auki hefur átt sér stað mikil fjölgun einstæðra foreldra. Vinnan og aðrar skyldur keppa við börnin um tíma og athygli foreldra.
Það skal tekið fram að það er ekkert til sem heitir fullkomið foreldri og það að reyna vera slíkt getur einnig leit til örmögnunar og ofþreytu.
Rannsóknir hafa átt erfitt með að finna kynjamun en þar sem að karlmenn skora almennt aðeins hærra en við konur á mælikvarða sjálfs-umhyggju (e. self-compassion) þá er hugsanlegt að konur séu aðeins berskjaldaðri. Ein rannsókn sýndi að útivinnandi mæður eru í sérstökum áhættuhóp.
Það sem eykur einna mest áhættuna á kulnun hjá foreldrum er vanræksla í eigin garð. Rannsókn leiddi í ljós að þegar foreldrar gera eitthvað fyrir sjálfa sig sem gerir þeim kleift að hlaða batteríin þá er það einstaklega gott fyrir foreldrið og um leið börnin og getur virkað sem fyrirbyggjandi.
Foreldrar verða passa sig að vanrækja ekki sjálfa sig og sín áhugamál. Þá er félagslegi hluturinn einnig mjög mikilvægur. Margir nýbakaðir foreldrar eiga erfitt með að fara frá barninu sínu og það getur komist upp í vana. Það fyrsta sem einstaklingar vilja setja á hakann þegar þeir upplifa álag er félagslífið, sem er miður, því félagslífi fylgir oft kátína og gleði og það að hlægja leysir úr læðingi endorfín sem dregur úr vanlíðan. Sama gildir um hreyfingu.
Það er mikilvægt að foreldrar séu meðvitaðir um það að hugsa vel um sjálfa sig. Ef þú ert foreldri sem ert komið á stað örmögnunar þá er hugsanlega góður tími að leita hjálpar, hvort sem það er hjá vinum, ættingjum eða fagaðila.
Í þessari grein tók ég aðallega fyrir kulnun í foreldrahlutverki en vil samt sem áður vekja athygli á að hugsanlega tengja einhverjir skilgreininguna (kulnun) við samband sitt og þá kröfur af hendi maka. Hvort sem það er, þá er mikilvægt að vera meðvitaður og hlúa að sjálfum sér.
Hægt er að senda Þóreyju fyrirspurn HÉR.